Eyþór Máni Steinarsson, einn af eigendum Hopp, greindi frá því í gær að hann muni láta af störfum sem framkvæmdastjóri Hopp.
„Það hefur verið minn heiður og forréttindi að fylgja eftir ævintýralegum vexti Hopp með einstaklega framúrskarandi teymi síðastliðin sex ár (þó ég eigi erfitt með að trúa að þau séu það mörg),“ skrifar Eyþór í nýlegri facebook-færslu.
Hann tekur fram að leit sé þegar hafin að nýjum framkvæmdastjóra.
„Mun halda áfram að drífa áfram vaxtaverki í félaginu“
Í færslunni segir Eyþór fyrirtækið hafa vaxið mikið frá því það hóf störf árið 2019, þá með 60 hlaupahjól í Reykjavík. Í dag sinni það yfir 10.000 hlaupahjólum, 50 deilibílum og 140 leigubílstjórum í 75 bæjum í 17 löndum.
Það hefur afgreitt tæplega 15 milljónir ferða til rúmlega milljón notenda. Heildarvegalengd ferðanna er um 26 milljónir kílómetra, „eða 33 ferðir til tunglsins og til baka“.
Þá segir hann Hopp hafa verið fyrirferðamesta verkefni sem hann hefur tekið sér fyrir hendur og einstaklega gefandi. Hann hvetur þá sem trúa á heilbrigðari samgönguflóru, búa yfir drifkrafti og vilja vinna með honum og ótrúlegu teymi „sem getur hrint nánast hverju sem er í framkvæmd“ til að sækja um starf framkvæmdastjóra fyrirtækisins.
„Sjálfur er ég ekki að fara langt, en mun halda áfram að drífa áfram vaxtaverki í félaginu, að þessu sinni með aukinni áherslu á deilibíla og leigubíla, stay tuned.“