lau. 12. júlí 2025 08:01
Reynisfjall er í Mýrdalnum og er sérstaklega gaman að ganga upp á það og njóta útsýnisins.
„Ég myndi leggja af stað snemma á föstudegi og fara í átt að Heklu“

Ása Steinarsdóttir hefur ferðast víða um Ísland og þekkir landið gríðarlega vel. Ása ólst upp fyrir norðan, umkringd fallegu landslagi og síbreytilegri veðráttu, en hún segir það hafa sýnt henni hvað kraftar náttúrunnar eru miklir. Ása er hamingjusömust þegar hún er utandyra, að kanna og takast á við nýjar áskoranir.

Hún er með um 1,4 milljónir fylgjenda á Instagram og 750 þúsund fylgjendur á TikTok. Það má því segja að hún hafi átt stóran þátt í því að kynna Ísland fyrir ferðamönnum sem hingað koma.

Ása rekur fyrirtækið Vanlife Iceland ásamt manninum sínum. Þau hjónin eru með húsbílaferðir í kringum Ísland, þar sem hátt í 20 húsbílar keyra saman hringinn um Ísland. Farið er í nokkrar ferðir ár hvert og hafa þær hlotið mjög góðar undirtektir.

Samfélagsmiðlar eru stór partur af lífi Ásu en í gegnum sína miðla starfar hún með ýmsum innlendum og erlendum fyrirtækjum eins og 66°Norður, BioEffect og Audi, ásamt fjölda myndavélafyrirtækja í heiminum. Hún hefur einstaka hæfileika þegar kemur að ferðaljósmyndun og því engin furða hversu margir fylgjast með henni á hverjum degi.

 

Kynnir Ísland fyrir ferðamönnum

Ása hóf feril sinn með ferðabloggi sem hún skrifaði á meðan hún ferðaðist um heiminn. Ása hafði þó alltaf tekið eftir áhuga annarra á Íslandi og sá því tækifæri í því að sérhæfa sig meira í efni um Ísland. Þegar kórónuveirufaraldurinn skall á fór Ása að beina efni sínu að ferðamönnum sem vildu heimsækja Ísland og veita þeim eins konar ferðahjálp. Efni Ásu byggist á því að kynna Ísland fyrir ferðamönnum og auglýsa landið með fallegum myndum og skemmtilegu efni.

Nýverið stofnaði Ása hugbúnað í samstarfi við íslenska hugbúnaðarfyrirtækið Rexby og vefsíðu sem er eins konar Íslandskort. Fólk getur því keypt pakka eða skoðað kortið til að finna skemmtilega og áhugaverða staði til að heimsækja meðan á dvöl þess stendur. Ása hefur tekið fjöldann allan af myndum og auðveldar hugbúnaðurinn fólki að finna upplýsingar ásamt myndum.

 

Tilvalin helgarferð í sumar

Ása hefur ferðast víða en Suðurland geymir fjölda staða sem margir missa af. Helgarferð Ásu er sambland af upplifun, hreyfingu og góðum mat enda skiptir allt þrennt miklu máli þegar kemur að ferðalögum.

„Ég myndi leggja af stað snemma á föstudegi og fara í átt að Heklu. Fyrstu stoppin væru Þjófafoss og Hjálparfoss sem eru mjög flottir fossar sem margir missa af. Síðan myndi ég labba inn gjána, sem er eins og lítið ævintýraland. Ef það er gott veður er hægt að synda við fossinn. Um kvöldið myndi ég gista á Hekla Horizons sem er glersumarbústaður með einstöku útsýni og heitum potti sem horfir yfir Heklu.“

Á laugardeginum mælir Ása með því að halda í átt að Nauthúsagili og labba upp gilið sem sé mikið ævintýri.

„Þaðan myndi ég keyra austur og stoppa við Skógafoss en í stað þess að horfa aðeins á fossinn myndi ég fara í göngu upp með ánni, fyrstu kílómetrana af Fimmvörðuhálsi. Þar er ótrúlega flott útsýni og mikilvægt að minna á að þetta svæði er ekki aðeins fyrir þá sem hyggjast ganga allan hálsinn.“

Ása myndi að göngunni lokinni stoppa á Freyju Café sem er mjög krúttlegt kaffihús í Skógum með ótrúlega gott kaffi að sögn Ásu. Eftir það væri skemmtilegt að fara í kajaksiglingu við jökulsporð Sólheimajökuls sem Ása segir vera einstaka leið til að upplifa jökulinn í næði, nálægt sprungunum og ísmyndunum.

„Á leiðinni til Víkur myndi ég stoppa við Kvernufoss, falinn foss sem maður þarf aðeins að leita að en það er þess virði. Kvöldgisting væri í litlu gistihúsi í nálægð við Vík. Ég myndi síðan borða kvöldmat á Black Crust Pizzeria sem eru án efa með bestu pizzur á Íslandi. Ég mæli með því að mæta snemma, það er alltaf röð út að dyrum.“

Á sunnudeginum myndi hún byrja daginn á Skool Beans sem er kaffihús í gömlum amerískum skólabíl og þar er mikil stemning.

„Eigandinn tekur alltaf vel á móti öllum. Svo myndi ég hitta Samma frá True Adventure og fara í svifflug yfir Víkurfjöru og Reynisfjall. Það er ein magnaðasta upplifun sem hægt er að fá á Íslandi, að svífa yfir svörtum sandi og sjá lunda fljúga með manni í sömu hæð. Eftir lendingu myndi ég ganga upp á Reynisfjall og njóta útsýnisins yfir Dyrhólaey og fjöruna. Þaðan myndi ég byrja heimleiðina með rólegri keyrslu meðfram ströndinni, með stoppum við Írárfoss, Seljalandsfoss og jafnvel stuttu stoppi í Reynisfjöru. Kvöldverðurinn á heimleið væri í Ingólfsskála, sem er veitingastaður með víkingaþemu. Þar er góð stemning og gaman að enda ferðina þar, maturinn er líka rosalega góður. Þú getur líka fengið að prófa að skjóta af boga og kasta exi, sem er alltaf skemmtilegt að prófa.“

Helgarferð Ásu Steinars er því ekki af verri endanum og tilvalið að gera eitthvað svipað í sumar!

til baka