Svipmynd ViðskiptaMoggans
Lilja Magnúsdóttir er deildarstjóri auðlindastýringar hjá HS Orku og hefur starfað þar síðan 2020. Hún er með doktorsgráðu í orkuverkfræði frá Stanford-háskóla í Bandaríkjunum og meistaragráðu í vélaverkfræði frá Háskóla Íslands.
Hver er mikilvægasta venjan þín sem stjórnanda?
Sem stjórnandi legg ég áherslu á samvinnu og að ábyrgðarsvið allra í teyminu séu skýr. Á mínu sviði eru verkefnin svo fjölbreytt – allt frá sýnatöku úr borholum og efnagreiningum til kolefnisrannsókna, gerðar reiknilíkana, framleiðsluspáa og nýtingar gervigreindar við ákvarðanatöku. Því finnst mér mikilvægt að verkefnum sé forgangsraðað á skýran og markvissan hátt. Styðjandi og jákvæð samskipti eru líka lykilatriði, þar sem góður vinnuandi hefur bein áhrif á árangur og vellíðan í starfi.
Hefur þú einhvern tíma farið í gegnum verulega krísu í starfi? Hvernig tókst þú á við hana?
Já, ég öðlaðist dýrmæta reynslu í krísustjórnun þegar eldgosahrinan hófst í Sundhnúksgígaröðinni. Þá reyndi verulega á viðbragðsáætlanir og öflugt upplýsingaflæði hjá okkur í neyðarstjórn HS Orku og teymið mitt var í lykilhlutverki sem tengiliður fyrirtækisins við sérfræðinga Veðurstofunnar. Mikil óvissa einkenndi aðstæður og við þurftum stöðugt að undirbúa og endurmeta fjölmargar sviðsmyndir. En við lærðum að aðlaga starfsemina breytilegu umhverfi og höfum jafnframt leitað leiða til að horfa til framtíðar og sjá ný tækifæri á þessu orkumikla svæði.
Hvernig nálgast þú stefnumótun?
Ég er mikið fyrir að byggja ákvarðanir á gögnum og greiningu. Fyrst þarf að skilja stöðuna eins og hún er í dag, greina helstu áskoranir og tækifæri, og nota þau gögn til að móta raunhæf og mælanleg langtímamarkmið. Vera svo búin undir það að forsendur og umhverfi breytast hratt og því þarf að endurmeta markmiðin og aðferðir reglulega. Þetta hraða umhverfi var sérstaklega áberandi í starfi mínu hjá Tesla þar sem markmið okkar var það sama og samkeppnisaðilans; að þróa sólarrafhlöðu með heimsins bestu nýtni. Nokkru eftir að við höfðum loksins náð markmiðinu tókst samkeppnisaðilanum að bæta sína nýtni enn frekar, sem leiddi til þess að við urðum að hefja leikinn upp á nýtt.
Hvað gerir fyrirtækið ykkar betur en aðrir í greininni?
Mér finnst starfsandinn hjá HS Orku einstakur og með því að byggja upp öflugt teymi sérfræðinga, sem býr yfir færni til að greina lykilþætti í rekstri jarðvarmakerfisins, höfum við bæði eflt upplýsingaflæði og aukið fagþekkingu innan fyrirtækisins. Sérfræðingar auðlindastýringar þróa m.a. þrívíð reiknilíkön af jarðhitasvæðunum og sinna svarfgreiningum, sem hefur veitt okkur ómetanlega innsýn í jarðfræðilega eiginleika jarðhitasvæðanna. Þessi þekking er lykilatriði í stöðugri vöktun á auðlindinni og við ákvarðanir um ný bormarkmið. Nýsköpun er einnig í forgrunni í starfsemi HS Orku sem má m.a. sjá í Auðlindagarðinum þar sem lögð er áhersla á fullnýtingu auðlindastrauma frá jarðvarmavirkjunum okkar. Við erum líka stolt af sjálfvirka eldgosaviðvörunarkerfinu sem við höfum þróað og hlaut nýverið UT-verðlaun Skýs fyrir stafræna opinbera þjónustu. Kerfið hefur gegnt lykilhlutverki í að upplýsa almenning um yfirvofandi eldgos á Sundhnúksgígaröðinni.
Hvað finnst þér skemmtilegast að gera utan vinnu?
Fara í hjólatúr eða sund með börnunum og manninum. Ég hef líka gaman af því að fylgja æfingaprógrammi fyrir misgáfulegar keppnir sem halda mér við efnið og hef sem dæmi keppt tvisvar í hálfum járnkarli, klárað Landvættina og synt „Flýjum Alcatraz-sundið“ frá fangelsinu að San Francisco. Ferðalög eru líka stór þáttur í lífsstílnum mínum.
Áttu þér einhvern fastan sið eða venju sem veitir þér jarðtengingu í daglegu lífi?
Já, þegar ég þarf að jarðtengja mig finnst mér gott að ganga út á Geldinganes. Þar sest ég stundum niður í grasið, horfi yfir sjóinn og leyfi huganum að reika. Þessi látlausa stund, þar sem náttúran fær að taka yfir, hjálpar mér að finna jafnvægi, endurheimta orku og sjá hlutina í skýrara ljósi.
Hver er uppáhaldsstaðurinn þinn á Íslandi – og af hverju?
Þakgil er í algjöru uppáhaldi hjá mér. Falleg íslensk náttúra, lækir og hellar fyrir börnin að leika í og yndisleg ró, enda varla nokkurt símasamband þar.
Hvaða hlutar gætirðu ekki verið án?
Í daglegu amstri finnst mér gott að hafa dagatalið og minnismiðaappið í símanum. Þar geymi ég fundartíma, minnislista og alls konar hugmyndir og markmið.
Hvað hefur breyst í lífi þínu síðustu fimm árin sem þú bjóst síst við?
Ég greindist nýlega með brjóstakrabbamein, sem kom mér algjörlega að óvörum. Ég var hvorki með erfðafræðilega áhættuþætti né hafði ég lifað óheilbrigðu lífi, ég hef alltaf verið mjög heilsuhraust og upplifði engin einkenni þegar ég var kölluð í reglubundna skimun. Eftir slíka greiningu breytist lífssýnin. Maður lærir að meta hvern dag og horfir á lífið sjálft öðrum augum og með dýpra þakklæti. Ég nálgast þetta verkefni með því hugarfari að koma sterkari til baka.
Hin hliðin
Menntun: 2007, B.Sc. í vélaverkfræði frá Háskóla Íslands. 2009, M.Sc. í vélaverkfræði frá Háskóla Íslands. 2013, Ph.d. í orkuverkfræði frá Stanford-háskóla. 2023, verkefnastjórnun og leiðtogaþjálfun hjá Endurmenntun Háskóla Íslands – Certified Project Management Associate (Level D).
Starfsferill: 2013-2015, nýdoktor hjá Lawrence Berkeley National Laboratory. 2015-2016, yfirverkfræðingur í hönnun og þróun hjá sólarrafhlöðudeild Tesla. 2016-2020, rannsóknasérfræðingur hjá Háskóla Íslands. 2020-2021, forðafræðingur hjá HS Orku. 2021-2023, yfirforðafræðingur hjá HS Orku. 2023-núna, deildarstjóri auðlindastýringar hjá HS Orku.
Áhugamál: Ég hef gaman af ferðalögum, útivist og líkamlegri hreyfingu. Sérstaklega þríþraut (hlaup, hjól og sund), göngu- og svigskíðum yfir vetrartímann og svo er gott að ná endurheimt með jóga nidra.
Fjölskylduhagir: Maki er Gregory Zarski og börn eru Magnús Þór Zarski, 9 ára, og Aníta Íris Zarski, 6 ára.