fös. 11. júlí 2025 10:00
Kristjana G. Kristjánsson er búsett í Hlíðunum ásamt fjögurra ára syni sínum. Hún starfar við breytingastjórnun hjá hugbúnaðarfyrirtækinu BlueCat.
„Það tók mig tíma að aðlag­ast Íslandi“

Það er alltaf gaman að heyra í áhugaverðu og skemmtilegu fólki. Viðmælandi Smartlands að þessu sinni er Kristjana G. Kristjánsson sem er fædd og uppalin í Bandaríkjunum, nánar tiltekið í Orlando, Flórída. Í dag er hún búsett í Hlíðunum ásamt fjögurra ára syni sínum. Kristjana ætlar að segja frá lífi sínu í fimm ilmum.

Cartier So Pretty

„Fyrsti ilmurinn heitir Cartier So Pretty og einkennir háskólatímabilið í University of Florida – „Go Gators“! Ég fékk tækifæri að fara í skiptinám nokkrum sinnum, tók mikinn þátt í skólalífinu og var hluti af UF Cicerones, sem eru opinberir nemendasendiherrar háskólans í Flórída. Við tókum á móti gestum, leiddum ferðir og kynntum skólann fyrir framtíðarnemendum, skólafélögum og samstarfsaðilum.“

 

 

 

Chanel Chance

Eftir útskrift flutti Kristjana til Washington D.C. þar sem hún starfaði um tíma, áður en hún ákvað að flytja til Íslands.

„Ilmvatn núm er tvö er Chanel Chance. Eftir að ég flutti til Íslands rétt fyrir hrun, þá rúmlega tvítug, upplifði ég krefjandi og lærdómsríkt tímabil. Það tók mig tíma að aðlagast Íslandi. Ég keypti mína fyrstu íbúð, eignaðist góða vini og fór að koma mér almennilega fyrir hér heima.“

Á þessu tímabili, 2009-2010, hóf Kristjana meistarnám í fjármálahagfræði og starfaði í nokkur ár við fjölbreytt verkefni tengd náminu eftir útskrift.

 

 

 

Creed Millesime Imperial

Hún starfaði einnig sem flugfreyja í nokkur ár og kemur þá að þriðja ilminum Creed Millesime Imperial – sem hún tengir við „flugfreyjutímabilið“.

„Þetta var einstaklega skemmtilegt og eftirminnilegt tímabil. Ég ferðaðist mikið, keypti íbúð í Hlíðunum og naut þess að sjá heiminn. Ég fór meðal annars í „yoga retreat“ í Taílandi, „semi mid-life crisis“, og ævintýraferð með góðri vinkonu sem ég kynntist í fluginu. Systir mín var einnig að fljúga á þessum tíma, þannig við vorum oft á ferðalögum saman. Tími fullur af tónleikum og upplifun og bara gaman.“

 

 

 

Byredo Rose Noir

„Fjórða tímabilið einkennist af ilminum Byredo Rose Noir, en það er kóvid-tímabilið og fæðingarorlofið, mjög krefjandi en mótandi tími. Ég missti vinnuna, þar sem lítið var um flug á þessum tíma, en ákvað að nýta tækifærið og skrá mig í annað meistaranám í upplýsingastjórnun við Háskólann í Reykjavík. Ég var mikið úti að hlaupa og leita leiða til að hreyfa mig vegna samkomutakmarkana og fór að stunda hugleiðslu. Á þessum tíma var ég einnig ólétt. Þetta var mjög dýrmætur tími. Það var yndislegt að kynnast litla drengnum mínum og finna mig í nýja hlutverkinu sem móðir.“

Nokkrum árum síðar, eftir að hafa lokið fæðingarorlofi og meistaraprófi í upplýsingastjórnun frá Háskólanum í Reykjavík, hóf Kristjana störf hjá hugbúnaðarfyrirtækinu Men & Mice (BlueCat), sem leiðir að fimmta og síðasta ilminum – þeir eru reyndar tveir – í upptalningunni.

 

 

 

Le Labo Another 13 og Matcha 26

„Le Labo Another 13 og Matcha 26. Þetta tímabil heitir: „Vinnandi mamma“. Eftir fæðingarorlof hóf ég störf hjá Men & Mice, sem heitir nú BlueCat. Áður starfaði ég sem upplýsingastjóri hjá fyrirtækinu en í dag snýr hlutverkið mitt meira að umbreytingum á ferlum, tækniumhverfi og samhæfingu eftir yfirtökur. Starfið er mjög skemmtilegt og ekki slæmt að vinnan er nálægt heimilinu. Ég næ hreyfingunni núna með því að hlaupa eftir syni mínum þegar hann hjólar en hann hjólar mjög mikið og mjög hratt! Þetta tímabil hefur verið það skemmtilegasta hingað til og lífið í góðu jafnvægi.“

 

 

 

Kristjana stenst þó ekki mátið að nefna sjötta ilminn, eiginlega þann sjöunda, drauma- og framtíðarilmvatnið Creed Aventus for Her.

 






til baka