Nýtt gervigreindarkerfi frá Microsoft hefur náð betri árangri en læknar við greiningu flókinna sjúkdómstilvika samkvæmt niðurstöðum nýrra prófana. Kerfið, sem ber heitið Microsoft AI Diagnostic Orchestrator, byggir á hugbúnaði sem hermir eftir vinnubrögðum hóps sérfræðilækna og er talið marka mikilvægt skref í þróun svonefndrar læknisfræðilegrar ofurgreindar.
Í prófunum á rúmlega 300 raunverulegum tilfellum greindi kerfið rétt í um 80% tilvika. Til samanburðar náðu starfandi læknar réttum greiningum í um 20% þessara tilfella þegar þeir höfðu ekki aðgang að hefðbundnum stuðningsúrræðum á borð við bækur, samstarf við aðra sérfræðinga og tæknilausnir.
Kerfið er þó ekki hugsað til að leysa lækna af hólmi heldur er markmiðið að bæta við greiningargetu þeirra og létta undir með heilbrigðiskerfum. Samkvæmt Microsoft gæti þessi tækni nýst við að auka nákvæmni og draga úr kostnaði, meðal annars með því að fækka óþörfum rannsóknum.
Gert er ráð fyrir að þróun kerfisins taki fimm til tíu ár áður en hægt verði að innleiða það í almenna heilbrigðisþjónustu. Tæknin hefur vakið mikla athygli og eru bæði væntingar og áhyggjur meðal sérfræðinga. Þó að nýjungin geti aukið skilvirkni og bætt sjúkdómsgreiningar er jafnframt bent á að mannlegi þátturinn í læknavísindum, traust og samskipti verði áfram ómissandi hluti af heilbrigðisþjónustu. mj@mbl.is