Þórólfur Hilbert Jóhannesson segir lögreglu hafa komið í veg fyrir að spurningar fjölskyldu bróður hans, Kristins Hauks, hafi komist til réttarmeinafræðings en Kristinn Haukur fannst látinn í Óshlíð milli Bolungarvíkur og Hnífsdals í september árið 1973 eftir ætlaða bílveltu.
Auk Kristins Hauks áttu að vera í bílnum ökumaður og farþegi í framsæti, sem sakaði ekki. Engin belti voru í bílnum. Málið var tekið upp fyrir tilstuðlan fjölskyldu Kristins og meðal annars voru líkamsleifar hans grafnar upp og rannsakaðar af réttarmeinafræðingi en málinu var lokað á ný árið 2023.
https://www.mbl.is/frettir/innlent/2025/07/03/heldur_thvi_fram_ad_hann_hafi_ordid_undir_bilnum/
Upplifði saksóknara hafa gefist upp
„Mér finnst líka bara ágætt að það komi fram að við kærðum þrisvar sinnum og í fyrstu tvö skiptin sendi saksóknari málið vestur og sagði lögreglunni að skoða það. Mín upplifun var í raun, þegar málinu var lokað í þriðja skiptið, að saksóknari væri bara búinn að gefast upp.
Við reyndum að koma spurningum í kærum okkar til réttarmeinafræðings. Við höfðum samband við spítalann og réttarmeinafræðingur var alveg til í að hitta okkur og fara yfir þetta en sagði að það þyrfti að fara í gegnum lögregluna, sem er alveg skiljanlegt, en lögreglan kemur í veg fyrir að þessar spurningar komist til réttarmeinafræðings.“
Myndir fundust í dánarbúi
Þórólfur segir frá því að fjölskyldan hafi látið lögreglu vita af myndum, sem fundust í dánarbúi, en áður en þeim hafi verið komið þangað hafi lögregla lokað málinu. Segir hann það stórfurðulega framkomu og vinnubrögð af hálfu lögreglu.
Þórólfur ræðir málið í Dagmálum ásamt Snorra S. Konráðssyni bifvélavirkjameistara, sem rannsakað hefur gögn málsins, greint vettvang slyssins, ástand og tilurð skemmda á ökutækinu eftir slys ásamt hreyfingu fólks i framsæti ökutækisins þegar það varð fyrir verulegum skemmdum en Snorri starfaði um árabil við slíkar greiningar fyrir lögreglu.
Brot úr þættinum má sjá í spilaranum hér fyrir ofan. Áskrifendur geta horft á þáttinn í heild sinni með því að smella á hlekkinn hér að neðan.