Kolbrún Sif Hafsteinsdóttir bjó í Ástralíu í hálft ár. Hún ferðaðist víða um landið og naut sín vel. Hún starfaði sem au pair hjá ástralskri fjölskyldu sem var einstök upplifun að sögn Kolbrúnar.
Hvers vegna ákvaðst þú að fara til Ástralíu?
„Mér hefur alltaf fundist Ástralía spennandi land. Ég kynntist ástralskri stelpu þegar ég var að ferðast um Asíu á síðasta ári og hún sannfærði mig um að fara þangað,“ segir Kolbrún.
Kolbrún flaug til Sydney og hóf ferðina þar. Hún ferðaðist þaðan um allt Queensland. Hún ferðaðist til Byron Bay, Brisbane, Noosa, Fraser Island og The Whitsundays. „Ég flaug síðan til Melbourne og eyddi nokkrum dögum þar.“
Ferðaðist um landið í húsbíl
Kolbrún ákvað ásamt tveimur vinkonum sínum að ferðast um landið í húsbíl. Þær keyrðu vinsælan hring sem kallast The Great Ocean Road.
Erfitt að fá atvinnuleyfi
Kolbrúnu langaði hins vegar mikið til að finna sér vinnu og var hún með sjálfboðaliðastarf í huga. Að sögn Kolbrúnar er mjög erfitt að fá atvinnuleyfi í Ástralíu. Hún hafði þá hugsað sér að sækja um vinnu á farfuglaheimili en þar er hægt að gista frítt gegn smá vinnu. „Ég var búin að sækja um á mörgum farfuglaheimilum en fékk engin svör.“
Síðan frétti Kolbrún af þeim möguleika að gerast au pair. Hún gerðist því meðlimur á Facebook-síðu og fann fljótt fjölskyldu. „Þetta gerðist allt mjög hratt og ég var flutt inn til þeirra fimm dögum síðar,“ segir Kolbrún.
Fjölskyldan bjó í litlum strandbæ fyrir utan Sydney sem heitir Stanwell Park. Bærinn er að sögn Kolbrúnar afar huggulegur smábær. Kolbrún passaði börn fjölskyldunnar og eyddi miklum tíma á ströndinni.
„Kom mér á óvart hvað allir eru vinalegir“
Hvað kom þér mest á óvart?
„Það kom mér á óvart hvað allir eru vinalegir. Ég fékk bara smá sjokk þegar ég fór út í búð og afgreiðslukonan fór að spyrja mig hvernig ég hefði það og hvað ég væri að fara að gera í dag. Það er mjög mikil spjallmenning og ég lenti nánast á hverjum degi í því að lenda í stuttu spjalli við ókunnuga, hvort sem það var úti í búð eða á ströndinni.“
Það kom Kolbrúnu einnig mjög á óvart hvað margir voru berfættir. Fólk gekk um berfætt í matvörubúðum og í strætó.
Hvaða staðir stóðu upp úr?
„Það er erfitt að velja á milli en ég myndi segja að Fraser Island stóð mest upp úr á austurströndinni. Þar fór ég í þriggja daga hópferð þar sem við gistum í tjaldi í skógi þar sem var ekkert netsamband. Okkur var skipt í nokkra hópa þar sem hver hópur fékk einn jeppa sem við skiptumst á að keyra um alla eyjuna. Þar sem það var ekkert netsamband urðum við öll mjög náin á stuttum tíma. Þar fékk ég líka að fara í útsýnisflug í lítilli flugvél sem var geðveikt!“
Hvað er eftirminnilegast?
„Þó svo að flest allt hafi gengið mjög vel þá lenti ég líka í ýmsum uppákomum sem eru mjög eftirminnilegar. Sem dæmi lenti ég í því að missa af innanlandsflugi þegar ég var í mjög afskekktum bæ sem heitir Airlie Beach. Ég hafði farið á vitlausan flugvöll sem var um klukkutíma frá rétta flugvellinum. Ég þurfti að kaupa nýtt flug næsta dag þar sem þetta var eina flug dagsins frá þessum bæ,“ segir Kolbrún.
Kolbrúnu fannst einnig mjög eftirminnilegt hvað fólkið var vingjarnlegt og hvað hún var fljót að eignast góða vini. „Ég var til dæmis nýflutt til au pair fjölskyldunnar minnar þegar ég kynntist stelpu sem bjó í sama bæ og ég. Hún bauð mér strax á tónlistarhátíð með vinahópnum sínum. Ég fór með og í dag eru þetta bestu vinir mínir.“
Fyrsta stefnumót sem endaði með óvæntum hætti
Kolbrún var viss um að hún myndi sjá fullt af skordýrum en svo var ekki. „Það fer mikið eftir því hvar þú ert í Ástralíu. Það er til dæmis miklu meira um skordýr í Queensland og fyrir utan stórborgirnar. Stundum laumuðust kakkalakkar inn til mín og svo sá ég tvisvar sinnum Huntsman-könguló. Huntsman-köngulær eru mjög stórar en þær eru ekki hættulegar. Ég var einu sinni á stefnumóti og þegar við ætluðum að setjast inn í bílinn hans beið okkar hvít Huntsman-könguló. Ég vissi ekki einu sinni að það væru til hvítar Huntsman-köngulær. Þetta var því ekki frábær endir á fyrsta stefnumóti,“ segir Kolbrún hlægjandi.
Elskar að eyða tíma á ströndinni
„Ég mæli mjög mikið með því að ferðast um austurströndina. Í Sydney mæli ég mjög mikið með að fara á strandirnar. Vinsælasta ströndin heitir Bondi Beach og er hún staðsett í Bondi-hverfinu. Ég myndi segja að Bondi-hverfið sé staður sem allir verði að skoða og það er sérstaklega gaman að koma við í Bondi Icebergs Pool. Persónulega fannst mér aðrar strandir eins og Bronte Beach og Cogee Beach mun skemmtilegri og fallegri. Þar var líka ekki jafn mikið af fólki og hægt að njóta sín betur,“ segir Kolbrún.
Langar til að búa Ástralíu í framtíðinni
Er Ástralía mjög frábrugðin Íslandi?
„Það er mjög margt ólíkt. Sem dæmi þá er lífsstíllinn í Ástralíu allt annar en á Íslandi. Ástralir eru miklu opnari en við Íslendingar. Ástralir eru mjög afslappaðir og fólk er ekki að drífa sig eins mikið og hérna heima. Ég varð líka miklu afslappaðri af því að búa þarna. Það eru líka allir mjög háðir hreyfingu og hollustu. Fólkið er líka oftast í góðu skapi en það kemur svo sem ekki á óvart þar sem þau búa í sól nánast allan ársins hring,“ segir Kolbrún.
Kolbrún getur vel hugsað sér að búa í Ástralíu og helst í nokkur ár. Kolbrún er nýflutt til Íslands og ætlar því að njóta íslenska sumarsins með vinum og fjölskyldu. Í haust stefnir Kolbrún á að fara í nám við Háskóla Íslands. „Hver veit nema að ég taki skiptinám í Ástralíu á næsta ári?“