Fólk sér meira en myndir og heyrir meira en hljóð. Heimspekingurinn Damlan K. F. Pang rannsakar fyrst og fremst meðvitund, skynjun og minni og kemur inn á skynjun fólks í nýrri grein á Psychology Today.
„Sjónin okkar er frábær. Við getum metið fjarlægðir, þekkt hluti, ratað í grófu landslagi, gripið frisbee-disk, og svo miklu fleira byggt á ljósinu sem berst til augna okkar.“
Úrvinnsla upplýsinga er afar flókin, samkvæmt Pang, og gerist á mörgum stigum í heilanum og er niðurstaðan svo miklu meira en aðeins myndir, hún er marglaga endurbygging heimsins, a.m.k þess sem heilinn giskar á um veröldina og umhverfið.
Krukka af súrum gúrkum
Heimspekingurinn Keith Frankish sneri krukku af súrum gúrkum yfir í djúpstæða spurning: Hvað gerist þegar ísskápur er opnaður og krukkan er beint fyrir framan nefið á manneskjunni en hún sér hana ekki strax?
Svörin eru flókin og taugafræðileg og snúa að földum lögum skynjunarinnar, sem kannski slys á Ítalíu gæti varpað ljósi á. Síðla á tíunda áratugnum varð skosk kona, búsett á Ítalíu, fyrir því óhappi að vera í sturtu þegar kolmónóxíð lak úr heitavatnskerfinu sem varð til þess að hún varð fyrir súrefnisskorti. Konan komst lífs af en hluti svæða í heilanum varð óvirkur. Með óskerta sjón gat konan greint form og liti hluta fyrir framan sig en ekki þekkt þá. Vandamálið var ekki sjónin heldur að geta aðgreint og þekkt hluti (Goodale & Milner, 2013).
Heilinn ótrúlega skilvirkur
Hugurinn er innréttaður með fjölda upplýsinga um form og hluti, fólk og andlitsdrætti, dýpt og fjarlægt, hreyfingu og hraða.
„Þegar við lítum á vin, þekkjum við manneskjuna, vinnum úr andlitsfalli og tjáningu þessa kunnuglega andlits, þekkjum tilfinningar viðkomandi í gegnum andlitsdrætti, ályktum að höndin sem hækkar á lofti sé að fara að gefa okkur fimmu á meðan við sjáum fyrir í hvaða hæð hendur okkar mætast ... Reynsla okkar er mun meira en hrein mynd.“
Heilinn er ótrúlega skilvirkur og nær þvílíkum afrekum á meðan notuð eru tólf vött, samanber meðaltölvu með mun minni kraft sem keyrir á 175 vöttum. Slík hagkvæmni krefst þess að skera út óþarfa ferla. Rannsóknir hafa sýnt fram á aðstæður þar sem ekki var unnið úr upplýsingum eða þær ekki geymdar í minninu.
Ónauðsynlegar upplýsingar sigtaðar frá
Chen og Wyble (2015) settu fram þrjár tölur og einn bókstaf fyrir framan hóp þátttakenda í rannsókn sinni. Þeir báðu þátttakendur um að staðsetja bókstafinn á milli talnanna, sem allir gátu gert. Eftir nokkrar tilraunir breyttu þeir spurningunni og spurðu um hver bókstafurinn væri. Flestir þátttakenda gátu ekki svarað spurningunni þrátt fyrir að hafa vel getað staðsett bókstafinn á meðal tölustafanna. Eftir nokkrar tilraunir gátu flestir þátttakenda svarað því hver bókstafurinn væri, sem sýnir að heilanum er ekki takmörk sett varðandi getu en hann hins vegar notar flýtileið við úrvinnslu og geymslu þess sem virðast vera ónauðsynlegar upplýsingar.
„Aftur, þarna var ekki gat í sjónrænni mynd heldur einfaldlega að sérstakt aukalag var fjarlægt.“
Sama gerist varðandi önnur skynfæri og er þar nefnt dæmi um skertan talskilning fólks eftir heilaáverka án þess að hann hafi áhrif að fólk heyri í sjálfu sér (Ellis et al., 1984). Talgreining er eitt lag fyrir ofan og umfram innri hljóframsetningu rétt eins og míkrófónn er nauðsynlegur en ekki nægjanlegur fyrir talgervil svo hann virki.
„Mörg lög skynjunar hjálpa okkur við að kanna flókið umhverfi sem við lifum í þótt það gefi ekki endilega skýra mynd af heiminum. Það sem við sjáum er meira en bara mynd og það sem við heyrum er meira en aðeins hljóð. Reynsla okkar hefur gnægð og dýpt sem, rétt eins og með krukkuna af súrum gúrkum, gæti verið falin í augum allra.“