Síðastliðin mánaðamót mörkuðu fyrsta útborgunardag sumarsins hjá mörgum og er því ástæða til að óska launafólki gleðilegrar útborgunarviku.
Útborgun er lykilþáttur í ráðningarsambandi launagreiðenda og starfsmanna. Fyrir launafólk er það sá reglubundni áfangi þar sem vinna umbreytist í laun en fyrir vinnuveitendur er útborgun meginskylda í ráðningarsambandi um að standa skil á launum og launatengdum greiðslum á gjalddaga.
Föstudagurinn 27. júní var þó sérstaklega gleðilegur fyrir launafólk, því hann markaði upphaf þess hluta ársins þar sem starfsfólk byrjar að vinna fyrir útborguðum launum. Því hefur dagurinn fengið viðurnefnið útborgunardagurinn.
Hálft ár í skatta, lífeyri og önnur réttindi
Til að greiða starfsmanni meðallaun, sem nema um 750.000 kr. í dag, þarf vinnuveitandi að leggja út 1.070.000 kr. Mismunurinn þarna á milli skýrist helst af tryggingagjaldi, mótframlagi í lífeyrissjóð og orlofi. Áður en starfsmaðurinn fær útborgað eru tekjuskattur, útsvar og lífeyrisiðgjald starfsmannsins síðan dregin frá heildarlaununum. Eftir standa um 550.000 kr. sem útborguð laun.
Þetta þýðir að fyrir hverja krónu af útborguðum launum starfsmanns þarf vinnuveitandi að greiða tvær krónur. Rétt tæplega helmingur af kostnaði vinnuveitandans fer því í annað en útborguð laun. Umreiknað í fjölda daga fæst að 177 af 365 dögum fara í þennan kostnað, og 27. júní er einmitt 178. dagur ársins. Þann dag byrjar launamaður því að vinna fyrir útborguðum launum.
Launafleygurinn lækkar útborguð laun
Munurinn á launakostnaði vinnuveitanda og því sem starfsmaður fær útborgað kallast launafleygur. Um 60% af þessum fleyg eru greidd af vinnuveitandanum og um 40% af starfsmanninum. En það gildir einu hvor aðilinn greiðir; í lok dags er það starfsmaðurinn sem ber allan kostnaðinn í formi lægri útborgaðra launa.
Þetta skýrist af því að launatengdur kostnaður vinnuveitenda gerir vinnuafl dýrara en ella. Geta þeirra til að greiða laun verður því minni, þar sem jafnvægi á milli framboðs og eftirspurnar eftir vinnu hefur ekki breyst. Allir skattar og gjöld á vinnu leiða þannig til lægri tekna af vinnu.
Í þessu samhengi skiptir máli að launafólk hafi góða yfirsýn yfir allan launakostnað. Á Íslandi er framsetning launaseðla frjáls svo lengi sem ákvæði kjarasamninga um upplýsingagjöf eru uppfyllt. Þetta leiðir til þess að þeir eru mismunandi milli vinnuveitenda og oft óljósir. Til að auka gagnsæi væri æskilegt að vinnuveitendur uppfærðu framsetningu launaseðla þannig að allur launafleygurinn yrði sýnilegur. Með því gæti starfsfólk séð skýrt hvaða liðir draga úr útborguðum launum og hvers vegna.
Fáum útborgað fyrr
Auðsóttasta kjarabót launafólks er að minnka bilið á milli kostnaðar vinnuveitanda og útborgaðra launa starfsmanns. Minni launafleygur skilar sér að lokum í auknum ráðstöfunartekjum, sama hvort gjöld eru lækkuð á vinnuveitanda eða launþega.
Viðskiptaráð hefur lagt til þrjár raunhæfar leiðir til að ná fram þessu markmiði: (1) lækkun tekjuskatts um 2 prósentustig myndi hækka útborguð laun um 14.400 kr. á mánuði, (2) lækkun tryggingagjalds um 1 prósentustig myndi hækka útborguð laun um 6.400 kr. á mánuði, og (3) lækkun skyldulífeyris um 2 prósentustig myndi hækka útborguð laun um 15.200 kr. á mánuði.
Framangreindar þrjár breytingar myndu leiða til hækkunar á útborguðum launum starfsmanns um 36.000 kr. á mánuði. Þær myndu samhliða flýta útborgunardeginum, þannig að starfsfólk byrjaði að vinna fyrir eigin launum fyrr á árinu en raunin er í dag.
Stjórnvöld og aðilar vinnumarkaðarins hafa tækifæri til að sameinast um aðgerðir sem bæta kjör vinnandi fólks. Með auknu gagnsæi, umbótum í skattheimtu og skynsamlegri endurskoðun á lífeyriskerfinu mætti færa útborgunardaginn fram í maí á næsta ári.