„Ég lofa að ég mun spila eldra efni á eftir, ég vil alls ekki að þið gangið út úr salnum,“ sagði hin stórkostlega Norah Jones á miðjum tónleikum sínum í Eldborg í Hörpu á miðvikudagskvöld, þeim fyrri af tvennum sem hún hélt hér á landi, og þeim fyrstu á tónleikaferðalagi hennar um heiminn.
Bera þeir yfirskriftina Visions í höfuðið á samnefndri 12 laga plötu hennar, þeirri níundu og nýjustu í röðinni. Seinni tónleikar hennar fóru svo fram í gærkvöldi en uppselt var á hvora tveggja tónleikana enda fullt út úr dyrum og augljóst að söngkonan er bæði dýrkuð og dáð hér á eyjunni lengst í norðri.
Bandaríska söngkonan, lagahöfundurinn og tónlistarkonan Norah Jones fæddist sem Geetali Norah Shankar á Manhattan 30. mars árið 1979 og deilir því sama afmælisdegi og undirrituð, já og Celine Dion og Eric Clapton ef út í það er farið.
Hún er dóttir tónleikahaldarans Sue Jones og alþjóðlegu sítarstjörnunnar Ravis Shankars en þegar foreldrar hennar skildu árið 1986 flutti hún með móður sinni til Texas og breytti nafni sínu í Jones. Hún hefur unnið til fjölda verðlauna fyrir tónlist sína á ferlinum og hafði árið 2023 selt meira en 53 milljónir platna um allan heim. Þá útnefndi Billboard Jones sem fremsta djasslistamann 21. aldarinnar en hún hefur þegar unnið til fjölda Grammy-verðlauna eða alls tíu.
Það má segja að árið 2002 hafi markað upphafið að glæstum ferli Jones en þá hóf hún sólóferil sinn með útgáfu plötunnar Come Away with Me sem inniheldur samnefnt lag ásamt einu af hennar þekktustu lögum „Don't Know Why“. Platan hefur selst í tæpum 30 milljónum eintaka sem gerir hana að söluhæstu fyrstu stúdíóplötu sólólistamanns á 21. öldinni og er því um að ræða svokallaða demantsplötu.
Sjálf lýsti hún plötunni á sínum tíma sem lítilli og notalegri en hún er í raun hin fullkomna blanda af djassi, kántríi, blús, þjóðlagatónlist og poppi. Árið 2003 var Come Away With Me valin besta platan á Grammy-verðlaunahátíðinni þar sem Jones hlaut líka verðlaun fyrir lag ársins og sem besti nýi listamaðurinn.
Síðan þá hefur hún unnið fleiri Grammy-verðlaun, nú síðast fyrir Visions, og verið tilnefnd 20 sinnum. Þá hefur hún selt meira en 53 milljónir platna og streymi laga hennar er komið í tíu milljarða um heim allan.
Jones hefur gefið út fjöldann allan af frábærum og vinsælum sólóplötum. Má þar nefna Feels Like Home (2004), Not Too Late (2007), The Fall (2009), Little Broken Hearts (2012), Day Breaks (2016), Pick Me Up Off The Floor (2020), tónleikaútgáfuna 'Til We Meet Again (2021), jólaplötuna I Dream Of Christmas (2021) og Visions (2024). Árið 2022 stofnaði Jones sitt eigið hlaðvarp, Norah Jones Is Playing Along, þar sem hún spjallar á skemmtilegum nótum við uppáhaldstónlistarmenn sína.
Það er gaman að segja frá því að þrátt fyrir þennan glæsta feril, frægð og frama kom Jones nánast fyrir á sviðinu í Eldborg sem smá feiminn intróvert. Með sínu heillandi brosi bauð hún tónleikagesti velkomna áður en hún settist niður við flygilinn og hóf tónleikana ásamt hljómsveit sinni. Í glæsilegum skósíðum, marglitum kjól og í glitrandi rauðum glimmerskóm, sem minntu einna helst á töfraskó Dórótheu í Galdrakarlinum í Oz, náði hún að seiða fram hvern fallega tóninn af öðrum, hvort sem hann kom úr hljóðfærunum sem hún spilaði svo fagmannlega á; flyglinum, rafmagnsgítarnum og hljóðgervlinum, eða einfaldlega úr faguróma barkanum á henni.
Það var einfaldlega dáleiðandi að hlusta á rödd hennar óma um salinn og þrátt fyrir að ég sé búin að vera aðdáandi hennar frá upphafi ferils hennar eru þetta fyrstu tónleikarnir með henni sem ég næ að sjá. Ég verð að segja að hún hljómar jafn vel í lifandi flutningi og í útvarpinu sem er nokkuð magnað því oft og tíðum eru tónlistarmenn ekki alveg jafn sterkir á sviðinu og í stúdíóinu. Það var líka gaman að sjá hvernig sviðið og lýsingin tónaði við fatnað Jones og breyttist reglulega úr fjólubláum tónum yfir í bleika, rauðleita og græna. Þannig náði lýsingin nánast að dansa í takt við ljúfa tónana og ýta undir upplifunina og stemninguna í salnum.
Jones var einstaklega iðin við að brosa út í sal og ná augnsambandi við áhorfendur. Hún var einhvern veginn svo eðlileg í allri framkomu og ef ég vissi ekki betur hefði ég getað svarið að ég greindi hjá henni oggulítinn sviðsskrekk alveg í upphafi. Skrekk sem sýndi hvað hún er í raun mannleg og laus við allt sem heita má yfirlæti.
Hún margþakkaði áhorfendum fyrir komuna á milli laga eins og hún hefði varla búist við því að fylla salinn. Á einum tímapunkti tók hún það fram að 18 ár væru liðin frá síðustu heimsókn sinni til Íslands og því vissi hún ekki alveg hvað fólk vildi fá að heyra. Sem er eiginlega alveg magnað því Jones hefði allt eins getað sungið „Atti katti nóa“ – áhorfendur hefðu alltaf hrifist með.
Í örfá skipti var eins og hljóðkerfið væri að stríða henni en hún leysti það afar fagmannlega með því að brosa út í salinn og halda ótrauð áfram. Ég er ekki einu sinni viss um að allir hafi tekið eftir þessu. Jones sló einnig á létta strengi á milli laga:
„Úff, það er mjög heitt hérna. Það er heitt á Íslandi,“ sagði hún til að mynda um miðbik tónleikanna og hló. Ég get rétt ímyndað mér hversu heitt var uppi á sviðinu í öllum ljósunum miðað við hitastigið í salnum.
Nýju lögin á Visions eru hvert öðru betra og í algjörum Noruh Jones-stíl. Seiðandi, lágstemmd á köflum og skemmtilega blúsuð svo manni leið um stund eins og maður sæti á notalegu kaffihúsi að hlusta á góða vinkonu. Ég stillti í það minnsta á nýjustu plötuna um leið og ég kom út í bíl og keyrði heim að tónleikum loknum.
Hún Laufey okkar Lín mun svo slást í för með Jones á tónleikaferðalaginu en það hefði verið stórkostlegt að sjá þær syngja saman í Hörpu. Ég saknaði þess að það skyldi ekki geta orðið. En það var sama hvort Jones flutti gömul lög eins og „Sunrise“ eða „Come Away With Me“ eða ný lög, hún bræddi svo sannarlega áhorfendur sína þetta kvöld með fallegri rödd sinni og fágaðri framkomu enda hlaut hún verðskuldað standandi lófatak í lokin.