Margrét Rósa Einarsdóttir er mikil áhugakona og hálfgerður sérfræðingur í leikföngum, þá sérstaklega gömlum leikföngum, sem fólk, 40 ára og eldra, man vel eftir að hafa leikið sér með í æsku, og ákvað að samtvinna þetta skemmtilega áhugamál sitt í starfi. Fyrir rétt rúmum fimm árum opnaði hún eitt skemmtilegasta og litríkasta safn landsins. Leikfangasafn Soffíu, í Borgarnesi, þar sem sjá má bæði gull og gersemar í hverju horni.
Margrét Rósa, sem er jafnan kölluð Magga Rósa, rekur einnig veitinga- og gististaðinn Englendingavík, en þangað flykkist fólk, innlent og erlent, í stórum stíl til að bragða á einum besta fiski sem finnst á Íslandi.
Segðu mér aðeins frá því hvernig það kom til að þú ákvaðst að opna leikfangasafn.
„Ég átti bara svo mikið af leikföngum og vissi að þetta gæti verið til gagns og gamans,” segir Magga Rósa.
Hvaða hluti getur fólk átt von á að rekast á?
„Hér má finna alls kyns fjársjóð, reiðhjól frá 1860, dúkkuvagna frá aldamótum 1900 og bara allt milli himins og jarðar, barbídúkkur, bíla, bækur og bangsa.“
Góðar viðtökur
Áttu þér eitthvert uppáhaldsdót?
„Bara allt, ég get ekki valið á milli.“
Margrét Rósa segir viðtökurnar hafa verið mjög góðar.
„Já, fólk er mjög hrifið af bæði safninu og veitingastaðnum. Fólk kemur aftur og aftur, mikið af hópum, bæði eldri borgarar og félagasamtök, sem koma, fá sér að borða og fá svo leiðsögn um safnið. Margir mæta með leikföng og gefa, sem er auðvitað alltaf gaman.“
Segðu mér aðeins frá Englendingavík.
„Englendingavík er veitinga- og gististaður sem er með besta fiskihlaðborð landsins, þó svo ég segi sjálf frá, sem og fjölbreyttan matseðil. Hér er einnig hugguleg gistiaðstaða.“
Er fullbókað hjá ykkur í sumar?
„Já, gistingin er fullbókuð allan ársins hring yfirleitt en veitingastaðurinn er aðeins opinn yfir sumartímann.“
Fellur íslenski fiskurinn vel í kramið hjá ferðamönnum?
„Já, heldur betur. Erlendir ferðamenn eru alveg í skýjunum þegar þeir smakka nýveiddan, ferskan íslenskan fisk. Þeir hafa aldrei smakkað annan eins fisk og hjá okkur. Svo bjóðum við upp á plokkfisk sem fólki finnst gaman að bragða á, fiskréttinum sem landsmenn eru aldir upp á. En, já, fátt slær góðum fiski við.“
Fegurð bæjarins er einstök
Margrét Rósa segir bæinn lifna við á sumrin.
Já, ferðamennirnir lífga heldur betur upp á bæinn á sumrin og ferðast hér um hóla og hæðir, enda nóg af fallegum náttúrusvæðum í Borgarnesi.“
Hvað er það besta við að búa í Borgarnesi?
„Ætli það sé ekki bara fegurð bæjarins, hún er alveg einstök.“
Hvert er uppáhaldssvæðið þitt?
„Það er Kaupfélagsfjara í Englendingavík, þar er yndislegt að vera og sólarlagið þar er ólýsanlegt. Það er dásamlegt að sitja þarna á fallegu sumarkvöldi og horfa út á haf.“