Valdís Björg Friðriksdóttir er forfallin útivistarkona og elskar að fara upp á jökul. Hún kvaddi höfuðborgarsvæðið fyrir fimm árum og flutti á Höfn í Hornafirði. Þessi 28 ára ævintýrakona veit nákvæmlega hvert skemmtilegast er að fara þegar Suðurland er annars vegar.
„Ég ólst upp í Mosfellsbæ en árið 2019 langaði mig að prófa að búa og starfa úti á landi. Ég fékk vinnu á Hótel Smyrlabjörgum í Hornafirði og leið svo vel þar að eftir útskrift úr ferðamálafræði við Háskóla Íslands árið 2020 flutti ég og hef búið þar síðan. Vorið 2022 lauk ég svo námi í fjallamennsku hjá FAS og vann sem snjósleðaleiðsögumaður á Vatnajökli áður en ég hóf störf hjá Glacier Adventure á Hala í Suðursveit í lok árs 2022.
Þar er ég með umsjón með markaðsmálum, samfélagsmiðlum og skrifstofu, fer á jökulinn að taka upp efni og að leiðsegja í jöklaferðum af og til. Samhliða starfinu kláraði ég nám í stafrænni markaðssetningu frá Sahara Academy.“
Hefurðu alltaf verið náttúrubarn?
„Já, ég hef alltaf verið mikið náttúrubarn og liðið best úti í frísku lofti, finna fyrir orkunni frá náttúrunni og með tærnar í grasinu. Ég var í skátafélaginu Mosverjum í æsku og fannst ekkert skemmtilegra en að vera úti, fara í útilegur og synda í fossum. Mamma mín var mikið í útivist og ég dáðist alltaf að henni og ævintýrunum sem hún fór í. Ég held að áhugi minn á jöklum og fjallamennsku hafi kviknað eftir göngu á Eyjafjallajökul með vinkonum mínum sem ég fór í vorið 2020. Það fannst mér alveg mögnuð upplifun. Síðan þá hef ég verið dolfallin yfir íslenskri náttúru, jöklunum og hef ferðast mikið innanlands. Fyrir mig er helsta aðdráttaraflið einfaldlega hvað mér líður vel í náttúrunni. Hún hjálpar mér að vera í núinu, slaka á og hugsa minna.“
Hvað finnst þér skemmtilegast að gera utan vinnu?
„Ég er mikið fyrir alls konar útivist. Hér á Höfn er stutt í náttúruna og möguleikarnir endalausir. Ég fer mikið í göngur á svæðinu og hef gaman af því að fara á jöklana, kajak á jökullónum, klettaklifri og utanvegahlaupum. Á veturna finnst mér fátt skemmtilegra en að fara á snjóbretti, bæði á skíðasvæði og fjallaskíði þar sem ég nota fjallabretti til þess að skinna upp og renna niður. Hérna í kringum Höfn er ekkert eiginlegt skíðasvæði. Eftir vinnu fer ég mikið í crossfit og sund hér á Höfn. Ég elska líka að fara í nokkurra daga gönguferðir með bakpoka og tjald, það er eitthvað svo heilandi við það að vera úti í náttúrunni með allt sem maður þarf á bakinu. Uppáhaldsgönguleiðirnar mínar eru við skriðjöklana frá Vatnajökli. Kristínartindar í Skaftafelli eru mín uppáhaldsleið og sú sem ég hef farið oftast. Hér við Höfn eru Klifatindur og Skálatindar líka mínar uppáhaldsgönguleiðir.“
Áttu uppáhaldsjökul?
„Svæðið frá Öræfum að Lóni er algjör náttúruparadís en ef ég ætti að velja eitt svæði væri það við Fláajökul en hann er í algjöru uppáhaldi hjá mér. Það er hægt að ganga að honum á nokkra vegu en ég fer yfirleitt austan megin frá Haukafelli, sem er önnur náttúruperla ef út í það er farið. Fláajökull hefur verið í fyrsta sæti hjá mér síðan ég flutti hingað, hann er líka fyrsti jökullinn á svæðinu sem ég fór að svo það gæti spilað inn í en mér finnst hann alveg sérstaklega fallegur.
Við Hoffellsjökul eru líka margar fallegar gönguleiðir, til dæmis Geitafellsbjörg og Grasgiljatindur. Það er alveg magnað að ganga við jökul og fátt útsýni fallegra að mínu mati. Lónsöræfi eru líka einstakt svæði, til dæmis Stafafellsfjöllin og Hvannagil í Lóni. Ég hlakka mikið til að kynnast því svæði betur í sumar.“
Hvað gefur útivist þér?
„Það er ómetanlegt hvað útivist gefur mér. Ég held að þegar fólk kynnist tilfinningunni verði það háð henni og þá verður bara ekki aftur snúið. Það er eiginlega ólýsanlegt að standa á fjallstindi og njóta augnabliksins og útsýnisins þegar maður er loksins kominn upp. Annars finnst mér útivist snúast um að leyfa sér að njóta úti í náttúrunni. Það þarf ekki alltaf að vera löng fjallganga eða eitthvert stórt markmið. Mér finnst voða gott til dæmis að fara bara út á fallegt svæði og slaka á á meðan hundarnir hlaupa um.“
Lykilatriði að undirbúa göngur vel
Ef fólk vill byrja að stunda mikla útivist, hvaða búnað eða flík myndir þú mæla með að kaupa fyrst?
„Fyrst og fremst góða gönguskó, þá eru þér allir vegir færir! Svo er frábært að eiga gott föðurland því það er nauðsynlegt allan ársins hring hérna á Íslandi. Góða göngusokka, þynnri fyrir göngur á sumrin og hlýrri fyrir vetrargöngur. Klæða sig í nokkur lög svo það sé auðvelt að taka af sér og bæta á eftir veðri. Taka alltaf með sér hælsærisplástra og teip.
Af minni reynslu er mikilvægt að vera með nesti sem er girnilegt og gott, og borða nóg, sérstaklega í lengri göngum. Þurrmatur getur verið frekar ólystugur einn og sér en ég bæti út í hann til að bragðbæta t.d. smjör, ost, krydd, súpur frá Knorr og fleira sem mér dettur í hug. Það er mikilvægt að undirbúa gönguna vel, skoða veður og ég mæli með að notast við forrit eins og Wikiloc en þar er hægt að hlaða niður gönguleiðum og fylgja þeim, eða hafa til hliðsjónar. Aðalráðið sem ég get gefið er að vera ekki að flækja þetta fyrir þér. Það þarf ekki að kaupa dýrasta og besta búnaðinn strax. Prófaðu þig áfram, og finndu hvað virkar fyrir þig.“
Er einhver hlutur sem er alltaf í bakpokanum þínum?
„Eins lítra Nalgene-brúsi fylgir mér alltaf. Það er svo mikilvægt að drekka nóg vatn. Ég mæli með að eiga stóran og léttan vatnsbrúsa fyrir útivist. Svo tek ég alltaf fyrstu hjálpar tösku með og í henni er það allra nauðsynlegasta.“
Hvert er uppáhaldssnarlið þitt í gönguferðum?
„Ég er yfirleitt alltaf með heilsusafa í fernu, það er svo gott að fá sér eitthvað ferskt, svo er uppáhalds hjá mér núna sítrónu Oat King-stykki, súkkulaðihnetur, þurrkað mangó og Babybel-ostur.“
Áttu þér minningu af Suðurlandinu sem stendur sérstaklega upp úr?
„Já, fyrsta ferðin mín á hálendið þegar ég fór á Langasjó. Við fórum á kajak og gengum á Sveinstind. Útsýnið þaðan er algjörlega magnað. Þetta svæði er eitt af mínum uppáhalds í dag! Svo líka fjögra daga ferð á Öræfajökul með fjallamennskunáminu. Við settum upp tjaldbúðir og eyddum dögunum í að toppa tindana þar; Hvannadalshnúk, Dyrhamar, Sveinstind, Rótarfjallshnúk og Vestari-Hnapp, og að æfa allskonar tækni, eins og sprungubjörgun.“
Ertu með einhverja uppáhaldsstaði á Íslandi sem þú myndir mæla með fyrir sumarið?
„Ég mæli eindregið með að fólk heimsæki Hornafjörð, það er svo margt að sjá og gera hér. Allt sem ég er búin að nefna áður og svo staðir eins og Múlagljúfur, Skaftafell, jöklarnir og jökullónin, Bergárfoss, Stokksnes, Vestrahorn, Skútafoss og lengi mætti áfram telja. Það er líka mikið úrval af ferðum með leiðsögn með fyrirtækjum á svæðinu; jöklagöngur, fjallgöngur, bátsferðir á jökullónunum, snjósleðaferðir, lundaskoðun, skoða gil og fleira. Hér er líka nóg af gististöðum, tjaldsvæðum og veitingastöðum. Í stuttu máli; allt sem gott sumarfrí þarf að hafa.“