fös. 4. júlí 2025 08:38
Gabríela Ýr og kærasti hennar fóru í slökunarferð til Antalya.
Þurfti ekki að lyfta fingri á Tyrklandi

„Markmiðið var að fara í algjöra slökun um páskana með fjölskyldunni minni,“ segir Gabríela Ýr Þorvaldsdóttir sem sleikti sólina í Antalya um páskana. Hún segir ferðalag til borgarinnar í Tyrklandi hafa legið beinast fyrir þegar hún sá auglýst beint flug þangað. Gabríela vinnur í tekjustýringu hjá flugfélaginu Play.

Gabríela, sem er 25 ára og með BS-gráðu í rekstrarverkfræði, hafði tvisvar áður ferðast til Tyrklands og segist því þekkja til þar. Hún ferðaðist með kærasta sínum og foreldrum sem nýttu ferðina til að spila golf.

Gabríela og kærastinn voru hins vegar í algerri slökunarferð. „Við vorum á hóteli þar sem allt er innifalið. Það er hægt að segja að við þurftum ekki að lyfta fingri þessa viku sem við vorum þarna. Þjónustan á hótelum í Tyrklandi er rosaleg, allir tilbúnir að gera allt fyrir mann,“ segir Gabríela.

 

Miklu meira en bara strönd

„Það kom mér á óvart hvað Antalya er fjölbreytt. Ég hélt að þetta væri fyrst og fremst strandstaður, en borgin er miklu meira en það. Það kom mér líka á óvart hvað andrúmsloftið var rólegt miðað við stærð borgarinnar. Þrátt fyrir að vera ferðamannastaður var oft hægt að finna kyrrlát horn og njóta útsýnis eða kaffibolla án þess að vera í látum. Það gerði upplifunina heimilislegri en ég hafði búist við.“

Þá séu mörg skemmtileg svæði í kringum borgina. Sjálf gisti Gabríela í Belek, bæ um hálftíma frá Antalya, en hún segir gamla bæinn Kaleiçi sérlega heillandi. „Þar eru þröngar götur, litlar verslanir og kaffihús með notalegu yfirbragði. Þó umferðin geti verið mikil annars staðar í borginni, þá er þessi hluti rólegur og með miklum karakter. Það er líka mikið af fallegum gömlum byggingum og útsýni yfir höfnina og fjöllin í fjarska.“

Í Antalya mætist menning og náttúra. „Það er auðvelt að fara í dagsferðir upp í fjöllin eða skoða fossana í nágrenninu, og það eru fjölmargir staðir þar sem hægt er að borða góðan mat og njóta umhverfisins í afslöppuðu andrúmslofti.“

 

 Nauðsyn að smakka matinn

Gabríela segir matarmenningu Tyrkja ólíka því sem hún þekki, það sé þó alger nauðsyn að smakka matinn sem landið hafi upp á að bjóða. Þá mælir hún sérstaklega með baklava, gözleme pönnukökum og tyrknesku tei.

Hápunktur ferðarinnar var þó án efa skemmtigarðurinn Land of Legends í Belek, að sögn Gabríelu, en þar er bæði risastór verslunarmiðstöð, rússíbanar og vatnsrennibrautir.

til baka