fös. 4. júlí 2025 15:20
Viðgerðum á ytra byrði skólahússins er lokið og guli liturinn fer því vel. Ný hús í gömlum stíl eru nærri.
Endurreisn í Ólafsdal

Áætlanir standa til þess að eftir tvö ár verði opnað hótel í húsi gamla búnaðarskólans í Ólafsdal við Gilsfjörð sem nú er verið að gera upp.

Skólahúsið var reist árið 1896, en fjölmörg hús stór og smá og af ýmsum toga voru reist í Ólafsdal á tíma búnaðarskólans, sem var sá fyrsti á Íslandi og starfræktur var af Torfa Bjarnasyni og Guðlaugu Zakaríasdóttur konu hans. Skólahaldið var við lýði frá 1880 fram til ársins 1907 og á þeim tíma bárust margvíslegir menningarstraumar frá skólastarfinu út um þjóðlífið allt.

Eftir að skólahald í Ólafsdal í Dölum lagðist af var á staðnum stundaður búskapur eitthvað fram yfir 1960, það er á jörð og í húsum í ríkiseigu. Margt var komið á fallanda fót á stað þessum árið 2015 þegar gerðir voru samningar um staðinn, en þeir fólu í sér að ríkið eftirlét Minjavernd skólahúsið gamla og 60 hektara landspildu, það er með áskilnaði um endurreisn.

„Við höfum tekið þessa endurbyggingu skref fyrir skref og í dag lætur nærri að verkið sé hálfnað,“ segir Þorsteinn Bergsson framkvæmdastjóri Minjaverndar í samtali við Morgunblaðið.

„Ólafsdalur er staður mikillar sögu. Starfsemi bændaskólans markaði nýja sókn í íslenskum landbúnaði.“

Átta byggingar í gömlum stíl

Í endurbyggingunni í Ólafsdal nú er gamla skólabyggingin, tveggja hæða timburhús á kjallara, tekið til kostanna og það innréttað með nýju móti. Þá verða reistar alls átta minni byggingar á bæjartorfunni, allt hús í gömlum stíl og sum eftirgerð þeirra sem áður stóðu. Útkoman úr þessu verður heildstæð þyrping bygginga í gömlum stíl. Og þarna verður hótel – alls 25 herbergi ýmist 2-3 manna og samanlagt pláss fyrir um 60 gesti. Áætlaður kostnaður við þessar framkvæmdir er 1,1-1,2 milljarðar króna.

Síðustu ár hefur verið unnið að fornleifarannsóknum í Ólafsdal. Þar hafa vísindamenn undir forystu Birnu Lárusdóttur fornleifafræðings fundið rústir víkingaskála innarlega í dalnum. Eru vísbendingar um að þetta séu minjar frá 10. öld. Ætlunin er, að sögn Þorsteins Bergssonar, að gera þennan minjastað aðgengilegan með göngustígum.

Storð stuðlar að endurreisn

Í tímans rás hefur Minjavernd komið að endurgerð fjölmargra gamalla húsa, sem þannig hafa fengið verðugt hlutverk. Þarna má nefna Franska spítalann á Fáskrúðsfirði sem nú er hótel, Bernhöftstorfuna í Reykjavík, Bókhlöðuna í Flatey á Breiðafirði og svo mætti áfram telja.

Til að tryggja framgang þessarar uppbyggingar í Ólafsdal hefur nú orðið að samkomulagi að Storð, hlutafélag í eigu ríkisins sem stofnað var fyrir tveimur árum, komi þar einnig að málum. Storð er ætlað að stuðla að viðhaldi og endurreisn húsa í eigu ríkissjóðs sem talin eru hafa menningarsögulegt gildi. Þar eru hús sem komin eru úr notkun en verður menningar vegna að halda við. Þarna má nefna að Storð stendur þegar til dæmis að endurgerð Hegningarhússins á Skólavörðustíg í Reykjavík og hefur í umsjón sinni Kennaraskólann við Laufásveg og Stýrimannaskólann við Öldugötu.

til baka