Á Suðurlandi eru ótal spennandi gististaðir til að verja einni nóttu eða fleirum meðan á ferðalaginu stendur. Á vinsælu vefsíðunni AirBnb er auglýstur aragrúi af alls konar gistingu um allt Suðurlandið til skammtímaleigu og flestir ættu að finna gistingu við sitt hæfi.
Útsýni yfir Dyrhólaey
Í Vík er dásamlegt tveggja herbergja, einstaklega smekklegt hús til leigu. Húsið er glænýtt og er innréttað á mínimalískan hátt og rúmar fjóra gesti í tveimur svefnherbergjum. Eitt baðherbergi er í húsinu. Gestir geta notið morgunbollans með útsýni yfir Dyrhólaey áður en ferðalaginu er haldið áfram.
Sveitagisting við Hvolsvöll
Rétt við Hvolsvöll er hrá en hlýleg sveitagisting í boði. Kofinn rúmar þægilega tvo fullorðna en einnig er svefnsófi til staðar sem gæti hentað fyrir tvö börn. Gistingin er innréttuð á hráan hátt en með hlýlegum smáatriðum. Þetta hentar vel fyrir ævintýri fjögurra manna fjölskyldu á leið um landið.
Lúxusgisting í Reykholti
Fyrir þær fjölskyldur sem þrá lúxus á ferðalögum um landið þá er þessi bústaður í Reykholti kjörinn. Í honum er pláss fyrir átta gesti í fjórum svefnherbergjum og eru baðherbergin fjögur. Það er að sjálfsögðu heitur pottur, grill, stór pallur og fallegt útsýni og allar líkur á því að ná alvöru slökun.
Upplifðu þig einan í heiminum
Bústaður í Skaftárhreppi sem er fjarri flestu og þú upplifir þig aleinan í heiminum. Bústaðurinn er fyrir þá sem þurfa aðeins að komast í burtu og njóta þess að vera með fjölskyldu eða vinum. Bústaðurinn rúmar þrjá gesti. Eitt svefnherbergi er í bústaðnum en einnig er svefnsófi í stofunni. Þó gestir fái að vera í friði á staðnum þá er leikur einn að gera sér dagsferð til að heimsækja staði eins og Jökulsárlón, Vík í Mýrdal og Kirkjubæjarklaustur.
Skandinavískur lúxus rétt við Vík
Í aðeins þrjátíu mínútna akstursfjarlægð frá Vík er þessi fallegi tveggja hæða bústaður fyrir stóra fjölskyldu eða vinahóp. Þarna finnurðu fjögur svefnherbergi sem rúma allt að níu manns. Húsið er innréttað í skandinavískum sveitastíl þar sem svartir og hvítir litir eru áberandi. Gestir geta náð slökun eftir langan dag í nýlegri sánu.