fös. 4. júlí 2025 20:12
Vinir fara oft saman til útlanda og hafa mismunandi dýran smekk.
Hefur ekki efni á ferðalagi með vinunum

Fjármál geta verið alger ormagryfja flókinna tilfinninga og fólki finnst miserfitt að ræða sína hagi, jafnvel með sínum nánustu. 

Einn deildi reynslu sinni á vef miðlinum The Stylist en hann lýsir því hversu erfitt það er fyrir hann að segja vinum sínum frá því að hann hafi ekki efni á ferðalagi sem vinahópurinn ætli sér í. 

Ég fer í frí með vinum mínum á hverju ári. Síðustu ár hef ég þó verið beggja blands með þetta, því mér finnst þetta ekki alveg peninganna virði. Þetta kostar mig töluverðar fjárhæðir. Ég er einhleyp en vinir mínir eru með maka og geta því deilt útgjöldum með þeim. Ég vil hins vegar ekki rugga bátnum með því að kvarta og finnst óþægilegt að útskýra þetta fyrir þeim.

- ein fertug í ekki-ferðahug

Svör ráðgjafanna:

„Það er eðlilegt að kvíða fyrir því að ræða fjármál. Frá unga aldri höfum við tileinkað okkur það viðhorf að virði okkar sé fólgið í fjármagni. Við lærum að það að segjast ekki hafa efni á einhverju þýði að við njótum engrar velgengni í lífinu. Okkur stafar því viss ógn af því að ræða þessi mál og maður vill ekki berskjalda sig.“

„Þú hefur verið að spila með til að halda friðinn og vilt ekki vera manneskjan sem eyðileggur fyrirætlanir hinna. Þetta er ákveðin meðvirkni og á meðan þú telur þig vera að leika góðan vin þá ertu að gera sjálfri þér óleik. Þegar við erum of meðvirk þá magnast upp vanlíðan innra með okkur.“

„Veldu þér einn vin í hópnum sem stendur þér næst og ræddu málin á jafningjagrundvelli. Í stað þess að segja „ég hef ekki efni á þessu“ segðu þá að þú sért að forgangsraða fjármálunum upp á nýtt og viljir t.d. fara í styttri ferð eða á ódýrari stað, jafnvel innanlands.“

„Þögnin er verst. Reyndu að aftengjast þeirri mýtu að það að hafa minna á milli handanna geri mann minna verðan. Þú ert ekki nísk eða leiðinleg vinkona heldur ertu bara hreinskilin með þín mörk. Ekki skammast þín fyrir neitt.“

 

til baka