Matreiðslukonunni Helgu Gabríelu Sigurðardóttur er margt til lista lagt, en áhugi hennar á matargerð og því að búa til ljúffengan og góðan mat, nær langt aftur, og tengir hún áhugann við móður sína.
„Ég er matreiðslukona, eiginkona og þriggja barna móðir. Þú finnur mig oft í eldhúsinu hjá Brauð & Co, þar sem ég sé um veisluþjónustuna. En það er ekki allt, ég er líka að vinna að því að byggja upp Biofit.is með frábærum vinum. Við sérhæfum okkur í hágæða fæðubótarefnum og hreinum snyrtivörum, svo að eitthvað sé nefnt.“
Hefurðu alltaf haft áhuga á heilsu og matargerð?
„Heilsan hefur alltaf verið mér mjög mikilvæg og það byrjaði eiginlega þegar ég var ung og lærði að elda með mömmu, sem er algjör gúrmeikokkur. Hún var alltaf að kenna mér um heilsu og næringu, og ég held að ég hafi smitast af henni. Ég hef líka alltaf verið mikill íþróttaálfur og elska að hreyfa mig! Þegar ég varð móðir magnaðist ástríðan enn frekar, og vil ég vera góð fyrirmynd fyrir börnin mín og kenna þeim góða og heilnæma siði.“
Hverjar eru þínar áherslur í mataræði?
„Við fjölskyldan elskum prótein, ásamt árstíðarbundnu grænmeti og ávöxtum. Við verslum oft beint frá bóndum; lífrænan kjúkling, svínakjöt og grasfóðrað nautakjöt, sem er alltaf í uppáhaldi. Og þegar ég elda fisk, þá er ekkert betra en glænýr þorskur með nýjum kartöflum og smjöri.“
Hver er þinn uppáhaldsmatur?
„Uppáhalds maturinn minn? Það er ekki flókið, mér finnst góð nautasteik vera hreinn unaður sem gerir mig alltaf hamingjusama!“
Hvernig setur þú upp rútínuna þína á haustin?
„Þegar haustið kemur, hugsa ég eins og alltaf um heilsuna, bæði líkamlega og andlega. Næringarrík fæða, sérstaklega D-vítamín, er lykillinn að góðri heilsu. Ég drekk heimagert beinaseyði, sem er næringabomba. Það inniheldur kollagen, sem gefur mér ljómandi húð, og glútamín til að styðja við meltinguna. Einnig er það ríkt af próteini, sem hjálpar mér að lyfta meira. Engiferte er líka í uppáhaldi, það styrkir ónæmiskerfið. Og svo er Tallow Face kremið okkar frá Ulyana, sem fæst á Biofit, algjörlega ómissandi, lúxus næring fyrir húðina, og er alveg náttúrulegt.
Rútínan mín breytist svo sem ekki, hvort sem það er sumar eða haust, ég elska að byrja alla daga á lyftingum og fer kannski aðeins meira í saunu til að hressa mig við. Gæðastundir með fjölskyldu og vinum eru mér ofarlega í huga, sérstaklega þegar við eldum eitthvað gómsætt saman, eins og hægeldaða lambaskanka. Ég er líka orðinn snillingur í að elda ljúffenga kjötsúpu, sem er ómissandi á haustin,“ segir Helga.
Ertu með einhver heilsuráð, fyrir upptekið skólafólk?
„Fyrir skólafólk mæli ég með að vakna snemma, koma hreyfingu inn og byrja daginn á próteinríkum morgunverði. Það setur tóninn fyrir daginn og hjálpar til við að viðhalda rútínu og skipulagi.“
Geturðu mælt með einhverjum vítamínum eða bætiefnum yfir vetrartímann?
„Ég mæli eindregið með D3-vítamíni ásamt K2-vítamíni yfir vetrartímann, K2 tryggir að kalkið fari í beinin, en ekki í æðarnar, sem er mjög mikilvægt. Magnesíum er einnig mikilvægt, þar sem það hjálpar D3-vítamíninu að virkjast. Það getur verið snjallt að bæta bæði K2-vítamíni og magnesíum við fæðubótarefnin þín. Dropi er líka ómissandi, ásamt kreatíni og Beef Liver, sem virkar sem náttúrulegt fjölvítamín. Hrá mjólk, heimagerður mjólkurkefír og kimchi eru líka frábær bætiefni.“
Hvað er heilsa fyrir þér?
„Heilsa fyrir mér snýst um jafnvægi, að hlusta á líkamann og gefa honum það sem hann þarfnast, bæði í næringu og hreyfingu.“
Hvað myndirðu ráðleggja fólki að gera, sem vill taka skref í átt að betri heilsu?
„Ekki ofhugsa! Fókusa á próteinríkan morgunmat og þrjátíu mínútna hreyfingu á hverjum degi. Vökvaðu þig með steinefnum og söltum. Borðaðu þrjátíu til fimmtíu grömm af próteini í hverri máltíð. Og ekki gleyma átta klukkustunda svefni! Þetta byrjar allt með réttu hugarfari, svo er bara að framkvæma,“ segir hún.
Uppáhaldspróteinboost Helgu Gabríelu
- 4 matskeiðar Dense vanillu beef protein frá Biofit
- 180 grömm hreint skyr
- 1 skeið kreatín frá Biofit
- 1/2 bolli frosið mangó
- 1 skeið kollagen duft
- 200 millilítrar vatn
Aðferð:
- Settu allt í blandara og blandaðu þar til silkimjúkt.
- Helltu blöndunni í glas og njóttu!
Geggjaður döðlubörkur
Grunnurinn eru mjúkar medjool döðlur sem eru toppaðar með hnetusmjör, söxuðum hnetum og bráðnu súkkulaði. Þetta bragðast eins og snickers-súkkulaðistykki, algjör snilld.
Leggðu bökunarpappír í form.
Leggðu steinlausu döðlurnar flatar á bökunarpappírinn og pressaðu þær niður með glasi.
Dreifðu mjúku lífrænu hnetusmjöri yfir hverja döðlu og stráðu söxuðum hnetum yfir.
Bræddu dökkt súkkulaði yfir vatnsbaði með örlítið af kókosolíu. Dreifðu súkkulaðinu yfir döðlurnar og sáldraðu smá sjávarsalti yfir.
Settu döðlubörkinn í ísskápinn í að minnsta kosti klukkustund eða þar til súkkulaðið hefur stífnað.
Þegar súkkulaðið er stífnað, brjóttu það í bita og njóttu! Geymist vel í frysti.