lau. 12. júlí 2025 11:00
Katla Halldórsdóttir naglafræðingur svarar öllum helstu spurningum um heitustu naglatískuna í sumar.
„Þrívíddarblóm komu eins og sprengja inn í naglaheiminn!“

Nú er farið að líða á sumarið og naglatíska sumarsins farin að verða augljós. En hvaða litir eru vinsælastir og hvaða form eru mest áberandi? Við hjá Smartlandi fengum sérfræðing til að svara öllum helstu spurningum um heitustu naglatískuna í sumar.

Katla Halldórsdóttir er 25 ára nagla- og viðskiptafræðingur. Hún hefur gert neglur í nærri sjö ár og rekur einnig eigin naglaskóla og netverslun.

Vinsælasta formið

Það er enginn vafi hjá Kötlu þegar spurt er út í vinsælasta naglaformið en „pointy almond“-formið eða oddhvassar möndluneglur er áberandi vinsælasta naglaform sumarsins. Stuttar og rúnaðar neglur eru einnig vinsælar hjá þeim sem kjósa náttúrulegt útlit og vilja aðeins gel á eigin neglur.

 

 

Gulur í öllu sínu veldi

Þegar kemur að litum er hinn svokallaði smjörgulur langvinsælastur. 

„Ég er búin að gera endalaust af gulum nöglum,“ segir Katla og bætir við að það sé einnig vinsælt að bæta við króm yfir gula litinn.

„Mjólkurhvítur litur hefur einnig verið vinsæll, bæði einn og sér eða sem grunnur undir skraut. Bleikur og appelsínugulur eru síðan alltaf jafn vinsælir á sumrin.“

 

Þrívíddin slær í gegn

Eitt af stærstu tískufyrirbrigðunum í sumar eru þrívíddarmunstur, einnig hafa „aura-neglur“ notið mikilla vinsælda, sérstaklega í bland við franskar línur eða króm-áferð. Þá hafa blóm gerð úr „blooming-geli“ verið áberandi.

„Þrívíddarblóm komu heldur betur eins og sprengja inn í naglaheiminn! Reyndar er allt þrívíddarmynstur mjög vinsælt núna, enda ótrúlega skemmtilegt lúkk! Aura-neglur hafa einnig verið ótrúlega vinsælar og ég blanda þessu oft saman, aura, þrívíddarmynstri og french tip.’’

 

 

Munurinn á naglatískunni miðað við í fyrra

Aðspurð hvort hún finni mun á naglatískunni í ár, frá síðasta sumri, segir Katla svo vera.

„Það eru alltaf nokkur trend sem koma aftur og aftur, eins og litaðar french tip. Króm var rosalega vinsælt síðasta sumar og er ennþá vinsælt, þó að það sé kannski ekki alveg jafn mikið og það var í fyrra.

 

Góð ráð fyrir betri endingu á nöglunum í sumarfríinu

Katla segir mikilvægt að hugsa vel um neglurnar í sumar, sérstaklega ef fólk ætlar að eyða miklum tíma við sundlaugina eða á ströndinni. Bæði klór úr sundlaugum og salt frá sjónum getur þurrkað náttúrulegar neglur og valdið lyftingu eða niðurbroti vörunnar sem er á nöglunum.

„Ég mæli alltaf með því að skola hendurnar með hreinu vatni eftir sund þegar það er mögulegt og nota naglabandaolíu og handáburð reglulega til að bæta upp rakann. Ef þú ert mikið á sundlaugarbakkanum myndi ég reyna að halda nöglunum eins þurrum og mögulegt er. Að láta neglur liggja lengi í vatni getur valdið því að naglaplatan mýkist, sem getur leitt til sprungumyndunar og veikt naglaplötuna, sem gerir hana viðkvæmari.’’

Katla leggur einnig áherslu á að halda þeim þurrum ef platan er að lyftast frá. Því ef raki festist á milli getur myndast bakteríusýking eða það sem naglafræðingar kalla „greenie“.

Uppáhaldið hennar Kötlu í sumar

Sjálf kýs Katla einlitar neglur í skærum litum á sumrin, en krossfiskaskreytingar hafa komið skemmtilega á óvart í sumar.

„Það er ótrúlega skemmtilegt og flott lúkk og er uppáhalds þetta sumarið!“ segir hún að lokum.

 



til baka