Þórir Erlingsson elskar að grilla í öll mál, sérstaklega eftir að hafa byggt sér grillhús á pallinum sem nýtist allan ársins hring. Hann gefur lesendum Morgunblaðsins uppskriftir að grillréttum sem eru í uppáhaldi hjá honum og fjölskyldunni þessa dagana.
Þórir er viðloðandi allt sem tengist kokkabransanum í dag en hann er forseti Klúbbs matreiðslumeistara, fæddur í Reykjavík og uppalinn á Eyrarbakka. Hann er menntaður matreiðslumeistari og lærði á veitingastaðnum Skútanum í Vestmannaeyjum og er með meistaragráðu í alþjóðlegri gestrisni og ferðaþjónustustjórnun frá Suður-Karólínuháskóla.
Ástríða Þóris fyrir faginu fer ekki fram hjá neinum og hann nýtur þess að gefa af sér í starfi sínu. Þessa dagana er það fyrst og fremst íslenska kokkalandsliðið sem er í forgrunni hjá klúbbnum.
„Ég hef mikinn áhuga á matarsögu, matarhefðum og hvernig matur hefur áhrif á fólk bæði til góðs og ills. Síðustu fimm ár hef ég þjónað sem forseti Klúbbs matreiðslumeistara og framkvæmdastjóri kokkalandsliðsins en KM á og rekur kokkalandsliðið,“ segir Þórir með bros á vör.
Klúbburinn fékk nýlega frábæra skrifstofuaðstöðu í Húsi fagfélaganna, þar sem hann er búinn að koma sér vel fyrir. „Á þessum 53 árum síðan klúbburinn var stofnaður er þetta í fyrsta skipti sem klúbburinn er með starfsmenn í fullu starfi þó að ýmislegt hafi verið reynt tímabundið í sögunni. Deildum hefur fjölgað og nú eru fjórar deildir starfandi innan klúbbsins og sú fimmta hefur starfsemi nú í haust,“ segir Þórir og bætir við að verkefnin séu orðin mörg og ekki veiti af að hafa góðan mannskap sem sinnir því sem gera þarf.
Í fyrsta skiptið sem ungkokkalandslið er með
Það styttist óðum í að kokkalandsliðið fari út að keppa á heimsmeistaramótinu í matreiðslu sem fer fram í Lúxemborg og er stærsta verkefnið þessa dagana. Liðið ætlar sér að ná langt og metnaðurinn er mikill.
„Undirbúningur kokkalandsliðsins gengur vel, æfingar hófust í febrúar, en liðið er núna í sumarfríi og svo hefjast æfingar á fullu aftur í lok ágúst. Hópurinn er frábær en nánari kynningar á landsliðsmönnum hefjast síðsumars.
Síðan hefjast æfingar ungkokkalandsliðsins í september en stefnan er að fara líka með það á heimsmeistaramótið í Lúxemborg í nóvember á næsta ári. Þetta verður í fyrsta skipti sem við sendum bæði senjor- og júníorlið til keppni.“
Grillaði morgunmatinn
Matarhjartað slær hjá Þóri allan ársins hring og alls staðar. Hann nýtur þess að gera vel við sig og sína heima og á sumrin er grillið nánast alltaf í gangi. „Ég elska að grilla, sem kemur meðal annars fram í því að þegar við byggðum pallinn hjá okkur bjuggum við okkur til geggjað grillhús og grillum þar allt árið. Svona sem dæmi notaði ég grillið til að elda morgunmatinn minn í morgun. Eins og er grilla ég mest á Napoleon-gasgrilli en það hefur reynst okkur ótrúlega vel. Draumurinn er að bæta við grænu eggi og pítsuofni í grillhúsið,“ segir Þórir dreyminn á svip.
Aðspurður segist Þórir ekki muna eftir fyrsta skiptinu sem hann grillaði. „En ég á margar góðar minningar tengdar grilli, t.d. á ferðalagi með frábærum vinum um Norðurland þar sem við grilluðum í sveitinni þar sem ég hafði verið í sveit, þá var það kolagrill, önnur úr Þórsmörk þar sem ég heilgrillaði nautalund á frekar lélegu kolagrilli en svakalega var lundin góð.“
Það fer allt á grillið þegar grilla skal og sérstaklega meðlætið. „Meðlætið skiptir máli og mér finnst grillað grænmeti ótrúlega gott, sérstaklega þá brokkolí og blómkál sem og fylltir sveppir. Mér finnst sósa óþörf en gott kryddsmjör virkar alltaf, bæði með kjöti og fiski. Ég reyni alltaf að halda þessu einföldu, bæði undirbúningnum og elduninni, einfaldlega vegna þess að mér finnst það best. Fiskur eða kjöt þar sem meginkryddið er salt og pipar, það finnst mér best.
Margt er í uppáhaldi hjá mér þegar grilla skal en ég ætla að nefna tvennt hérna. Það er annars vegar góð nautasteik, vel fitusprengd og ekki ofelduð, hún klikkar seint. Með góðri steik þarf ekkert meðlæti, bara krydduð með salti og pipar og svo að njóta hvers bita. Einnig finnst mér grillaður lax alveg frábær og það eru margar góðar sögur af grilluðum laxi frá þeim tíma sem ég bjó í Bandaríkjunum.
Málið er að flestir, allavega í suðurríkjum Bandaríkjanna, ofelda laxinn alltaf og þá er hann bara ekkert góður, en rétt eldaður lax er algjört sælgæti. Margir af bandarískum vinum mínum hafa sagt mér að þeim hafi fundist lax vondur alveg þangað til þeir fengu hann rétt eldaðan. Þetta minnir okkur á að við þurfum að kenna fólki að elda fisk á réttan hátt,“ segir Þórir alvörugefinn.
Einfaldleikinn bestur
„Hjá mér snýst matargerð aðallega um að hafa ferskt og gott hráefni. Þegar ég var beðinn að koma uppskrift í Morgunblaðið hugsaði ég bara: höfum þetta eins einfalt og mögulegt er. Veljum hráefnið vel, þá er til að mynda mikilvægt að velja sér nautakjöt sem er vel fitusprengt og alls ekki skera fituna, hún gefur bragð og er algjörlega nauðsynlegur hluti af steikinni. Ef þér líkar ekki fitan þá skerðu hana bara frá á disknum þínum. Í þessu tilfelli valdi ég ribeye-steik af íslensku nauti frá Kjarnafæði. Grænmetið var einnig mjög einfalt, blaðlaukur, tómatar frá Friðheimum, sveppir frá Flúðasveppum og perlulaukur. Smjörið frá MS með graslauk úr garðinum hjá mér.
Einfaldleikinn finnst mér alltaf bestur, veljið gott hráefni og leyfið því að njóta sín. Í góðri grillveislu má bæði bera fram matinn á fötum eða skammta á diska, „bæði betra“ eins og einhver sagði, allt eftir stemningunni hverju sinni,“ segir Þórir að lokum og vindur sér í verkið og töfrar fram þessa dýrindis grillmáltíð sem allir ættu að ráða við.
Ribeye-steik með grænmetisspjóti og graslaukssmjöri
Ribeye-steik
fyrir 2-4
- 2-4 ribeye-steikur
- graslaukssmjör eftir smekk
- salt og pipar eftir smekk, má sleppa
Aðferð:
- Takið steikina út úr kæli allavega tveimur tímum fyrir eldun til að hún nái stofuhita.
- Setjið grillið á hæsta hita.
- Grillið steikina, lengd tímans fer eftir þykkt steikarinnar og hversu mikið steikta þið viljið hana.
- Persónulega vil ég hafa mína lítið steikta og þá er tíminn ansi stuttur.
- Þegar steikingu er lokið er steikin látin hvíla í um það bil 10 mínútur, berið svo fram.
Graslaukssmjör
- 500 g smjör
- 1 tsk. sinnep, ég nota Dijon
- graslaukur eftir smekk, ég nota mjög mismikið af graslauk, stundum þannig að smjörið verður grænt
Aðferð:
- Takið smjörið úr kæli og látið ná stofuhita þannig að það sé mjúkt.
- Setjið síðan allt hráefnið í matvinnsluvél og maukið vel saman.
Grænmetisspjót
- 2 litlir tómatar
- 1 lítill sveppur eða stór sem er skorinn í fernt
- 1 til 2 perlulaukar
- blaðlaukur, skorinn í um það bil 2 cm bita
- hvítlaukssalt og pipar eftir smekk
- ólífuolía eftir þörfum
Aðferð:
- Uppskriftin miðast mið eitt spjót, svo má bara búa til eins mörg og þér hugnast. 1 til 2 spjót á mann er gott viðmið.
- Ef notuð eru tréspjót þá þarf að leggja þau í bleyti.
- Einnig eru til stálspjót sem má svo nota aftur og aftur.
- Leggið spjótin í bleyti.
- Kryddið ólífuolíuna með hvítlaukssalti og pipar.
- Finnið grænmetið til og skerið.
- Veltið því upp úr kryddleginum.
- Raðið síðan öllu grænmetinu á spjótin.
- Grillið á meðalhita þar til grænmetið er orðið mjúkt.
Fylltir sveppir
- 1 til 2 sveppir fyrir hvern gest
- 1 mexíkóostur
Aðferð:
- Það getur verið mjög einfalt að fylla sveppi.
- Byrjið á að skola þá, kippið svo stilkunum af og raðið höttunum á bakka.
- Svo má fylla sveppina með hverju sem er, í þessu tilfelli fyllti ég þá bara með mexíkóosti.
- Grillið svo þangað til osturinn er mjúkur.
Grillaður beinmergur
- 2-4 stk. beinmergur, eitt stykki á hvern gest
- salt og pipar eftir smekk
Aðferð:
- Þetta er uppáhalds: nautaleggir sem skornir hafa verið í tvennt eru lagðir beint á grillið, kryddað með salti og pipar.
- Þegar mergurinn er orðinn vel heitur, lítur út fyrir að hann sé farinn að sjóða, þá ber maður hann fram.
- Beinmerg má bæði kaupa reyktan og óreyktan.