fös. 4. júlí 2025 10:05
Sigga Kling spáir fyrir lesendum mbl.is.
Júlíspá Siggu Kling: Er þetta skemmtilegasta sumarið?

Það er alltaf jafn gaman að lesa stjörnuspá Siggu Kling. Nú er að koma hásumar og veröldin er björt. Gæti þetta jafnvel orðið skemmtilegasta sumarið þitt? Er ástin á næsta leyti?

Hrútur: Þú ert villtur, hvatvís og málgefinn!

Elsku hrúturinn minn!

Þú hefur verið að taka þig á í ýmsum málefnum, til dæmis er varða líkamann og agann sem þú hefur nóg af og ert jafnvel öfundsverður af þeim sökum.

Þú átt eftir að setja þér tvö til þrjú markmið (ert kannski búinn að því) og lætur ekkert stoppa þig. Það er svo einkennandi fyrir þig að gera mjög mikið af öllu.

Ef þú ætlar að fá þér eitt glas endar það í mörgum flöskum. Ef þú ætlar að rífa þig í gang býrðu í gymminu! Það er svo mikilvægt að ef þú ert að skapa þig sjálfan sem fyrirtæki skaltu ákveða hvernig mánuðurinn á að vera.

Lesa meira

Nautið: Láttu egóið ekki skemma fyrir þér!

Elsku nautið mitt!

Þú ert svo sérstakur einstaklingur. Þú myndir ganga út í dauðann fyrir þá sem þú elskar og fórnar öllu fyrir þína. Öll þessi góðsemi sem stundum getur brennt þig kemst margfalt til skila með ótrúlegum, litlum kraftaverkum sem verið er að senda þér.

Fyrst koma lítil kraftaverk og þegar þú skilur að verið er að senda þér það sem þú þarfnast skiptist það í stærri og stærri gjafir í kjölfarið og svo sannarlega áttu þær skilið.

Allt sem tengist veikindum eða huglægum erfiðleikum er vegna álags. Öll veikindi hefjast í huganum, stress verða að bólgum og geta breyst í alls kyns vesen í líkama þínum.

Lesa meira

Tvíburar: Sagan þín verður spennandi og skemmtileg!

Það er sko alveg hægt að segja að lífið hafi verið út og suður á síðustu vikum. Þú ert búinn að að vera að keyra þig áfram og veist ekki alveg hvaða leið þú ert að fara.

Þó sumarið sé þinn tími get ég líka sagt að sá tími sé búinn með þeirri vitleysu sem hefur ríkt. Nýr kafli hófst nefnilega hjá þér þann 1. júlí og frá því tímabili ferðu að finna að þú hefur réttu tökin á því sem þú ert búinn að vera að stússast í.

Þú færð betri yfirsýn og fullvissu um að allt muni ganga eins og í sögu héðan í frá. Þú þarft líka að vita að sögur þurfa að vera spennandi og eitthvað þarf að læra af þeim … ekki síst að maður vilji lesa söguna!

Lesa meira

Krabbinn: Ekki skipta þér af annarra manna veseni

Elsku krabbinn minn!

Þú ert að fara inn í bjartsýnismánuð. Á því tímabili er svaka mikilvægt þú horfir bara á það sem þér finnst bjart og fallegt, láta vesen og vandamál skauta fram hjá því í þessum mánuði verður hátíð hjá þér.

Júpíter kemur siglandi inn í merkið þitt og hann hefur ekki verið þar í 12 ár. Hann er pláneta allsnægta, útþenslu og krafts. Þú þarft að nýta þér það þegar þetta dásamlega tungl er fullt í kringum 12. júlí.

Þá færðu til þín hugboð eða boð til hugans um hvernig þú leysir og kemur þér út úr þessari vesenssúpu sem þú ert í.

Lesa meira

Ljón: Betur sjá augu en auga

Elsku ljónið mitt!

Þú hefur lengi beðið eftir þeirri virðingu sem þú átt skilið. Það er svo ríkt í þér að vilja láta ljós þitt skína og ef þér tekst það ekki finnst þér eins og þú sért að lenda í eldgosi, í miðjum gígnum bara.

Það er verið að færa þér á silfurfati eitthvað sem þú bjóst ekki við en það er samt smá viðvörun: Ekki skrifa undir neitt fyrr en þú hefur lesið smáa letrið.

Því það er stutt á milli heiðurs og hungurs ef ekki er farið varlega. Það er dálítið einkenni þitt að storma áfram eða standa kyrrt. Ef þú stendur kyrrt nær hamingjan, velferðin eða lukkan ekki í þig.

Lesa meira

Meyjan: Þú þarft að endurskoða margt

Elsku meyjan mín!

Þú hrífst alltaf af fegurð, hvort sem er í fatavali, umhverfinu eða stjörnunum sem sjást ekki núna …eða bara í náttúrunni í kringum þig. Þú átt eftir að hafa töluvert fyrir stafni á næstunni.

Innifalið er mikill leikur og skemmtanir og þú átt eftir að taka það allt inn í vitundina. Þessi hressing og vinna á við þig en ekki kvarta þó þú þurfir aðeins að hvíla þig.

Í ástinni ertu sterk ef þú nennir að spá í henni en ef þú ert að spá í einhverri sérstakri manneskju þarftu að vera ákveðin! Ekki gefast upp. Stundum er ástin langhlaup en ef þú ætlar þér eitthvað færðu það.

Lesa meira

Vogin: Passaðu verndina og góða orku

Elsku vogin mín!

Það er svo mikilvægt fyrir þig að mynda huglæga vernd í kringum þig. Ég set alltaf ákveðna vernd yfir mig þegar ég fer út úr húsi, kalla á engla og alla sem geta hjálpað þegar ég er að fara í stressandi aðstæður.

Ég set líka vernd yfir bílinn minn því allt gefur frá sér tíðni; dýr, hlutir, allt líf svo þú þarft að setja góða orku í allt sem í kringum þig er. Það er alls konar í gangi.

Þú getur farið inn á heimili þar sem þér líður illa þó allt sé þar svaka flott og fágað. Kannski er um að ræða leiðindi og/eða rifrildi sem enginn sér.
Það sést ekki hvers konar týpa þú ert fyrr en á reynir.

Lesa meira

Sporðdreki: Talaðu þig upp og talaðu þig til

Elsku sporðdrekinn minn!

Það er stundum svo að það sem þér finnst erfitt eða leiðinlegt reynirðu að forðast. Nú, ef þú ert flughræddur ertu ekki sífellt að fljúga eða ef þú ert ekki spenntur fyrir köngulóm eða skordýrum reynirðu að vera ekki nálægt þeim.

Skilaboðin eru hins vegar sú í þetta sinn að það sem þú hefur verið að forðast þarftu að horfast í augu við. Þú þarft að kljúfa í herðar niður það sem veldur þér kvíða eða hræðslu, horfast í augu við það og storma hreinlega inn í vindinn.

Það kemur þér á óvart hvað þú ert fær um það! Bara ekki telja þér í trú um að þú getir ekki eitthvað eða sért ekki „þessi týpa“ eða eitthvað í þá áttina.

Lesa meira

Bogmaður: Þú ert mátturinn og þín er ábyrgðin

Elsku bogmaðurinn minn.

Þetta er tíminn til að opna augun og sjá hvað þú hefur það dásamlegt. Þú hefur raðað svo frábæru fólki í kringum þig og átt að nýta þér það.

Þú hefur oft verið algerlega blindur og hleypt að þér alls kyns vitleysingum sem hafa gert þér margar skráveifur. Þú hefur í hendi þér að láta slíkt ekki gerast.

Lífið er svo mikið karma þannig kallaðu á þá sem skulda þér karma frá fyrri tilveru og eru staddir á jörðinni. Kallaðu til þín þitt góða karma og það þarf að vera í skipunartón og þá muntu sjá að þú ferð að hitta fólk sem aðstoðar þig í því sem þú hefur verið að vandræðast yfir.

Lesa meira

Steingeit: Þú nærð alltaf árangri

Elsku steingeitin mín!

Þú hefur verið að hugsa mikið um og spá mikið í hvað þú eigir að gera í þeirri aðstöðu sem þú ert í. Þú dásamar allt í kringum þig þó það sé kannski ekki allt svo dásamlegt.

Þetta er hins vegar gott trikk til að ná árangri og það er alveg hægt að segja ógrátandi að ef einhver nær árangri ert það þú. Þú hefur orku kamelljónsins að geta breytt þér eftir því hvar þú ert staðsett eða með hverjum.

Þú hefur orku pólitíkussins að geta sagt nokkurn veginn hvað sem er og við trúum þér. Núna ertu að ganga inn í tímabil þar sem þú þarft að taka afstöðu og það tengist fulla tunglinu sem verður í kringum 12. júlí.

Lesa meira

Vatnsberinn: Trúin flytur fjöll

Elsku vatnsberinn minn.

Það eru góðir hlutir að gerast hjá þér. Þér líður samt ekki alveg nógu vel með það sem þér er fært frá alheiminum.

Allt er svo bjart og glæsilegt í kringum þig en mig vantar þig í sólskinsskapi sem fer þér svo vel.

Þó þú getir ekki sinnt öllu sem þú óskar skaltu alls ekki gera þá kröfu til þín að gera það. Gerðu bara eitt í einu og það verður allt á þeim tíma sem það á að gerast.

Lesa meira

Fiskurinn: Þú færð stóra gjöf á þessu sumri

Elsku fiskurinn minn!

Það er eins og allt raðist upp eins og þú vilt hafa það. Stundum getur komið upp hindrun sem tengist fólki sem þú getur engan veginn breytt eða stjórnað né komið út úr lífi þínu.

Sættu þig við það sem þú getur ekki breytt því þá kemur vellíðan eða auðmýkt í hjarta þitt.

Þú ert eitt af þeim fjórum merkjum sem munu hagnast mikið á því að elsku hjartans fallegi Júpíter gefur þér svo mikla visku til að breyta rétt – sérstaklega í sambandi við fjármál, húsnæði og í raun allt sem skiptir máli.

Lesa meira

til baka