fös. 4. júlí 2025 10:58
28 Umrædd íbúð er á eftirsóttum stað í Reykjavík.
Ekki dæmigerð íbúð hjá Búseta

 

Bjarni Þór Þórólfsson framkvæmdastjóri Búseta segir nýja íbúð félagsins í Stefnisvogi 28 í Reykjavík ekki dæmigerða fyrir íbúðir félagsins en um sé að ræða staka íbúð.

Fjallað var um íbúðina í Morgunblaðinu í gær en mánaðargjaldið er tæpar 534 þúsund krónur og kostar búseturétturinn tæpar 26,5 milljónir króna. Bjarni segir mikilvægt að hafa í huga að innifalið í mánaðarlegu búsetugjaldi er fjármagnskostnaður, fasteignagjöld, hiti, hússjóður, húseigendatrygging, brunatrygging, þjónustugjald og viðhaldssjóðir. Þegar búseturéttur er seldur aftur er hann uppreiknaður m.t.t. þróunar á vísitölu neysluverðs.

Bjarni Þór segir Búseta nýlega hafa fest kaup á fjölbýlishúsinu við Stefnisvog 28 en félagið eigi 13 íbúðir og Brynja, leigufélag Öryrkjabandalagsins, fimm. Við kaupin hafi Búseta verið ljóst að stærstu og dýrustu íbúðirnar í húsinu næðu ekki til stórs markhóps og því gæti tekið tíma að selja búseturéttinn. Eftir ítarlega skoðun hafi Búseti komist að þeirri niðurstöðu að þrátt fyrir allt væri hag félagsins betur komið með kaupunum enda væru flestar íbúðirnar af því tagi að mikil eftirspurn yrði eftir þeim meðal félagsmanna.

Bjarni Þór segir mánaðargjald tveggja íbúða í húsinu hafa vakið athygli, þar með talið íbúðarinnar sem sagt var frá í Morgunblaðinu í gær. Fyrir vikið hafi Búseta borist fyrirspurnir þar sem meðal annars hafi verið spurt hvort sú hugsjón félagsins væri á bak og burt að bjóða almenningi upp á hagkvæmar íbúðir.

Hugsjónin lifir enn

„Svarið er að hugsjónin lifir góðu lífi og birtist í verkum okkar. Hins vegar er áskorun að halda hugsjóninni á lofti í breyttum veruleika á Íslandi. Veruleika sem einkennist af lóðaskorti og stökkbreyttum forsendum hvar sem niður ber í kostnaðarliðum þegar kemur að húsbyggingum,“ segir Bjarni Þór og útskýrir að félagið geti ekki flúið þennan veruleika.

Félög eins og Búseti beri enda ekki ábyrgð á mikilli hækkun fasteignaverðs og auknum kostnaði við að reka fasteignir. Þá sé „ofureftirspurn“ eftir húsnæði á höfuðborgarsvæðinu, sem sé starfssvæði Búseta, en hún þrýsti upp verði á fasteignum.

„Í mánaðarlegum auglýsingum Búseta er algengt að búseturéttir séu auglýstir til sölu á 8-12 milljónir króna. Mánaðarlegt búsetugjald þessara íbúða er oft á milli 200 og 300 þúsund sem verður að teljast sanngjarnt,“ segir Bjarni Þór. Hann bætir við að umrædd íbúð við Stefnisvog sé með öðrum orðum undantekning og ekki lýsandi fyrir þær íbúðir sem Búseti almennt býður upp á.

Lítið framboð af lóðum

Bjarni Þór segir margt leggjast á eitt í þessu efni. Íbúum landsins hafi fjölgað hratt á síðustu árum og breytt aldurssamsetning og breytt fjölskyldumynstur kallað á hlutfallslega fleiri íbúðir miðað við mannfjölda. Þá sé lóðaskortur á höfuðborgarsvæðinu mikill áhrifavaldur en að mati Bjarna Þórs mættu sum sveitarfélög vera duglegri við að úthluta óhagnaðardrifnum félögum, eins og Búseta, byggingarlóðum á hagfelldu verði.

„Það er ekki svo að Búseti njóti slíkra lóðaúthlutana í miklum mæli og nýtur heldur ekki stofnframlaga eða niðurgreiddrar fjármögnunar,“ segir Bjarni Þór að lokum.

til baka