Leikarinn Pedro Pascal sem á rætur sínar að rekja til Síle flutti með foreldrum sínum ungur að aldri til Bandaríkjanna, en á þeim tíma voru þau flóttafólk í leit að betra lífi. Fjölskyldan var náin, en móðir hans lærði barnasálfræði og faðir hans starfaði sem frjósemislæknir. Pascal bjó í Orange County þaðan sem hann á ekki góðar minningar, en flutti til New York-borgar til að leggja stund á leiklist í NYU.
Líf leikarans hefur svo sannarlega ekki verið dans á rósum, en hann var einungis 24 ára þegar hann missti móður sína.
Saga Pascal er einstök, og hefur gert hann mjög auðmjúkan gagnvart frægð sinni í dag, en hann vann á veitingahúsum í New York meðfram því að reyna að fá hlutverk í kvikmyndum. Þó hann hafi alltaf verið mikill sælkeri, þá átti sú vinna ekki vel við hann.
Nágrannar og veitingahúsaeigendur gáfu Pascal mat
Margoft kom upp sú staða að Pascal ætlaði að leggja draum sinn um að vera leikari á hilluna, en þá stigu vinir hans og fjölskylda inn í og stoppuðu hann af. Hann var svo fátækur um tíma að nágrannar og veitingahúsaeigendur gáfu honum mat og hjálpuðu honum að hugsa um hundinn hans Gettu.
Í viðtölum við leikarann þegar mat ber á góma kemur fram að hann veit fátt betra en mexíkóskan mat og svo virðist hann sérstaklega hrifinn af Alfajores-smákökunum frá Suður-Ameríku.
Alfajores-smákökurnar að verða vinsælar víða
Saga Pascal er einstök og hefur frægðarstjarna hans risið hátt og hratt eftir hlutverk hans í þáttaröðunum Narcos, The Mandalorian og The Last of Us.
Alfajores-smákökurnar hafa einnig verið að ryðja sér til rúms. Hver veit nema að þær slái í gegn núna sem uppáhaldskökurnar hans Pascal?
Alfajores-smákökur
- 2/3 bolli smjör
- 3/4 bolli sykur
- 3 eggjarauður
- 1 tsk. vanilludropar
- 1/4 bolli mjólk
- 1 eggjahvíta
- Rasp af einni lime
- 2 1/4 bolli maísmjöl
- 1 2/3 bolli hveiti
Aðferð:
- Forhitið ofn í 180 gráður.
- Þeytið saman sykur og smjör.
- Haldið áfram að þeyta og bætið við eggjarauðum, vanilludropum, mjólk, lime-raspi og að lokum eggjahvítunni.
- Nú má þeyta að lokum í eina mínútu þar til allt hráefnið er komið saman.
- Blandið þurrefnum saman við með sleikju þar til innihaldsefni verða að deigi.
- Leyfið deiginu að hvílast í skálinni í allt að 30 mínútur.
- Fletjið deigið út á hveitiborið yfirborð í um það bil 2 mm þykkt.
- Notið hringlaga form til að skera út kökurnar og setjið á bökunarplötu.
- Bakið kökurnar í allt að 10 mínútur í ofni á blæstri á 180 gráðum. Bökunartími fer eftir stærð á kökunum. Þær eiga að vera ljósar, en ekki gylltar úr ofninum.
- Leyfið kökunum að kólna áður en þið smyrjið þær með Dulche de Leche og gerið úr þeim litlar hringlaga samlokur.
- Dulche de Leche er hægt að gera heima eða kaupa tilbúið úr búð.
- Frjálst er að setja kókosflögur á hliðar hverrar Alfajores-smáköku.