Hin 19 ára gamla Bella Lindsay, sem kallar sig oft „brjóstalausu Bellu“ á TikTok, hefur vakið mikla athygli á samfélagsmiðlinum fyrir að nýta miðilinn til að fjármagna brjóstastækkun sem hana hefur dreymt um lengi.
Lindsay gerði samning við móður sína um að ef hún næði 100 þúsund fylgjendum á TikTok myndi mamma hennar greiða helminginn af aðgerðinni, sem kostar um 1,7 milljónir króna.
Tók bara nokkrar klukkustundir
Lindsay tók áskoruninni og náði þessu markmiði á ótrúlegum hraða en það tók hana ekki nema nokkrar klukkustundir að ná 100 þúsund fylgjendum.
Hvernig fjármagnar hún hinn helminginn?
Þá stóð hins vegar eftir að safna fyrir hinum helmingnum, en Lindsay dó ekki ráðalaus og fann sér snjalla leið til þess. Í júnímánuði tókst henni að afla rúmlega 250 þúsund króna í gegnum auglýsingatekjur á TikTok og tæplega 70 þúsund króna með því að fá greitt fyrir að nota hljóðbrot frá tónlistarmönnum í myndböndum sínum. Í heild safnaði hún um 320 þúsund krónum á einum mánuði, sem þýðir að hún var komin langleiðina að markmiðinu á stuttum tíma.
Metnaðurinn skilaði sér
Metnaðurinn við að birta öll þessi myndbönd endaði heldur betur á að skila sér en í vikunni hafði lýtalæknir samband við Lindsay og bauðst til að framkvæma aðgerðina henni að kostnaðarlausu gegn því að hún myndi birta umfjöllun um ferlið á sínum samfélagsmiðlum.
Lindsay er nú komin með tíma í aðgerðina þann 27. júlí og ætlar að halda fylgjendum sínum vel upplýstum um ferlið. Ef lesendur eru að velta fyrir sér hvað verður um peningana sem Lindsay hefur þegar safnað, þá ætlar hún að nota þá til að skella sér í gott ferðalag erlendis.