Kristín Eva Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri hönnunarstofunnar Gagarín, er mikill sælkeri sem lumar á sérstaklega góðri uppskrift að hægeldaðri lamaskankakássu með perlubyggi, en hún rekur stórt heimili á Kársnesinu í Kópavoginum. Hún og sambýlismaður hennar Þórólfur Heiðar Þorsteinsson, aðstoðarmaður dómsmálaráðherra, eiga fjögur börn og tvær tengdadætur. „Því eldum við gjarnan mat í stórum stíl sem hægt er að borða í fleiri en einni máltíð.“
Uppskriftina að lambaskönkunum fékk Kristín að láni frá Andra Eyjólfssyni sem eldaði um tíma hádegisverð fyrir starfsfólk Gagarín. „Andri sá mjög vel um okkur í Gagarín þar sem alltaf er nóg að gera en undanfarið ár höfum við verið að hanna og framleiða sýningaratriði fyrir heimssýninguna í Japan sem opnaði 13. apríl í Osaka, Japan,“ segir Kristín og bætir við að sýningin muni standa yfir í sex mánuði og að búist sé við að rúmlega 28 milljónir manna muni heimsækja skálann.
Settu saman uppskriftarbók sem þau gáfu viðskiptavinum
„Þegar fyrirtækið var staðsett í Brúarvoginum þá rákum við eldhús ásamt fleiri fyrirtækjum en þá kom Andri Eyjólfsson og útbjó dýrindis hádegisverð handa okkur daglega. Það má segja að það hafi verið hápunktur sérhvers dags að setjast niður og borða hjá Andra því maturinn var ekki bara góður, heldur lagði hann einnig mikið upp úr fallegum diskum og góðu hráefni. Þetta var svo mikill innblástur að eitt árið settum við saman uppskriftabók og gáfum viðskiptavinum í jólagjöf,“ segir Kristín Eva sem fékk leyfi til að deila uppskriftinni frá Andra með lesendum Matarvefs mbl.is.
„Ég mæli með því að allir prófi að elda lambaskankakássuna, því hún stendur svo vel með manni og er holl og góð, en hér er á ferðinni gómsæt kássa sem er einhvers konar útfærsla á gömlu góðu íslensku kjötsúpunni. Eldamennskan tekur sinn tíma en er þó ekki ýkja flókin. Auðvitað má svo skipta út froðunni fyrir til dæmis þeyttan rjóma og alfarið sleppa hvönninni og skessujurtinni. Gott er að leyfa soðinu að sjóða sem lengst niður. Lokaáferðin á að vera nokkuð þykk eins og kássa sem gefur einnig mikið og djúpt bragð. Rétturinn hentar fyrir fjóra til sex einstaklinga,“ segir Kristín Eva.
Hægelduð lambaskankakássa með perlubyggi og gulrótum, súrsuðum hvannarfræjum, súrmjólkurfroðu og skessujurtardufti
Soð:
- 3-4 l vatn
- 1 laukur
- 2 sellerístönglar
- 1 box þurrkaðir villisveppir
- 1-2 sveppakraftar
- 1 handfylli súpujurtir
- 2 lárviðarlauf
- 1 anísstjarna
- 1 tsk heill rósapipar
- 1 lítil rönd sítrónubörkur
- 1 msk ferskt eða þurrkað timían
- 1 msk dökkt miso
- smávegis af hrossaþara (má sleppa)
Lambaskankar:
- 4 stk lambaskankar
Aðferð:
- Brúnið lambaskankana vel á heitri pönnu.
- Setjið lambaskankana ofan í soðið og sjóðið niður hægt í um þrjár til fjórar klukkustundir.
- Þá eru skankarnir teknir frá og kjötið tekið af beinum og rifið niður í smærri bita.
- Því næst er allt sigtað frá soðinu og soðið látið sjóða lengra niður í um þrjár klukkustundir.
Kássa:
- 1 stór blaðlaukur
- salt og pipar
- skvetta af rauðvíni
- 1-2 tómatpúrrur
- 250 gr gulrætur
- 150 gr perlubygg
Aðferð:
- Steikið blaðlaukinn og setjið salt og svartan pipar á hann.
- Gott er að henda skvettu af rauðvíni út á og sjóða niður.
- 1-2 tómatpúrrum bætt í mixið, hrært saman og bætt út í soðið. Þetta allt gefur soðinu aukna dýpt.
- 250 gr gulrætur afhýddar og skornar í munnbita. Leyfa þeim að sjóða vel í soðinu, því þær gefa því sætt og gott bragð.
- Perlubyggið sem legið hefur í bleyti yfir nótt, er blandað rólega við soðið í um 40 - 50 mínútur, en það gerir kássuna matarmeiri um leið og hún þykkir.
- Hér má svo bæta út í vatni eða jafnvel meira rauðvíni ef þarf, salta og pipra eftir smekk og almennt smakka til kássuna.
Súrsuð hvannarfræ:
- Hvannafræ
- vatn
- sykur
- hvítvínsedik
- salt
Aðferð:
- Hvannarfræ er best að tína að vori til eða snemma á sumrin.
- Þau eru súrsuð í einum hluta af vatni á móti einum hluta hvítvínsediki og einum hluta sykurs.
- Út í þetta má setja smávegis af salti.
Súrmjólkurfroða:
- 25 gr mysa
- 1 tsk sykur
- 1 matarlímsblað
- 50 gr súrmjólk
- 50 ml rjómi
Aðferð:
- 25 gr mysa og 1 tsk sykur soðin með 1 matarlímsblaði.
- 50 gr súrmjólk og 50 ml rjóma bætt út í.
- Blöndunni leyft að kólna niður og sett í rjómasprautu með 1-2 rjómasprautuhylkjum.
Skessujurtarduft:
- Skessujurtarblöð
Aðferð:
- Skessujurtarblöð eru týnd að sumri til.
- Þau eru þurrkuð hægt á stofuhita eða á 50° inni í ofni í um 12 klukkustundir og duftuð.
- Duftið sett í tesíu og sáldrað ofan á.