fös. 4. júlí 2025 08:30
Kristjana Thors Brynjólfsdóttir, framkvæmdastjóri hjá Sýn.
Áhorfshegðun hafi breyst

Tilkynnt var á dögunum að fjölmiðla- og fjarskiptafyrirtækið Sýn hefði ákveðið að gera breytingar á sjónvarpsáskriftum sínum með það að markmiði að einfalda þjónustuframboð og styrkja stöðu miðlanna sem einnar heildar. Í því samhengi verður sjónvarpsstöðin Sýn, áður Stöð 2, nú opin en hefur áður verið hluti af áskriftarpökkum.

Kristjana Thors Brynjólfsdóttir, framkvæmdastjóri miðla og efnisveitna hjá Sýn, segir að markmiðið sé að einfalda áskriftarlíkanið.

„Línulega rásin hefur ekki verið í boði sem stök áskrift í lengri tíma og því enginn viðskiptavinur eingöngu með hana í áskrift,“ segir Kristjana. Rásin hafi verið hluti af mismunandi áskriftarpökkum sem nú færast yfir í nýtt, einfaldara vöruframboð. Viðskiptavinir verða fluttir í nýja pakka sem endurspegla verðmæti þeirra pakka sem þeir voru áður með. „Vissulega eru einhverjir að hækka í verði, en einnig fá margir töluverða lækkun,“ segir Kristjana og bætir við að allir viðskiptavinir verði upplýstir um breytingarnar með tölvupósti.

Aðspurð hvaða áhrif breytingarnar hafi á reksturinn svarar Kristjana að breytingarnar séu svar við breyttri áhorfshegðun og í samræmi við óskir viðskiptavina.

„Við höfum einfaldlega verið að hlusta á viðskiptavinina. Það gefur augaleið að þetta er rétt skref,“ segir hún og bætir við að breytingarnar séu einnig rekstrarlega hagkvæmar.

Aðspurð hvaða tækifæri felist í breytingunum segir Kristjana að það snúist um að sameina miðlana og vinna sem ein heild. „Við hjá Sýn höfum verið of mikið í sílóum. Þegar miðlarnir vinna saman opnast fjölmörg ný tækifæri.“

Sýn hyggst einnig halda áfram að sýna auglýsingar í línulegri dagskrá í þessum breytingum. „Auglýsingar hafa verið hluti af rásinni. Nú skapast möguleikar til að þróa þær enn frekar og það má gera ráð fyrir að þeim muni fjölga.“

til baka