Umferðaróhapp varð snemma í morgun við Þingeyri við Dýrafjörð. Ökumaður missti stjórn á bíl sínum og hafnaði utan vegar. Einn farþegi var í bílnum auk ökumannsins.
Ökumaðurinn var fluttur á sjúkrahúsið á Ísafirði með minni háttar áverka en hann er grunaður um að hafa ekið undir áhrifum áfengis. Farþeginn slapp ómeiddur.
Hlynur Snorrason, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Vestfjörðum, segist í samtali við mbl.is vera vongóður um að ökumaðurinn útskrifist fljótlega af sjúkrahúsi, „þetta voru ekki alvarlegir áverkar sem hann hlaut“.
Tvær bæjarhátíðir um helgina
Mikill fjöldi fólks er á Vestfjörðum en þar eru tvær bæjarhátíðir um helgina, Bíldudals grænar baunir og Markaðshelgin í Bolungavík.
Hlynur segir allt hafa gengið vel hingað til en eitthvað hafi þó verið um hraðakstur.
Hann segir lögreglu vera með öflugt umferðareftirlit og vonast til þess að ökumenn stilli hraðanum í hóf og séu vel stemmdir til aksturs, „ef eitthvað út af bregður þá má fólk búast við viðeigandi afskiptum,“ segir Hlynur og ítrekar að allt hafi þó gengið vel til þessa.
„Við vonumst bara til áframhaldandi gleði.“