Hafdís Björg Davíðsdóttir er förðunarfræðingur, fædd og uppalin á Akureyri. Hún útskrifaðist úr Reykjavík Makeup School með hæstu einkunn og viðurkenningu fyrir framúrskarandi árangur. Nú kennir hún við skólann og tekur að sér farðanir fyrir ýmis verkefni og tilefni. Hún er einnig virk á samfélagsmiðlum og vinnur að hluta til við það.
Hafdís segist hafa haft áhuga á förðun síðan hún man eftir sér. „Ég horfði á myndbönd á Youtube og Instagram og kenndi sjálfri mér að mála mig. Ég elskaði líka alltaf að mála aðra, eins og mömmu, systur mína og vinkonur, og þá fór mig að dreyma um að vinna við þetta,“ segir hún.
„Ég hafði hugsað um það í langan tíma að læra förðunarfræðinginn en í ágúst 2023 ákvað ég loksins að láta vaða og flytja suður til að elta drauminn minn.“ Ákvörðunina segir Hafdís vera þá bestu sem hún hafi tekið.
„Ég meina það svo innilega þegar ég segi að þetta sé það skemmtilegasta sem ég geri og ég veit ekki hvar ég væri ef ekki væri fyrir förðun,“ segir hún einlæg.
Hverjar eru þínar uppáhalds vörur akkúrat núna?
„Ég er mikið fyrir þetta „full glam lúkk“ og elska vörur sem þekja vel og gefa mér fullkomna áferð. Ég segi líka alltaf að ef fólki finnst förðunin ekki koma eins út og það vill þá gæti það verið vegna þess að það sé ekki að setja nóg af vörunni á sig. Mér finnst fólk oft mega setja meira af hverri vöru því það sem skiptir mestu máli er blöndunin og hvernig við byggjum vörurnar ofan á hver aðra.
Lancome-farðinn er í miklu uppáhaldi hjá mér þessa dagana en hann gefur mér svo fallega áferð og fullkomlega matta húð án þess að hún líti út fyrir að vera þurr. Einnig er nýi Estee Lauder-hyljarinn búinn að skjótast upp í efstu sætin hjá mér og Chill in June-sólarpúðrið gefur mér akkúrat þessa fullkomnu áferð sem ég leitast eftir.“
Hafdís segist alltaf farða í lögum, byrji á kremvörum og setji svo púðurvörur yfir.
„Uppáhalds púðurvörurnar mínar eru til dæmis lausa púðrið frá Hudabeauty, það er eins og „filter“ yfir húðina. Ég elska að nota það í smá bleiktóna lit þar sem það birtir undir augun. Svo klassískar vörur eins og Mac give me sun á kinnbeinin og ennið til að gefa húðinni fallegan hlýjan lit. Ég blanda oft kinnalitum, möttum og ljómandi saman fyrir rétta áferð hverju sinni. Mér finnst best að finna mér augnskugga annars staðar en á Íslandi. Þá helst í Sephora, Patrik Ta og Makeup by Mario.“
Hvað er í tísku í förðun í sumar?
„Mér finnst „softglam-makeup lúkkið“ passa við hvaða tilefni sem er og er sérstaklega fallegt yfir sumartímann eða fyrir brúðkaup. „Softglam“ er þegar húð, augu og varir passa fallega saman og hafa sömu tóna og liti.
Mér finnst fólk líka almennt mála sig minna yfir sumarið og vilja meiri ljóma í förðun. Þá er fallegt að hafa létta og ljómandi húð þar sem minna af vöru er sett á miðju andlitsins þannig að freknur sjáist í gegn, þannig fær húðin oft frískara útlit. Ég elska að nota nóg af sólarpúðri yfir sumartímann. Mér finnst flestir Íslendingar vera sjúkir í sólarpúður eins og ég. Hlýir litir á augun og „bronzy“ húð verður held ég mjög vinsælt yfir sumarið.“
Hverjar eru þær snyrtivörur sem þú gætir ekki verið án?
„Þegar ég mála mig þá sleppi ég sjaldan eyeliner. Mér finnst hann lyfta augunum svo fallega og gera svo mikið fyrir andlitið. Minn uppáhalds eyeliner er Urban Decay browblade sem er ekki einu sinni eyeliner, þetta er augabrúnavara sem er með þynnsta og besta túss sem ég hef prufað. Ég elska að vera með brúnan liner, hann er mýkri en svartur og rammar augað svo fallega inn.
Ég gæti líka aldrei sleppt sólarpúðri, það skemmtilegasta sem ég geri er að gefa andlitinu dýpt og hlýju aftur með sólarpúðri. Ég elska líka hvað hyljari gerir mikið fyrir andlitið með því að birta til undir augunum og á miðjusvæðunum á andlitinu.
En þetta er sjúklega erfið spurning þar sem ég elska allt við að mála mig og aðra,“ segir Hafdís Björg Davíðsdóttir að lokum.