Tinna Sól Þrastardóttir er 24 ára, fædd og uppalin í Reykjavík, en býr nú í Barselóna á Spáni þar sem hún flutti út ásamt kærastanum sínum, Brynjar Örn Hauksson, til að mennta sig á sínu áhugasviði og upplifa nýja menningu. Í dag hefur hún komið sér vel fyrir í suðrænu stórborginni og segir borgina hafa heillað sig með sól, góðu andrúmslofti og líflegri menningu.
Af hverju Barselóna?
Tinna segir að löngunin til að flytja úr landi hafi lengi blundað í henni, enda hafi ferðalög, ný menning og það að uppgötva heiminn alltaf heillað hana. Hún er að læra gestrisni- og ferðamálastjórnun en Ísland bauð ekki upp á það nám og því var tilvalið tækifæri að líta út fyrir landsteinana.
„Hugmyndin um að fara út í nám kviknaði í miðju Covid, þegar ég og kærastinn minn vorum einangruð uppi í bústað og fórum að ræða háskólanám. Námið sem okkur langaði að stunda er ekki í boði á Íslandi, svo það varð fljótt ljóst að við þyrftum að skoða möguleika erlendis,“ segir Tinna.
Parið átti erfitt með að velja á milli London og Barselóna, en eftir miklar vangaveltur varð Barselóna fyrir valinu. Lífsstíllinn, menningin og andrúmsloftið í borginni heilluðu þau upp úr skónum.
„Ég hef núna búið hér í rúm þrjú ár og get sagt að það var ein besta ákvörðun sem ég hef tekið.’’
Daglegt líf í Barselóna
Dagsrútína Tinnu í Barselóna er talsvert ólík rútínunni á Íslandi.
„Ég byrja daginn oftast á Barre-tíma og svo fæ ég mér Acai-skál eftir tímann, smá „ritúal“ sem ég elska. Eftir skóla reyni ég að nýta sólina sem best, hvort sem það er með smá sólbaði á ströndinni eða í garðinum. Kvöldin geta síðan verið mjög félagsleg, þá hittum við vini út að borða eða bara kosýkvöld sem við eldum eitthvað heima. Það er enginn dagur eins, en það er einmitt það sem mér finnst svo skemmtilegt.’’
Tinna segir að veðrið spili stóran þátt í hversdagslífinu. Þá nefnir hún sérstaklega hversu lifandi, fjölbreytt og orkumikil borgin sé. Það sé alltaf eitthvað spennandi að gerast og auðvelt að njóta hversdagsins. Veðrið, menningin og fólkið geri upplifunina einstaka.
Það sem kom mest á óvart
Það sem kom Tinnu mest á óvart var hversu rólegt og afslappað daglegt líf er í Barselóna. Hún segir að hlutirnir gerist á sínum eigin hraða og að stressið sé miklu minna hjá fólki. Annað sem vakti athygli hennar var hversu sjálfsagt það er að fólk hittist eftir vinnu eða skóla.
„Mér finnst ótrúlegt hvað það er eðlilegt hérna að fólk hittist eftir vinnu eða skóla - sest saman á bar, fer í göngutúr eða borðar saman, í stað þess að fara beint heim eins og maður er oft vanur á Íslandi.“
Heilluð af menningunni
Menningin í Barselóna og lífsstíll heimamanna hafa algjörlega heillað Tinnu.
„Það sem mér finnst mest heillandi við menninguna hér er lífið og fjörið sem er alls staðar í kringum mann, jafnvel á venjulegum degi í miðjum febrúar. Til dæmis er algengt að fólk sitji úti á torgum eftir vinnu til að spjalla og njóta samverunnar. Þetta félagslega andrúmsloft gerir borgina svo lifandi.“
Sumt hefur þó reynst henni aðeins erfiðara að venjast.
,,Það sem mér hefur líklega reynst erfiðast að venjast er þessi afslappaði lífsstíll þar sem hlutir gerast á mun hægari hraða en ég er vön. Einnig er matartíminn allt öðruvísi, flestir borða ekki kvöldmat fyrr en klukkan níu eða jafnvel seinna, sem getur verið krefjandi að aðlagast eftir íslenska rútínu.’’
Uppáhaldsstaðir í Barselóna
Það þarf enginn að kvarta undan skorti á áhugaverðum stöðum í Barselóna. Tinnu fannst erfitt að gera upp á milli staða, en þeir þrír sem eru í mestu uppáhaldi hjá henni núna eru Sensi Tapas, Sartoria Panatieri og La Balabusta.
„Sensi Tapas er staðsettur í gamla hverfinu og er frábær kostur þegar mann langar í tapas. Sartoria Panatieri býður sennilega upp á bestu pizzur sem ég hef smakkað, og La Balabusta er mjög kósý veitingastaður með skemmtilegum mið-austurlenskum blæ.“
Fullkominn dagur í Barselóna
Aðspurð hvað hún myndi gera ef hún fengi bara einn dag í Barselóna mælir Tinna með eftirfarandi dagskrá:
„Ég myndi byrja daginn á góðum brunch sem er auðvelt að finna hér því borgin er full af frábærum stöðum. Svo myndi ég rölta um gömlu hverfin, El Born og Gothic Quarter, sem eru rík af sögu, menningu, litlum fallegum verslunum og söfnum. Það er best að sleppa Google Maps og leyfa sér einfaldlega að villast aðeins þar. Síðan er algjört möst að sjá Sagrada Familia og Park Güell ef maður vill upplifa Gaudí í allri sinni dýrð. Eftir það mæli ég með að setjast niður á torgi og njóta tapas, svo er fullkomið að enda daginn á rooftop bar með útsýni yfir borgina.“
Ráð til Íslendinga sem íhuga að flytja út
Að lokum deilir Tinna þremur góðum ráðum til Íslendinga sem eru að íhuga að flytja til Barselóna:
- Nýttu tækifærið til að ferðast í kringum borgina: „Svæðið í kringum Barselóna er ótrúlega fallegt og Costa Brava er sérstaklega stórkostlegur staður, einn af þeim fallegustu sem ég hef komið á.“
- Vertu opin fyrir að kynnast nýju fólki: „Borgin er full af opnu og skemmtilegu fólki, sérstaklega nemendum og ungu fólki, og því er auðvelt að mynda tengsl ef maður gefur sér smá tíma í það.“
- Passaðu vel upp á dótið þitt: „Þjófnaður getur verið vandamál, sérstaklega á vinsælum ferðamannastöðum.“