„Oreo Crumble Cookies“ eru algjör draumur fyrir alla sem elska súkkulaði og Oreo. Þessar kökur eru djúsí og þéttar að innan með stökkum kexbitum sem gefa þeim bæði áferð og einstakt bragð. Smá kakó í deiginu dýpkar súkkulaðibragðið og minnir á brownies, á meðan hvíta súkkulaðið og Oreo-mulningurinn bæta við rjómakenndum keim og krispíbitum.
„Þær eru hannaðar með það í huga að líta út og bragðast eins og konfekt, með amerískri smákökuáferð sem bráðnar í munni. Hvort sem þú bakar þær í veislu, fyrir krakkana, ferðalagið eða bara þegar þig langar í eitthvað virkilega dekrað, þá eru þessar kökur alveg málið,“ segir Árni Þorvarðarson, bakarameistari og fagstjóri við Hótel- og matvælaskólann, sem á heiðurinn að uppskriftinni.
Oreo Crumble Cookies eru tilvaldar þegar þú vilt sameina klassískt barnakex með smáköku sem fullorðnir elska alveg jafn mikið. Þessar eru syndsamlega góðar með mjólkurglasi, kaffibolla eða einfaldlega beint af plötunni. Þá eru þessar kökur eitthvað sem þú munt vilja baka aftur og aftur.
„Oreo Crumble Cookies“
U.þ.b. 12 stórar cookies
- 115 g púðursykur
- 150 g sykur
- 160 g smjör (við stofuhita)
- 2 egg
- 2 tsk. vanilludropar
- 280 g hveiti
- 30 g kakó
- 1 tsk. lyftiduft
- ½ tsk. matarsódi
- ½ tsk. salt
- 12–14 Oreo-kex (gróft mulin, ca. 150 g)
- 100 g hvítt súkkulaði eða súkkulaðidropar (valkvætt)
Crumble (ofan á eða inn í deig)
- 6 Oreo-kex (fínt mulin)
- 1 msk. smjör (bráðið)
- 1 msk. púðursykur
- Blandað saman í skál, stráð ofan á fyrir stökkari yfirborð.
Aðferð:
- Hitið ofn í 180°C (blástur) og leggið bökunarpappír á plötu.
- Þeytið smjör, sykur og púðursykur saman þar til létt og ljóst.
- Bætið eggjum og vanillu saman við og hrærið vel.
- Blandið hveiti, kakói, lyftidufti, matarsóda og salti saman í aðra skál og bætið í deigið smátt og smátt.
- Blandið gróft muldum Oreo-kexbitum saman við og (ef notað) súkkulaði.
- Mótið stórar kúlur (ca. 80–90 g hver), þrýstið létt niður og stráið crumble-blöndunni ofan á.
- Bakið í 11–13 mínútur, eða þar til þær bungast aðeins upp og sprungur myndast.
- Látið kólna í 10 mínútur áður en þær eru færðar á grind.
Oreo-rjómaostakrem (valfrjálst til að sprauta ofan á)
- 100 g rjómaostur (kaldur)
- 50 g smjör (við stofuhita)
- 200 g flórsykur
- 1 tsk. vanilludropar
- 6 Oreo-kex (mulin mjög smátt)
Aðferð:
- Þeytið ost og smjör slétt, bætið vanillu og flórsykri út í og loks Oreo-mulningi.
- Sprautið fallegum toppum með stút.
- Kælið.