sun. 13. júlí 2025 08:16
Gönguleiðin á milli Skóga og Þórsmerkur yfir Fimmvörðuháls er ein sú fjölfarnasta á Íslandi, enda útsýnið stórfenglegt.
Gönguleiðir sem þú þarft að prófa

Blákollur í Jósepsdal er virkilega skemmtileg gönguleið á Hellisheiðinni og er umhverfið ævintýralegt. Fjallið blasir við þegar keyrt er eftir þjóðveginum. Fjallið er um 530 metra yfir sjávarmáli og á toppi fjallsins er ægifagurt útsýni yfir hraunbreiður Hellisheiðarinnar, Hengilssvæðið, Reykjavík og Esjuna. Blákollur er þægilegt fjall og hentar því vel þeim sem vilja kanna nýjar slóðir á Hellisheiðinni. Gangan er um fimm kílómetra löng og tekur um tvær klukkustundir.

 

Þakgil er einstakt svæði í um það bil 30 mínútna fjarlægð frá Vík í Mýrdal. Í Þakgili er mikil veðursæld og er landslagið ótrúlegt og lætur engan ósnortinn. Fjöldi gönguleiða er í boði og eru þær miserfiðar. Úr Þakgili er hægt að fara þrjár skipulagðar gönguleiðir, Remundargil, Austurafréttur og Höfðabrekkuheiðar. Þær eru mislangar og miserfiðar. Austurafréttur er um 17 kílómetra löng leið og tekur um sex til átta klukkustundir. Remundargil er um 12,5 kílómetra löng gönguleið og liggur eftir gili þar sem landslagið líkist ævintýralandi. Hægt er að fara styttri leiðir inn Remundargil og því hentar sú gönguleið fyrir alla. Höfðabrekkuheiðar eru um 11 kílómetra löng leið en Höfðabrekka er gamalt höfuðból, kirkjustaður og stórbýli til forna.

Arnarfell við Þingvallavatn er auðveld og einstaklega falleg gönguleið. Þingvallavatn blasir við en handan þess er lágt fell sem lætur ekki mikið á sér bera. Arnarfell við Þingvallarvatn er aðeins 239 metra yfir sjávarmáli og stendur það stakt og fallegt á bakka Þingvallavatns.

Auðvelt er að ganga upp á fjallið og er sérstaklega gaman að ganga hring á toppnum til að kanna landslag þess og búsetuleifar við vesturendann. Gengið er upp á vesturenda þess og þegar upp er komið er tjörn eða lítið stöðuvatn sem kallast Stapatjörn. Landslagið er einstakt og skiptir Arnarfell litum, formum og áferðum eftir árstíðum. Ótrúlega fagurt útsýni er af þessu lága felli en handan vatnsins rísa hinar tignarlegu Botnssúlur. Þetta er gönguleið sem hentar öllum og tilvalin ef fara á í dagsferð með fjölskyldunni.

 

Búrfell í Grímsnesi er móbergsstapi og býður fjallið upp á frábært útsýni. Búrfell er talið vera frá næstsíðasta jökulskeiði og er það um 120 þúsund ára gamalt. Sunnan við Búrfell er ein stærsta sumarhúsabyggð á landinu, við Álftavatn, í Þrastaskógi og á stóru svæði í Grímsnesi alveg niður að Hvítá.

Gangan hefst austan við túnin á bænum Búrfelli sem stendur sunnan undir fjallinu. Gengið er upp suðurhlíð fjallsins og haldið að brún en þar er lítið vatn sem gaman er að sjá. Hægt er að ganga í kringum vatnið en það er valfrjálst. Gangan er frekar auðveld þar sem hækkunin er jöfn og það er ekki mikill bratti. Gangan tekur um tvær til þrjár klukkustundir og ætti gangan að henta öllum.

Fimmvörðuháls er eflaust gönguleið sem flestir landsmenn þekkja enda ein vinsælasta gönguleið landsins. Gangan er um 25 kílómetra löng og er hún ekki fyrir óvant göngufólk. Leiðin um Fimmvörðuháls liggur á milli tveggja jökla, Eyjafjallajökuls og Mýrdalsjökuls, og tengir Skóga við Þórsmörk. Flestir ganga frá Skógum og enda í Þórsmörk og er talið að sú leið sé einfaldari en þegar byrjað er frá Þórsmörk. Fjallavegahlauparar kjósa oft að fara Fimmvörðuháls í öfuga átt en leiðin frá Skógum hentar þeim betur sem ekki eru þaulreyndir göngugarpar. Á leiðinni eru tveir skálar, Baldvinsskáli og Fimmvörðuhálsskáli, og eru það tilvalin stopp til að gæða sér á bragðgóðu nesti.

Mikilvægt er að spáð sé góðu veðri þegar halda á af stað í gönguna. Snöggar breytingar geta orðið á veðri á hvaða árstíma sem er. Það getur verið blítt og stillt veður á láglendi en þegar komið er upp á háhálsinn getur skollið á blindbylur og svartaþoka. Það er því afar mikilvægt að allir sem ætla að ganga Fimmvörðuháls taki með sér GPS-tæki, kort eða áttavita. Leiðin er stikuð og stígar að mestu greinilegir. Leiðin getur verið óljós efst uppi á hálsinum þar sem oft eru snjóbreiður.

 

Stóri Meitill er eldfjall eða gígur við Þrengslaveg og er hann 440 metra yfir sjávarmáli. Stóri Meitill stendur við hlið Litla Meitils og eru þeir báðir úr móbergi, myndaðir á seinni hluta síðasta jökulskeiðs. Gangan er frekar auðveld en mjög áhugaverð. Gígurinn er feiknastór sem gefur fólki hugmynd um stærð gossins sem myndaði hann. Gangan er um sex kílómetra löng og tekur um það bil tvær til þrjár klukkustundir.

Gangan hefst við gatnamót á Þrengslavegi á móts við Sandfell. Fyrst um sinn er gengið eftir malarvegi sem liggur milli hrauns og hlíða inn með Litla Meitil. Fljótlega er komið að litlum skógi sem Einar Ólafsson gróðursetti. Stóri Meitill kemur svo í ljós og er leiðin upp fjölbreytt og býður upp á frábæra æfingu.

Toppurinn og útsýnið af honum er fallegt og á góðum degi sést jafnvel til Vestmannaeyja. Gígurinn efst á fjallinu er ekki síðri, stór og djúpur, fullur af vatni. Gangan upp á Stóra Meitil hentar öllum sem leita að nýjum og spennandi fjöllum og hentar einnig vel til fjölskylduferða.

til baka