sun. 6. júlí 2025 20:13
Ari Magnússon nýtti tækifærið og fór í skiptinám til Madrídar.
Eyddu aðeins 20 þúsund á mánuði í mat

Ari Magnússon, nemandi í fjármálaverkfræði við Háskólann í Reykjavík, ákvað að skella sér í skiptinám til Madrídar. Þar kynntist hann nýju skólalífi, annarri menningu og öllu því sem fylgir að flytja til útlanda.

Af hverju skiptinám í Madríd?

Ara fannst mikilvægt að nýta þetta frábæra tækifæri og taldi það sóun að fara ekki, sérstaklega á meðan hann væri ungur og án mikilla skuldbindinga.

„Ég fór einfaldlega af því að ég gat það. Fannst það vera of mikil sóun á tækifæri að sleppa því að fara, þá sérstaklega á meðan maður er ungur og þarf ekki að fórna einu eða neinu við þessa ákvörðun. Maður verður að prófa að búa í útlöndum.’’

Kröfurnar voru ekki miklar hjá honum um áfangastað, en hann vildi vera í Evrópu þar sem sólin skein.

„Mér fannst borgin passlega ólík Íslandi. Ég hef búið búið hálft ár í Danmörku áður, svo ég vildi prófa eitthvað nýtt og fara aðeins meira út fyrir þægindarammann í þetta skiptið en halda mér samt sem áður í Evrópu. Madríd bauð líka upp á stöðugan hita, sem gerði valið frekar auðvelt.’’

 

Bjó úti með besta vini sínum

Ari fór út með besta vini sínum, Nóa Jóni Marinóssyni, og stunduðu þeir nám við Carlos lll háskólann. Þeir dvöldu í Madríd í fjóra mánuði og leigðu tveggja herbergja íbúð sem var í um 30 mínútna göngufjarlægð frá miðbænum eða fimm mínútur með lest.

„Það var mjög gott að búa þarna, samgöngukerfið var frábært og við borguðum aðeins átta evrur á mánuði fyrir lestar- og strætókort. Annars erum við félagarnir einfaldir; það var sól og ódýrt að búa þarna. Við báðum ekki um mikið meira.“

„Hvernig var að búa með besta vini sínum?“

„Það var mjög þægilegt, við fengum vikuleg þrif sem fylgdi leigunni þannig að það varð aldrei skítugt. Það var smá pirringur ef diskarnir stóðu of lengi í vaskinum eða ef einhver kláraði allt í ísskápnum en annars gekk þetta mjög vel,“ segir Ari.

  

Mikið rólegra umhverfi

Það var ekki margt við menninguna og borgina sem kom drengjunum úr jafnvægi eða fannst koma þeim á óvart. Þó tók hann eftir því hversu mikill munur var á hversdagslífinu í Madríd og Íslandi.

„Ég fór út með engar væntingar, þannig að fátt kom á óvart. Við gengum eiginlega allt og tókum eftir því hversu mikið líf var á götum borgarinnar. Fólk er alltaf úti að njóta og það virðist enginn vera að flýta sér. Á Íslandi finnst mér fólk lifa mun hraðar; allir að drífa sig eitthvað en í Madríd röltir fólk á milli staða, stoppar og fær sér kaffi og lifir meira í núinu.“

 

„Hvernig var skólinn miðað við HR?“

Ari lýsir því að byggingar háskólans hafi verið dreifðar víða um borgina, sem gerði skipulagið flóknara en heima á Íslandi.

„Allt öðruvísi en heima, vá! Hann var alveg helmingi verri eða kannski flóknari. Það er náttúrulega miklu minna utanumhald þarna en maður er vanur. Þetta fylgdi því meiri ábyrgð og krafðist skipulags.“

Einnig byrjaði skólinn mikið seinna á daginn sem er frábrugðið því sem við erum vön hér heima.

„Skólinn byrjaði oftast ekki fyrr en klukkan tvö eða þrjú og var til átta á kvöldin, svo rútínan varð allt önnur en heima.“

 

Daglegt líf

Dagarnir hjá Ara voru fjölbreyttir. Hann byrjaði oft daginn á að fara út að hlaupa og nýtti svo sólina í grasagarðinum Parque del Río áður en skólinn byrjaði. Eftir skóla var annaðhvort farið í bjór með félögum eða heim að slaka á.

Aðspurður hvort rútínan heima á Íslandi sé betri en úti í Madrid svarar Ari: 

„Já, íslenska rútínan hentar mér betur, kannski er það bara af því maður er vanari henni. Það var svo erfitt að vera búinn að nýta daginn vel og varst í góðum fíling í sólinni að þurfa að hætta því og koma sér upp í skóla.’’

 

Eyddu 20 þúsund á mánuði í mat

Uppáhaldsstaðurinn í Madríd var spænska barkeðjan 100 Montaditos.

„Við fórum aldrei á fína veitingastaði en vorum reglulegir gestir á 100 Montaditos, þar sem bjórinn kostaði tvær evrur og einnig hægt að fá samlokur og kaffi. Annars vorum við duglegir að elda sjálfir. Við tókum þetta saman í lok dvalarinnar og komumst að því að við eyddum ekki nema 20 þúsund krónum á mánuði í mat á mann, sem er ekki neitt miðað við Ísland,“ segir Ari.

Skemmtilegasta upplifunin – fótboltaleikir

Ari braut upp hversdagsleikann og fór reglulega á fótboltaleiki enda er Madríd með eitt besta fótboltaliðið í spænsku deildinni. 

„Við fórum á fimm Real Madrid-leiki og stemningin var alltaf mögnuð. Það var án efa besta skemmtunin,“ segir Ari að lokum.

 

 

til baka