Heilbrigðisstofnun Suðurlands (HSU) hefur samið við netöryggisfyrirtækið Defend Iceland um notkun á villuveiðigátt þess til að styrkja varnir á net- og tölvukerfum fyrirtækisins.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Defend Iceland.
Þar segir að með innleiðingu villuveiðigáttarinnar nýti HSU nýjar og öflugar aðferðir í netöryggi til að auka viðnámsþrótt upplýsingakerfa gegn vaxandi ógn netárása.
Þá segir að samhliða sé gripið til markvissra aðgerða til að tryggja betur öryggi viðkvæmra heilbrigðisgagna sjúklinga.
„Í villuveiðigátt Defend Iceland eru aðferðir tölvuhakkara og skipulagðra netárásarhópa hermdar til að leita með markvissum hætti að veikleikum í upplýsingatæknikerfum. Þannig er hægt að lagfæra öryggisveikleika áður en þeir geta verið nýttir til netárása,“ sem segir í tilkynningunni.
https://www.mbl.is/frettir/innlent/2025/03/27/ogn_vid_netoryggi_fer_vaxandi/
Skylda til að tryggja öflugar varnir
Haft er eftir Daða Má Sigurðssyni, deildarstjóra upplýsingatæknisviðs HSU, að stofnuninni beri skylda til að tryggja öflugar varnir gegn óviðkomandi aðgangi að viðkvæmum kerfum og gögnum enda sé upplýsingaöryggi órjúfanlegur þáttur í öryggi sjúklinga og starfsfólks.
„Með innleiðingu villuveiðigáttar frá Defend Iceland eykst hæfni okkar til að greina og bregðast við mögulegum öryggisveikleikum á skjótan og öruggan hátt – áður en það hefur áhrif á rekstur eða öryggi notenda,“ er haft eftir Daða, sem segir samstarfið við Defend Iceland jafnframt vera þátt í þeirri vegferð að byggja upp traust, öruggt og stöðugt stafrænt samfélag á landsvísu.
https://www.mbl.is/frettir/innlent/2024/09/13/island_medal_bestu_rikja_a_svidi_netoryggis/
„Sýnir skýra forystu og ábyrgð“
Frá því í mars 2024 hafa rúmlega 650 öryggisveikleikar verið tilkynntir í gegnum villuveiðigáttina hjá viðskiptavinum Defend Iceland, að því er segir í tilkynningunni. Þá segir að 95% þeirra hafi verið áður óþekktir veikleikar og því ekki auðkenndir með hefðbundnum skönnunartólum.
Haft er eftir Theódóri Ragnari Gíslasyni, stofnanda og framkvæmdastjóra Defend Iceland, að það skipti sköpum að stofnanir sem vinni með viðkvæm heilbrigðisgögn séu í fremstu röð þegar kemur að netöryggi.
„Með samstarfinu sýnir stofnunin skýra forystu og ábyrgð gagnvart öryggi sjúklinga og stafrænu trausti. Við hjá Defend Iceland erum stolt af því að styðja við slíkt mikilvægt hlutverk með öflugri villuveiðigátt og sérþekkingu í að finna og laga veikleika áður en þeir verða að skaða.“