sun. 6. júlí 2025 14:00
Sæbjörg númer tvö hefur þjónað Slysavarnaskóla sjómanna síðan 1998, en hún varð 50 ára gömul í fyrra og kominn tími að skólinn fái nýrra skip undir starfsemina.
Slysavarnaskólinn varð 40 ára í ár

Mikið vatn er runnið til sjávar síðan fyrsta slysavarnanámskeið fyrir sjómenn var haldið í Grindavík fyrir sléttum fjörutíu árum árið 1985. Bogi Þorsteinsson skólastjóri Slysavarnaskólans, sem er í eigu Slysavarnafélagsins Landsbjargar, segir að skólinn hafi verið stofnaður fyrst og fremst til þess að sinna öryggisfræðslu fyrir sjómenn, líka til að koma böndum á tíð slys innan sjómannastéttarinnar.

„Það eru komin 40 ár síðan fyrsta slysavarnanámskeiðið var haldið fyrir sjómenn í Grindavík. Menn höfðu komið saman nokkrum vikum áður en það var haldið til þess að ræða um mikilvægi þess að setja á laggirnar sérstakan slysavarnaskóla eingöngu fyrir sjómenn,“ segir Bogi í samtali við Morgunblaðið.

 

 

Sporna við banaslysum á sjó

Hann segir aðspurður að helsta ástæðan fyrir stofnun slysavarnaskóla ætlaðs sjómönnum hafi verið tíð banaslys innan stéttarinnar.

„Meginástæðan fyrir stofnun skólans var öll banaslysin sem höfðu átt sér stað meðal sjómanna. Með því efla slysavarna- og öryggisfræðslu þeirra var vonast til að það myndi fækka slysum á sjó, þá aðallega banaslysum,“ segir Bogi.

Hann segir starfsemi skólans hafa þróast mikið frá því að fyrsta námskeiðið var haldið og fer nú skólahaldið fram í slysavarnaskipinu Sæbjörg sem liggur í Bótarbryggju í vesturhöfn í Reykjavík. Skólinn hefur nú á dögum fjóra fastráðna kennara; þrjá sem sinna skrifstofuhaldi og aðstoð við kennslu og tvo í hlutastarfi.

„Skólinn hefur verið staðsettur í Sæbjörg númer tvö, sem er gamla Akraborgin, sem við fengum eftir að Hvalfjarðargöngin voru tekin í notkun árið 1998. Þar áður hafði skólinn verið í Sæbjörg 1, gamla varðskipinu Þór, fljótlega eftir að skólinn var stofnaður um 1986. Það skip sigldi á sínum tíma hringinn í kringum landið og hélt öryggisfræðslu fyrir sjómenn,“ segir Bogi.

Hann segir að fyrstu árin hafi 300-500 nemendur sótt skólann en síðan Sæbjörg 2 var tekin í notkun hafa 2.000-2.500 nemendur sótt skólann árlega. „Það var ákveðin bylting að fá gömlu Akraborgina árið 1998, mun stærra skip og við gátum því tekið á móti mun fleiri nemendum í einu. Síðastliðin tíu ár hefur nemendafjöldinn haldist stöðugur í 2.500 manns ári, sem segir að skólinn sé vel sóttur,“ segir Bogi.

Margir koma fyrir fyrsta túrinn

Tilvonandi nemendur eiga að sögn Boga von á því læra helstu undirstöðuatriðin í slysavörnum á sjó, enda er skylda að klára námskeiðið ef þeir vilja gera sjómennsku að atvinnu.

 

 

„Reglurnar eru þannig að það má vera 180 daga á sjó án þess að mæta í skólann, en okkar reynsla er sú að mjög margir koma til okkar annaðhvort fyrir eða eftir fyrsta túrinn. Þegar nemendur koma fyrst í skólann þurfa þeir að klára fimm daga grunnnámskeið, svo þarf að koma í endurmenntunarnámskeið á fimm ára fresti, sem stendur í tvo daga. Það er farið í fjögur atriði á grunnnámskeiðinu: sjóbjörgun, eldvarnir, vinnuöryggi og skyndihjálp,“ útskýrir Bogi. Hann segir að þeir nemendur sem eru að stíga sín fyrstu skref í sjómennsku fái ekki bara kennslu í slysavörnum heldur fræðist þeir einnig um sjómannsstarfið.

„Við fræðum nemendur líka almennt um sjómennsku. Til dæmis mismunandi tegundir fiskiskipa, kaupskipa og farþegaskipa o.s.frv. Við erum bjóðum einnig sérnámskeið fyrir skipstjórnarmenn í alþjóðasiglingum og líka fyrir minni skip undir 15 metrum að lengd,“ útskýrir Bogi.

Skólinn á og rekur slökkviæfingasvæðið í Hafnarfirði í samstarfi við Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins að sögn Boga. Þar er að finna sérstaka æfingabyggingu sem kallast Elja og er hún bæði hús og skip. Bogi segir húsnæðið verða tekið formlega í notkun í júní.

„Einnig fer stór hluti kennslu okkar fram í fjarnámi. Annars vegar er um að ræða netnám, sem nemendur vinna sjálfir, og hins vegar fjarfundi þar sem nemendur koma saman í rauntíma. Við hófum þessa þróun í kjölfar covid og höfum haldið áfram að þróa hana síðan. Við notum einnig siglingaherma við kennslu í meðferð líf- og léttbáta. Þar æfa nemendur sig í sýndarveruleika við aðstæður sem oft er erfitt að skapa í raunveruleikanum,“ segir Bogi.

 

 

Sæbjörgin orðin gömul

Aðspurður segir hann að ekki standi til að halda sérstaklega upp á 40 ára afmæli skólans, en ýmis stefnumótunarvinna sé hins vegar fram undan.

„Þar sem skólinn er í eigu Slysavarnafélagsins Landsbjargar munum við á þessu afmælisári fara í stefnumótun. Það er spennandi verkefni, þar sem við starfsfólkið tökum þyrlusýn á starfsemina og kennsluna. Þ.e. hvar erum við, hvaðan komum við og hvert viljum við stefna,“ segir Bogi.

 


Í því sambandi bendir hann á að núverandi skip sé búið að standa fyrir sínu enda orðið 50 ára gamalt. „Það sem verður mikið horft til í þessu samhengi er hvað Sæbjörgin er orðin gömul en hún varð 50 ára í fyrra. Hún er orðin það gömul að það borgar sig alls ekki að sigla henni. Þrátt fyrir það er mjög gott að nota skipið sem skóla fyrir sjómenn. Við erum með allt til alls hérna í skipinu. En við ætlum að skoða möguleikann á að færa okkur eitthvað annað, hvert sem það verður,“ segir Bogi. 

Hann segir aðspurður ekki leika neinn vafa á því að slysa- og öryggisfræðsla sjómanna sé einn af lykilþáttum þess að alvarlegum slysum á sjó hefur fækkað umtalsvert frá því sem áður var.

„Án efa hefur slysavarnafræðsla sjómanna átt þar stóran þátt, en það eru auðvitað fleiri þættir sem spila þar inn í.

Nú á dögum eru t.d. mun betri veðurspár og aukið eftirlit hjá vaktstöð siglinga hjá Landhelgisgæslunni, sem flýtir fyrir björgun og þ.a.l. skaðaminnkun. Það má samt halda því fram að það starf sem er í slysavarnaskóla sjómanna hafi einnig haft heilmikið að segja um að slysum á sjó hefur fækkað mikið,“ segir Bogi.

Bogi rifjar upp frá því hann var sjálfur á sjó þegar fyrsta banaslysalausa árið var 2008. Hann minnist þess hvað honum þótti skrítið að enginn sjómaður skyldi farast það ár.

„Það rifjast upp hvað mér þótti það undarlegt að ekkert banaslys varð á því ári, þar sem ég, pabbi minn og afi sem og allir bræður mömmu hafa stundað sjóinn. Þess vegna rak ég upp stór augu þegar það var tilkynnt að ekkert banaslys hefði orðið árið 2008 þar sem maður þekkti nánast ekkert annað en að einhver hefði látið lífið á sjó í gegnum tíðina,“ segir Bogi að lokum.

Fréttin birtist upphaflega 1. júní í Sjómannadagsblaði 200 mílna.

til baka