Tónleikum þungarokksstjörnunnar Marilyns Mansons, sem áttu að fara fram miðvikudaginn 29. október í Brighton í Bretlandi, hefur verið aflýst. The Guardian greinir frá og segir tónleikana hafa átt að vera þá fyrstu á komandi tónleikaferðalagi Mansons.
Hætt hafi verið við þá vegna þrýstings frá baráttufólki og þingmanni í Brighton sem sögðu tónleikana ganga gegn gildum borgarinnar. Ticketmaster hafi síðan tilkynnt viðskiptavinum að viðburðurinn færi ekki fram og þeir fengju því endurgreitt.
Fjórar konur höfðu lagt fram kærur á hendur Manson, sem heitir réttu nafni Brian Warner, fyrir nauðgun, kynferðisofbeldi og líkamstjón en eftir árslanga rannsókn voru kærurnar felldar niður í janúar.