Quang Le gæti átt yfir höfði sér allt að 12 ára fangelsi ef hann verður sakfelldur fyrir alla þætti sem lögregla grunar hann um. Hann hefur þó ekki verið ákærður og rannsókn á meintum brotum hans hefur staðið yfir frá því í mars í fyrra.
Þetta er meðal þess sem kemur fram í gæsluvarðhaldsúrskurði yfir Quang Le sem grunaður er um skipulagða brotastarfsemi, peningaþvætti, skjalafals og fleira sem tengist ætluðu hagnaðardrifnu vinnumansali.
Fram kemur í gæsluvarðhaldsúrskurði yfir honum sem nú hefur verið birtur á vef Landsréttar að meint fórnarlömb hans segjast hafa greitt átta milljónir króna til hans í skiptum fyrir atvinnu- og dvalarleyfi á Íslandi.
Við skýrslutöku sögðust meintir brotaþolar hafa selt aleiguna til að komast til Íslands og þannig hafi þeir náð að fjármagna þær átta milljónir sem hefði þurft til.
Enginn kannast við sérfræðimenntun
Þá segjast þau hafa fengið 250 þúsund krónur útborgaðar jafnvel þótt launaseðill hafi gefið í skyn að þau fengju greiddar 420 þúsund krónur í laun. Þannig hafi fólk látið Quang Le eða einhvern á hans vegum fá mismuninn.
Enn fremur segir að Quang Le hafi útvegað atvinnu- og dvalarleyfi fyrir fólk á grunni sérfræðimenntunar þess. Þegar menntunin var borin undir starfsfólkið hafi það hins vegar hvorki kannast við það að búa yfir slíkri sérhæfni né hafa gengið í þá skóla sem framlögð gögn sögðu til um þegar sótt var um atvinnu- og dvalarleyfi.
Þegar til Íslands var komið eru hin meintu fórnarlömb mansalsins sögð hafa unnið sex daga vikunnar í 12 klukkustundir í senn án möguleika á sumarfríi.
Neitaði að gefa upp PIN-númer
Quang Le var í gæsluvarðhaldi í 14 vikur í heild og þar af var hann sjö vikur í einangrun. Meðal ástæðna sem lögregla gefur upp um lengd gæsluvarðhaldsins er sú að Quang Le hafi neitað samvinnu við lögreglu. Þannig hafi aðrir sem handteknir voru í málinu gefið upp farsímagögn sem veitt hafi talsverða innsýn í málavexti en hins vegar hafi hann neitað að veita PIN-númer á símanum sínum og að það hafi tafið alla vinnu lögreglu umtalsvert.