fös. 11. júlí 2025 06:00
Einar Hugi Bjarnason lögmaður á Lögfræðistofu Reykjavíkur svarar spurningum lesenda Smartlands.
Íbúð og bíll: Fær eiginkonan allt?

Ein­ar Hugi Bjarna­son lögmaður á Lög­fræðistofu Reykja­vík­ur svar­ar spurn­ing­um les­enda Smart­lands. Hér fær hann spurn­ingu frá manni sem spyr hvort eiginkonan myndi erfa íbúð og bíl eða barnið hans.

Góðan daginn hvernig er það með hjón, þegar annar aðilinn er skráður fyrir íbúð og hinn bílum, og ef sá sem er skráður fyrir íbúð deyr erfir þá eiginkonan allt eða barn hans? Eru gift en eiga ekki saman börn.

Góðan dag,

Hjúskaparlög gilda um hjúskap tveggja einstaklinga. Meginreglan er sú að eign maka verður hjúskapareign nema sérstakar heimildir standi til annars svo sem ef hjón semja um að eign verði séreign með kaupmála, eða arfleiðandi eða sá sem gefur maka tiltekna eign kveði á um að arfur sé séreign arftaka. Skráning eigna hjóna ræður því ekki úrslitum meðan á hjúskap stendur en getur haft þýðingu komi til skilnaðar.

Maki og börn hins látna eða afkomendur þeirra eru skylduerfingjar samkvæmt erfðalögum. Ef engin erfðaskrá er til staðar þá er hjúskapareignum skipt til helminga og maki hins látna heldur eftir öðrum helmingnum. Maki erfir svo 1/3 hluta af hinum helmingnum en 2/3 hluta erfa börn að jöfnu.

Þess ber þó að geta að eftirlifandi maki getur óskað eftir að fá leyfi til setu í óskiptu búi. Ef fyrir liggur erfðaskrá um að eftirlifandi maki eigi rétt til setu í óskiptu búi þarf hann ekki að fá samþykki frá öðrum erfingjum til að nýta sér þann rétt. Ef ekki liggur fyrir erfðaskrá þar sem mælt er fyrir um slíkan rétt þart þú að fá samþykki frá þeim sem eru eingönöngu erfingjar hins látna fyrir leyfi til setu í óskiptu búi, enda eigið þið ekki eingöngu sameiginlega erfingja.

Bkv. Einar Hugi Bjarnason hæstaréttarlögmaður

Ligg­ur þér eitt­hvað á hjarta? Þú get­ur sent Ein­ari Huga og öðrum lög­mönn­um á Lög­fræðistofu Reykja­vík­ur spurn­ingu HÉR.

til baka