fös. 4. júlí 2025 10:00
Uppbygging í nágrenni nýrra höfuðstöðva Bank Lviv.
Byggja í 20 borgum í Úkraínu

Þór­hall­ur Þor­steins­son, yf­ir­maður hjá Nefco í Hels­inki, seg­ir bank­ann hafa komið að uppbyggingu húsnæðis í 20 borgum í Úkraínu. Þörfin sé mikil enda eyðileggingin vegna innrásar Rússa gríðarleg.

Þórhallur er yfirmaður fjárfestinga Nefco í litlum og meðalstórum fyrirtækjum á Norðurlöndum. ViðskiptaMogginn hitti Þórhall að máli í úkraínsku borginni Lviv á dögunum en tilefnið var að Bank Lviv var þá að vígja nýjar höfuðstöðvar.

Nefco er alþjóðleg fjármálastofnun í eigu Norðurlandanna. Nefco heitir á ensku Nordic Environment Finance Corporation en notast við nafnið The Nordic Green Bank og er bankinn ýmist kallaður Norræni græni bankinn eða Norræna umhverfisfjármögnunarfélagið á íslensku.

Rúm 20 ár í Úkraínu

„Við höfum starfað í yfir 20 ár í Úkraínu en í júlí 2022 var sett á laggirnar sérstök verkefnisáætlun, sem ætlað er að styðja við græna enduruppbyggingu í Úkraínu. Evrópusambandið og Norðurlöndin hafa verið helstu bakhjarlar verkefnisins en safnast hafa um 360 milljónir evra til uppbyggingarinnar sem verður eingöngu veitt í formi styrkja. Um 50 verkefni eru nú í gangi í Úkraínu.

Þau fela meðal annars í sér uppbyggingu hitaveitu og vatnsveitu í 12 samfélögum á Kænugarðssvæðinu og bætta orkunotkun í sveitarfélögunum Andrushivka, Radomyshl, Khmelnytskyi, Slavutych og Tetiyiv. Þá fela þau í sér uppbyggingu á húsnæði í 20 borgum fyrir fólk sem hefur hrakist af heimilum sínum út af stríðinu en þessar borgir eru Chernivtsi, Dubno, Kovel, Lviv, Makariv, Zhytomyr, Ivano-Frankivsk, Khmelnitskii, Nemishaeve, Novovolynsk, Ternopil, Chortkiv, Kivertsi, Zolochiv, Rivne og Novohrad-Volynskyi. Ísland hefur að mestu valið að fara aðrar leiðir en sumar hinna Norðurlandaþjóðanna til að styðja við Úkraínu en hefur þó lagt einhverja fjármuni til Úkraínu í gegnum Nefco.“

Þannig að Nefco hyggst fjárfesta fyrir tugi milljarða króna í Úkraínu?

„Vissulega, en hafa þarf hugfast að það er aðeins brotabrot af því sem þarf og við erum aðallega að vinna í litlum og meðalstórum verkefnum. Við erum ekki í stórum innviðaverkefnum eins og vegum eða orkuverum en slík verkefni heyra undir stórar alþjóðastofnanir. Við höfum hins vegar náð mjög góðum árangri í að framkvæma og klára þau verkefni sem við stýrum.“

Heimili fyrir heimilislausa

Hver er árangurinn af þessu starfi?

„Hann er að birtast í nýjum híbýlum og húsnæði, meðal annars fyrir það fólk sem hefur þurft að flýja átökin. Við erum meðal annars að byggja fjölbýlishús og skóla og endurgera spítala. Það er verið að betrumbæta og laga á eins grænan hátt og hægt er.“

Þannig að nettóáhrifin eru jákvæð fyrir umhverfið?

„Já. Mörg verkefna okkar í Úkraínu stuðla að orkusparnaði. Honum er meðal annars hægt að ná með því að skipta um ofna, gler og einangrun í húsum. Með slíkum aðgerðum hefur til dæmis náðst allt að 40% orkusparnaður í skólum.“

Uppbygging í 20 borgum

Hver er húsnæðisþörfin?

„Hún er mikil. Við höfum sem áður segir komið að uppbyggingu húsnæðis í 20 borgum í Úkraínu og erum mikið að vinna með Dönum að innviðaverkefnum í borgum sem hafa farið illa út úr stríðinu. Þannig að við erum í raun að sjá um fjármögnun frá okkar eigendum og frá Evrópusambandinu en við höfum sýnt fram á góðan árangur í því að framkvæma slík verkefni.

Við erum með afar öflugt framkvæmdateymi sem kemur okkur á kortið með því að tengja saman hið opinbera og byggingaraðila. Júlía Shevchuk stýrir starfsemi okkar í Úkraínu en hún er með beintengingar í meira og minna allar borgarstjórnir í landinu. Tengslanetið er því mjög öflugt og við erum gríðarlega vel þekkt,“ segir Þórhallur en fram kemur á vefsíðu Nefco að áætlað sé að 250 þúsund byggingar hafi skemmst eða eyðilagst í Úkraínu eftir innrásina. Tjónið er því gríðarlegt.

Eru um alla Úkraínu

Nú ætla ég ekki að spyrja þig um framgang stríðsins – það væri ósanngjarnt – en hyggist þið halda þessum þunga í fjármögnun verkefna í Vestur-Úkraínu?

„Já, en hins vegar eru flest þessara verkefna í Mið- og Vestur-Úkraínu, en við erum þó með nokkur verkefni býsna nálægt víglínunni. En svarið er já, við munum halda áfram, það er alveg klárt, og bæta í ef eitthvað er, vegna þess að það er svo margt sem þarf að gera. En auðvitað þarf þetta stríð að taka enda til þess að við náum að gera þetta af þeirri alvöru sem við viljum. Við erum ekki komin til að tjalda til einnar nætur enda höfum við unnið í Úkraínu í rúm tuttugu ár og munum halda því áfram,“ segir Þórhallur en fjallað var um efnahag Úkraínu í ViðskiptaMogganum 21. maí sl. og rætt við stjórnendur Bank Lviv.

Þess má að lokum geta að íslenska ríkið er óbeint hluthafi í Bank Lviv í gegnum Nefco sem var lánveitandi Bank Lviv en er nú hluthafi í bankanum með um 10% hlut.

til baka