Það hefur hægst á efnahagsvexti beggja vegna Atlantshafsins. Evrópska hagkerfið stendur nánast í stað og er við það að fara í samdrátt, og hagvöxtur í Bandaríkjunum hefur einnig hægt á sér. Í Bretlandi dróst hagkerfið saman á síðari hluta árs 2024 en tekur nú smám saman við sér; spáð er um 1% hagvexti þar á yfirstandandi ári.
Ástæður þessa hægari takts eru margvíslegar. Í Evrópu hefur lítil opinber örvun og óvissa í alþjóðaviðskiptum (m.a. vegna tolla) dregið úr útflutningi og fjárfestingu fyrirtækja. Þó eru vísbendingar um að ný ríkisútgjöld séu í burðarliðnum sem gætu komið hjólum atvinnulífsins aftur af stað, og stýrivextir Evrópska seðlabankans eru ekki lengur hamlandi eftir að hafa verið lækkaðir jafnt og þétt.
Í Bandaríkjunum hefur lítil fjárhagsleg örvun verið í gangi undanfarið og vaxtastigið er mun hærra en í Evrópu. Háir vextir hægja á eyðslu heimila og fjárfestingu fyrirtækja, og bandaríska hagkerfið er viðkvæmt fyrir áföllum. Takmarkað svigrúm er til aukinna ríkisútgjalda vestanhafs og verðbólga hefur enn verið of há til að Seðlabankinn þar í landi geti veitt hagkerfinu verulegan slaka. Þó er hvorki gert ráð fyrir djúpri niðursveiflu í Bandaríkjunum né í Evrópu á næstunni.
Erfitt að átta sig á raunstöðu
Efnahagshorfur eru litaðar af mikilli óvissu um þessar mundir, að sögn Hafsteins Haukssonar aðalhagfræðings Kviku. Hann bendir á að breytingar á fyrirkomulagi alþjóðaviðskipta hafi gert það að verkum að erfitt sé að átta sig á raunstöðu hagkerfa, sérstaklega í Bandaríkjunum, Evrópu og Bretlandi.
„Tölur fyrir fyrsta ársfjórðung er erfitt að meta af því að fyrirtæki og heimili flýttu viðskiptum fram í tímann til að forðast tolla sem lagðir voru á í apríl. Hagvöxtur í Bretlandi og Evrópu lítur sterkari út en hann í raun er, þar sem eftirspurn eftir innflutningi í Bandaríkjunum var svo mikil vegna þessa,“ segir Hafsteinn. Hann telur líklegt að þessi áhrif gangi til baka og að neikvæð áhrif tollastefnunnar birtist skýrar á síðari fjórðungum ársins.
Mjúk gögn, líkt og væntingavísar, hafi verið lin á fyrri hluta ársins. „Tollar og óvissa um viðskiptaumhverfið eru í raun skattur á alþjóðaviðskipti,“ segir hann og varar við að fyrirtæki hagi sér varlega og haldi aftur af ráðningum og fjárfestingu þegar þau vita ekki hvernig reglurnar verða. Þótt hörð gögn um efnahagsumsvif hafi enn sem komið er sýnt viðnámsþrótt, þá gæti þetta orðið dragbítur á bæði bandarískan og alþjóðlegan hagvöxt þegar líður á árið.
Lesa má greinina í heild sinni í ViðskiptaMogganum.