fös. 4. júlí 2025 15:00
Vaxandi vantraust á efnahagsstefnu Bandaríkjanna.
Versta þróun síðan árið 1973

Bandaríkjadalur hefur aldrei byrjað ár jafn illa frá árinu 1973, að því er fram kemur í umfjöllun New York Times. Gengi dollarans hefur fallið um tæp 11% fyrstu sex mánuði ársins miðað við helstu gjaldmiðla viðskiptalanda Bandaríkjanna.

Bent er á að veiking gjaldmiðilsins hafi haldið áfram þrátt fyrir að Donald Trump forseti Bandaríkjanna hafi dregið til baka öfgafyllstu tollahótanir sínar og hlutabréfamarkaðir hafi náð sér á strik á ný.

Sérfræðingar telja þróunina meðal annars endurspegla vaxandi vantraust fjárfesta á efnahagsstefnu bandarískra stjórnvalda, ekki síst í ljósi langvarandi verðbólgu, aukinna ríkisskulda og óvissu um viðskiptastefnu.

Veikur dollari getur stuðlað að auknum útflutningi frá Bandaríkjunum og gert bandarískar vörur samkeppnishæfari á alþjóðamörkuðum. Á móti kemur að minni eftirspurn skapast eftir bandarískum fjárfestingum og dregið getur úr trausti á dollaranum sem öruggri fjárfestingu á óvissutímum. 

til baka