Landlæknir segir óskandi að niðurstöður Ríkisendurskoðunar, sem fram koma í nýrri skýrslu um starfsemi Landspítalans, verði til þess að flýta fyrir nauðsynlegum umbótum.
Undanfarin ár hefur embætti landlæknis fylgst náið með stöðu mála á spítalanum, veitt ráðgjöf og upplýst stjórnvöld og segist landlæknir fullviss um vilja bæði stjórnar Landspítala og stjórnvalda til að finna lausn á vandanum.
Þetta er meðal þess sem kemur fram í skriflegu svari Maríu Heimisdóttur landlæknis við fyrirspurn mbl.is en í skýrslunni er sjónum meðal annars beint að mönnunarvanda og vandamála er snúa að flæði sjúklinga á spítalanum.
https://www.mbl.is/frettir/innlent/2025/07/03/vid_hofum_ekki_brugdist_naegilega_vid/
Segir embætti landlæknis fagna skýrslunni
María segir embættið fagna skýrslu Ríkisendurskoðunar. Það hafi á undanförnum árum vakið athygli heilbrigðisyfirvalda á þeirri erfiðu stöðu sem Landspítali er í með tilliti til mönnunar, álags og skorts á hjúkrunarrýmum.
Embættið hafi haft mikið eftirlit með bráðamóttökunni, bæði í formi heimsókna og gagnasöfnunar en þar birtist vandi spítalans með skýrum hætti.
„Þannig hefur embættið í krafti eftirlits síns framkvæmt úttektir, hlutaúttektir og eftirfylgniúttektir sem undirstrika þennan mikla vanda, auk þess sem kerfisbundið er kallað eftir gögnum frá Landspítala og þau rýnd. Í minnisblöðum til ráðuneytis heilbrigðismála hefur landlæknir síðan upplýst stjórnvöld um þennan vanda.“
https://www.mbl.is/frettir/innlent/2025/07/03/bidtimi_a_landspitala_thetta_er_oasaettanlegt/
Bágborin staða „bitni á gæðum þjónustunnar og öryggi sjúklinga“
Í skýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að „eftirlit embættis landlæknis hefur ítrekað staðfest að staðan sé bágborin og að það bitni á gæðum þjónustunnar og öryggi sjúklinga“.
María ítrekar að embætti landlæknis sé eftirlitsaðili með veitingu heilbrigðisþjónustu á Íslandi og hafi því ekki aðkomu að skipulagningu þjónustunnar. Þó hafi embættið ítrekað vakið athygli á mönnunarvanda og erfiðleikum sem snúi að húsakosti Landspítala.
Því sé kunnugt um að unnið sé að aðgerðum í tengslum við mönnun en á vegum ráðuneytis heilbrigðismála starfi landsráð um mönnun og menntun í heilbrigðisþjónustu sem hafi gefið ráðherra ráðleggingar um mikilvægar aðgerðir til að bæta mönnun.
https://www.mbl.is/frettir/innlent/2025/07/02/morg_hundrud_stodugildi_omonnud/