fös. 4. júlí 2025 11:58
Alþingi Loks virðist þokast í samkomulagsátt um þinglok, þó ekkert sé frágengið um þau.
Spennufall á Alþingi og þinglok nær

Betur horfir um þinglokasamninga nú en verið hefur, hljóðið í þingmönnum um það er allt annað en undanfarna daga og dagskrá þingsins ber vott um að verið sé að róa ástandið.

Þingfundur hófst klukkan 10 í morgun, en um svipað leyti lauk ríkisstjórnarfundi. Ráðherrar gáfu ekki kost á viðtölum að fundi loknum, en í þinginu var allt með óvenju kyrrum kjörum og óhætt að tala um spennufall í Alþingishúsinu.

Þar voru á dagskrá rekstrarmál eins og fjáraukalög, fjármálaáætlun og stöðugleikareglan, en veiðigjaldafrumvarp Hönnu Katrínar Friðriksson hvergi sjáanlegt. Það er hins vegar ekki eins og pólitíkin sé fokin út í veður og vind. Ráðherrar koma til óundirbúinna fyrirspurna síðdegis í dag og þaðan verður ugglaust eitthvað að frétta þó hugsanlega verði harkan minni en síðustu daga.

Samningaviðræður komast á skrið

Þingfundur stóð til miðnættis í gær, en hafði þá raunar verið frestað nokkrum sinnum meðan þingflokksformenn hittust. Þeir héldu áfram fundi fram undir klukkan eitt í nótt og miðað við brúnina á þingmönnum í morgun og frið í þingsal virðist talsvert hafa miðað í samkomulagsátt.

Þingmenn, sem mbl.is ræddi við, ítrekuðu þó að ekkert væri frágengið. Í samningum sem þessum væri ekkert klárt fyrr en allt væri klappað og klárt.

Eftir því sem næst verður komist hafa þingflokksformenn ekki bundist fastmælum um fund í dag, enn sem komið er, en það getur gerst fyrirvaralaust.

Lítið er látið uppi um mögulegt samkomulag, en þar til á fundinum í gærkvöldi hafði ekkert þokast frá því upp úr slitnaði um liðna helgi og samskiptin yfir ganginn milli stjórnar og stjórnarandstöðu helguðust af stælum og störukeppni.

Veiðigjöldin umsemjanleg

Þar virðist eitthvað hafa breyst í nótt. Eðlilegast er að álykta að stjórnarflokkarnir hafi gefið ádrátt um að rúm kynni að vera til einhverrar málamiðlunar um framkvæmd veiðigjaldahækkunar. Fram að þessu munu þeir ekki hafa gefið þess nokkurn kost, þó töluvert sé sagt hafa miðað um flest helstu mál önnur.

Óljóst er í hverju slík málamiðun gæti falist. Andstæðingar frumvarpsins hafa bæði fundið að því hvað það sé bratt, að til standi að tvöfalda skattinn í einu vetfangi, en einnig er enn efast um ýmsa útreikninga þess og óvissar afleiðingar.

Nefnt er að stjórnin gæti framkvæmt hækkunina í nokkrum þrepum, bæði til þess að gefa sjávarútvegsgreininni tíma til aðlögunar en einnig svo koma megi við endurskoðun reynist afleiðingarnar alvarlegri en ríkisstjórnin telur. Sömuleiðis hafa verið rædd þök á hækkun gjalda einstakra fyrirtækja eða sem hlutfall afkomu. Loks er þjarkað um útreikninga, sem enn hafa ekki verið leiddir til lykta.

 

 

Breytt hljóð í strokknum

Við blasir að eitthvað hefur breyst við ríkisstjórnarborðið, fyrst framkvæmd veiðigjaldahækkunar er nú tæk til umræðu, þó markmið hennar séu óbreytt. Hvað sem það var virðist það hafa höggvið á hnútinn og vakið vonir um þinglokasamninga, þó þar sé eflaust talsverð vinna eftir.

Svo virðist sem forysta ríkisstjórnarinnar hafi ákveðið að samningar væru eina útgönguleiðin, endalaus umræða í þinginu skilaði engum árangri.

Margt bendir til þess að hugmyndir um að beita 71. gr. þingskapa – sem heimila að bundinn sé endir á umræðu og gengið til atkvæða – hafi verið slegnar út af ríkisstjórnarborðinu.

Slík neyðarráðstöfun, þar sem í raun yrði þaggað niður í stjórnarandstöðunni um löggjafarstarfið, væri ótæk í umræðu um frumvarp, sem ekki á að taka gildi fyrr en á næsta ári. Hún myndi auk þess leiða til þess að grípa þyrfti til sömu ráða um öll önnur mál, sem væri afleitt í landi með þingbundinni stjórn.

Það myndi þess utan reynast tímafrekt, því stjórnarandstaðan myndi eflaust ræða fundarstjórn forseta og allar atkvæðagreiðslur út í hörgul. Tugir mála bíða afgreiðslu og sum þola ekki bið. Fyrst og síðast væri það ekki í samræmi við góða lýðræðishefð, kynni að hafa varanleg áhrif á störf Alþingis og myndi vekja óþægilega athygli langt út fyrir landsteinana.

til baka