Eymundur Sveinn Einarsson endurskoðandi hjá Endurskoðun & ráðgjöf svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hann spurningu frá manni sem neyddist til að leigja út íbúðina sína því hann var í peningavandræðum. Nú óttast hann að skatturinn taki í lurginn á honum.
Komdu sæll
Ég er með Airbnb og lenti í miklum hremmingum í einkalífinu og varð hreinlega að verða mér út um peninga. Það sem ég gerði var að leigja út íbúðina í Airbnb fyrir 7 milljónir eitt árið og 6 það næsta. Kannski ekki það gáfulegasta en nauðsynlegt á þeim tíma. Nú bíð ég bara eftir að skatturinn taki í lurginn á mér. Við hverju má ég búast?
Kveðja,
J
Sæll kappi,
Ekki gott mál en ég vona að þessar aukatekjur hafi náð að hjálpa þér en því miður ef þetta er ekki rétt fram talið til skatts þá er þetta eins og að pissa svakalega í skóna sína og allt um kring. Án þess að ég setji mig í hlutverk kvíðameðferðarsérfræðings þá er ekki heppilegt að bæta áhyggjum af skatta- og peningamálum ofaná hremmingar í einkalífinu, sérstaklega í ljósi þess hversu meðvitaður þú ert um það að þetta séu óframtaldar tekjur.
Nú ætlar skatturinn í sjálfum sér ekkert að taka í lurginn á þér en menn verða víst að fara að lögum og skila sköttum af tekjum sínum hvernig svo sem aðstæður eru uppi við öflun þeirra. Mjög grófir útreikningar benda til að af þessum 13 milljónum myndu tvær fyrstu milljónirnar falla undir heimagistingu sem bera 22% skatt eða um 440 þúsund krónur. Af hinum 11 milljónunum myndi uþb 1 milljón reiknast í virðisaukaskatt og síðan væri afkoman skattlögð í venjulegum atvinnurekstrarskatti sem er á bilinu 37- 46%, þar að auki reiknast tryggingagjald af reiknuðu endurgjaldi sem er 6.35% og síðan lögbundið framlag til lífeyrissjóða sem er 15.5%.
Mjög grófir útreikningar myndu því enda í:
- Fjármagnstekjuskattur 440 þúsund
- Tryggingagjald 400 þúsund
- Lífeyrissjóður um 900 þúsund
- Virðisaukaskattur 1 milljón.
- Tekjuskattur og útsvar um 2.8 milljónir
Samtals skattar og önnur gjöld samtals um 5.5 milljónir til greiðslu. Ofan á þetta myndu bætast 25% álag og síðan dráttarvextir frá gjalddaga.
Þessar 5.5 milljónir sem ég reiknaði mjög gróflega út eru einfaldlega þau gjöld sem menn eru almennt að skila af slíkum tekjum og ekkert óeðlilegt við það. Í þínu tilfelli myndi bætast við 25% „refsiálag“ fyrir það að telja þetta ekki fram auk þess sem dráttarvextir myndu reiknast á þetta allt og verður bara stærri og stærri bolti eftir því sem lengra líður.
Ég ráðlegg þér því að gera hreint fyrir þínum dyrum og þú ert í dauðafæri að losna við 25% álagið af seinna árinu þar sem kærufrestur vegna 2024 er ekki útrunninn. Auk þess er rétt að benda þér á ákvæði 108. gr. laga um tekjuskatt þar sem Skatturinn getur mögulega fellt niður 25% álagið af fyrra ári ef skattaðila (þér) verði eigi kennt um þá annmarka sem voru á framtalinu (tekjur ekki taldar fram). Ég er þá að vísa í umræddar hremmingar í einkalífinu en þess ber að geta að þetta undanþáguákvæði er túlkað mjög þröngt.
Eftir að réttum skattframtölum hefur verið skilað inn og þau afgreidd mun rétt greiðslustaða liggja fyrir. Mín reynsla er að Skatturinn hefur sýnt verulegan samningsvilja við greiðsludreifingar á gjaldföllnum sköttum og efast ég ekki um að um slíkt verði að ræða í þínu tilviki.
Gangi þér allt í haginn.
Kveðja,
Eymundur Sveinn Einarsson, endurskoðandi.
Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Eymundi spurningu HÉR.