lau. 5. júlí 2025 11:00
Elínrós Líndal fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda Smartlands.
Einstæð móðir 14 ára drengs leitar ráða vegna tölvufíknar

Elínrós Líndal fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hún spurningu frá einstæðri móður sem á son á unglingsaldri. Hún hefur áhyggjur því hann er alltaf í tölvunni. Hvað er til ráða í sambandi við það? 

Sæl Elínrós.

Ég er einstæð móðir með einn son á táningsaldri og hef smá áhyggjur af honum. Sonur minn, sem er 14 ára, hangir í tölvunni í marga klukkutíma á dag þar sem hann spilar ofbeldisfulla tölvuleiki. Ég hef tekið eftir því að skapið í honum hefur versnað talsvert síðustu vikur og mánuði og hugsa ég að tölvuleikirnir séu að hafa mikil áhrif á hegðun hans. Sonur minn er ljúfur og góður drengur en ég er ansi hrædd um að hann sé að einangrast og vil því grípa í taumana áður en eitthvað gerist.

Hvað get ég gert?

Mbk.
Móðir

Sælar og takk fyrir spurninguna.

Ég held það sé bara mjög gott að setja ramma utan um tölvunotkun barna á þessum aldri. Ég hef meðal annars unnið í Foreldrahúsi sem ráðgjafi fyrir unglinga í vanda og finnst algengt að þau börn sem festast í tölvunni að spila ofbeldisfulla leiki fái mjög skakka mynd af veröldinni í gegnum þessa tölvunotkun. 

Það reynir á að vera einstætt foreldri með ungling í dag. Í raun þori ég að segja og skrifa: Það reynir á að vera foreldri unglings í dag því það er svo margt í gangi sem við ekki vitum af.

Að fá aðstoð er alltaf fyrsta skrefið. Í Foreldrahúsi fá foreldrar stuðning frá ráðgjafa og svo fá börnin stuðning frá sínum ráðgjafa. Sumir koma í Foreldrahús vegna þess að tölvuleikir eru farnir að hafa áhrif á það hvernig unglingnum gengur í lífinu.

Ég myndi ekki leyfa unglingi að fara í tölvuna nema að hann sé búinn að mæta í skóla, vinna heimavinnuna og fara í íþróttir og leika aðeins við vini sína.

Það getur verið gott að sitja með unglingunum og skoða leikina sem þeir eru í og að ræða við þá um hvað er best fyrir þá að gera. Mörk barna færast til eins og fullorðinna og hef ég sjálf heyrt frá unglingum að þeir vilji alls ekki að foreldrarnir horfi á það sem þeir eru að gera í tölvunni, því það sé ekki næs.

Ég hef unnið með fjöldann allan af unglingum og verð að segja að þeir eru ótrúlega opnir og skemmtilegir og eru til í að segja frá því sem vel gengur í lífinu og hvað er flókið og erfitt.

Það sem mér finnst hins vegar ótrúlega dapurt að sjá er samfélagið sem við erum að ala börnin okkar upp í. Það sem er í gangi þegar börn heltast aðeins úr lestinni eða þurfa stuðning. Harkan, ofbeldið, neyslan og ruglið sem er í gangi er eitthvað sem við sem samfélag verðum að horfast í augu við á fullorðinslegan hátt í staðinn fyrir að sópa hlutunum undir teppið og skilja svo ekkert í því af hverju unglingarnir okkar eru í ofbeldisfullum leikjum, sum eru vopnuð að slást og önnur leiðast út í neyslu.

Af öllu því sem barnið þitt getur verið að gera - hvað er best fyrir það?

Það gefur unglingum mjög mikið sjálfstraust að ganga vel í skóla. Að vera í íþróttum og að eiga góð tengsl við foreldra sína og það skiptir máli að eiga skemmtilega vini. 

Að fara í tölvuna stundum, er líka bara fínt, en þegar það er orðið að flótta þá þarf að skoða það og setja tölvunotkuninni mörk. Eins mæli ég alltaf með íþróttaleikjum frekar en ofbeldisfullum leikjum.

Að eiga góð tengsl við unglinga er ekki bara nauðsynlegt heldur gefandi. Almennt séð ráðlegg ég foreldrum að fylgjast mjög vel með því sem unglingar eru að gera í dag. Vera hluti af lífinu þeirra og að setjast reglulega niður með þeim. Finna leiðir til að þeir geti öðlast lífið sem þau langar í.

Svo ekki hika við að stíga inn í mömmuhlutverkið og að setjast niður með barninu þínu og finna leið til að það geti farið að upplifa lífið á skemmtilegan hátt í gegnum fleira en tölvuleiki.

Bestu kveðjur,

Elínrós Líndal ráðgjafi.

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Elínrós spurningu HÉR

til baka