fös. 11. júlí 2025 13:00
Lesandi Smartlands hefur áhyggjur af andvökunóttum vegna kæfisvefns.
„Ómeðhöndlaður kæfisvefn getur verið hættulegur“

Brynja Björk Harðardóttir hefur starfað sem tannlæknir í 22 ár, þar af ellefu ár í Svíþjóð. Hún er eigandi tannlæknastofunnar Tannprýði og hefur ríkan áhuga á tannvernd og munnheilsu og svarar lesendum Smartlands um allt það sem snertir starfsemi stofunnar á einhvern hátt. 

Sæl Brynja,

Ég fór á stefnumót með manni sem sagðist vera með kæfisvefn. Það eina sem ég hugsaði um voru svefnlausar nætur og við höfðum einungis farið á eitt stefnumót. Er mikið vandamál að laga kæfisvefn? Hann sagðist bara þurfa að grenna sig og þá væri málið dautt, er það rétt?

Kveðja,

KLK

 

Góðan dag, 

Orsakir kæfisvefns geta verið af margvíslegum toga og því er mikilvægt að fá rétta greiningu á orsökum og einstaklingsmiðaða meðhöndlun miðað við greiningu.

Hrotur eru ekki hættulegar en þær þróast oft yfir í kæfisvefn. Þá hættir fólk að anda í margar sekúndur og verður fyrir súrefnisskorti á meðan. Þetta getur gerst oft meðan á svefni stendur, allar nætur.

Það getur vissulega hjálpað að létta sig en aðrar orsakir gætu legið að baki. Til dæmis afturstæður neðri kjálki, lyf, lífsstíll og margt fleira. Kæfisvefn getur haft alvarlegar afleiðingar á lífsgæði og heilsu fólks og því mæli ég alltaf með að fólk fari í svefnrannsókn til að finna rót vandans.

Góður svefn er grundvöllur góðrar heilsu. Hann er mikilvægur fyrir heilastarfsemi og þar með talið einbeitingu og minni, einnig ónæmiskerfið, hormónajafnvægi, efnaskipti og svo ekki sé minnst á andlega líðan.

Ómeðhöndlaður kæfisvefn getur verið hættulegur. Fólk með ómeðhöndlaðan kæfisvefn fær ekki góðan svefn. Það er því þreyttara og með minni einbeitingu sem getur valdið dagsyfju og slysum, t.d. bílslysum þegar fólk sofnar undir stýri.

Kæfisvefn er einn þeirra þátta sem auka líkur á háþrýstingi og því er fólk með kæfisvefn líklegra en annað fólk til að vera með of háan blóðþrýsting. Þeim er einnig hættara við að fá hjartaáfall eða þjást af hjartabilun.

https://www.mbl.is/smartland/heilsa/2025/06/08/thad_er_daemi_um_mjog_vafasamar_tannlaekningar/

En sem betur fer er hægt að gera eitthvað í þessu til að bæta lífsgæði og heilsu.

Læknir sem framkvæmir svefnrannsókn metur þörfina og bendir viðkomandi á ýmist svokallaða CPAP-vél eða kæfisvefnsgóm sem tannlæknar útbúa, en allt fer eftir rót vandans og þörf á meðferð.

Gómarnir eru gerðir fyrir hvern og einn eftir að munnur og tennur hafa verið þrívíddarskannaðar. Gómurinn heldur neðri kjálka í ákveðinni stöðu og hindrar tunguna frá því að falla aftur á við og loka fyrir öndunarveg. Þannig kemur hann í veg fyrir að mjúkvefirnir, tungu- og hálsvöðvar, hindri loftflæði meðan á svefni stendur.

Ég vona að þetta komi til með að hjálpa og stoppi þig ekki í að hitta manninn aftur ef þú hefur áhuga á honum.

Kveðja, 

Brynja Björk Harðardóttir tannlæknir.

til baka