Sophia Hutchins, vinkona og umboðsmaður Caitlyn Jenner, er látin eftir alvarlegt fjórhjólaslys í Malibu í Kaliforníu aðeins 29 ára.
Að sögn TMZ varð slysið þegar Hutchins ók fjórhjóli sínu nálægt heimili Jenner í Malibu og rakst á bifreið á ferð. Við höggið kastaðist fjórhjólið ásamt Hutchins niður í um 100 metra djúpa gjá. Viðbragðsaðilar komu fljótt á vettvang en Hutchins var úrskurðuð látin á staðnum. Enginn annar slasaðist í slysinu.
Gekk einnig undir kynleiðréttingu
Hutchins fæddist árið 1996 í Bellevue í Washington-ríki og útskrifaðist úr Pepperdine-háskólanum árið 2019 með gráðu í hagfræði og fjármálum. Árið 2018 gekkst hún undir kynleiðréttingu, sem hún sagði hafa verið innblásna af Caitlyn Jenner, sem kom sjálf fram sem transkona árið 2015. Auk þess að vera umboðsmaður Jenner var Hutchins frumkvöðull og framkvæmdastjóri snyrtivörumerkisins Lumasol SPF, sem og framkvæmdastjóri Caitlyn Jenner Foundation sem styður réttindabaráttu LGBTQ-samfélagsins.
Voru sambýliskonur
Ekki hefur verið staðfest hvar Jenner, sem er 75 ára, var stödd þegar slysið átti sér stað. Hutchins og Jenner voru mjög nánar vinkonur og óaðskiljanlegar síðan þær kynntust árið 2015. Þær voru sambýliskonur og Hutchins starfaði jafnframt sem umboðsmaður Jenner frá árinu 2017. Samband þeirra vakti oft athygli fjölmiðla en báðar staðfestu þær ítrekað að sambandið hefði aldrei verið rómantískt heldur fyrst og fremst góð vinátta.
Var í miklu uppáhaldi hjá Kardashian-Jenner-fjölskyldunni
Hutchins tók þátt í raunveruleikaþáttunum I Am Cait og var í miklu uppáhaldi hjá Kardashian-Jenner-fjölskyldunni, en hún tók meðal annars þátt í herferð fyrir SKIMS, fatamerki Kim Kardashian. Hún hafði lýst því að hún ætti góð samskipti við alla fjölskyldumeðlimi, sérstaklega Kris Jenner, Kim Kardashian og systurnar Kendall og Kylie Jenner.