Unnur Lárusdóttir er 27 ára framakona og meistaranemi sem hefur komið sér vel fyrir með litlu fjölskyldunni sinni í kjarna Reykjavíkur. Hún reynir að halda góðu jafnvægi á vinnu- og fjölskyldulífinu og veitt fátt betra en að kúpla sig út og keyra út úr bænum.
Leiðin liggur þá yfirleitt vestur á land, en hún á ættir að rekja til Stykkishólms. Hún hefur einnig í gegnum tíðina verið dugleg að skoða sig um og hefur varið miklum tíma í útilegum og bíltúrum með vinum og fjölskyldu, bæði á Snæfellsnesi og á Vestfjörðum.
„Ég er búsett í Laugardalnum með kærastanum mínum, Jakobi Eiríkssyni, og dóttur okkar, Ellen Eriku, sem kom í heiminn í fyrra. Ég útskrifaðist sumarið 2021 frá Háskólanum í Amsterdam með BS-gráðu í þverfaglegri stjórnmálafræði, með hagfræði, lögfræði og sálfræði sem aukagrein, en síðan þá hef ég einnig lokið grunnnámi í markþjálfun og viðbótardiplómu í jafnréttis- og kynjafræðum. Svo mun ég útskrifast um næstu áramót úr meistaranáminu mínu í alþjóðasamskiptum. Ég tók einnig nýlega við sem leiðtogi fyrirtækjasamstarfs, fjáröflunar og sjálfbærni hjá samtökunum UN Women á Íslandi. Mín helstu áhugamál eru og hafa lengi verið útivist og hreyfing, ferðalög bæði innanlands og erlendis. Einnig gæðastundir með fjölskyldunni og hefur það líklega aldrei verið jafn framarlega í forgangsröðinni og nú, eftir að dóttir okkar kom í heiminn, enda er tíminn of dýrmætur,“ segir Unnur.
Hefur þú alltaf notið þess að fara út úr bænum?
„Já, alveg frá því að ég man eftir mér. Þegar ég hugsa til baka þá eru fyrstu minningarnar mínar úr veiðiferðum eða almennt bara úr ferðum úti á landi með fjölskyldunni minni og ömmum og öfum, sérstaklega á sumrin. Með aldrinum hef ég haft aukna þörf fyrir það að komast út fyrir bæjarmörkin af og til og vera í náttúrunni, anda að mér fersku lofti, fá smá útrás og sjá eitthvað nýtt. Hafandi búið erlendis þegar ég var í námi, í þremur ólíkum löndum, í samanlagt fjögur ár, þá kann ég enn betur að meta möguleikann á að komast út á land. Stundum hef ég þörf fyrir að sjá eitthvað nýtt en það getur oft líka verið mjög þægilegt að fara á staðina sem maður þekkir, rúnta um, borða góðan mat, taka fallegar myndir, eiga gott og langt spjall í bílnum, fara í sund og koma síðan endurnærð í bæinn aftur.“
Sækir orku á Snæfellsnesið
„Ég á rætur að rekja til Stykkishólms en föðurættin mín er þaðan og pabbi minn ólst þar upp. Ég á fjöldann allan af minningum þaðan úr barnæsku, þá sérstaklega heimsóknir til langömmu og langafa. Einnig frá unglingsárunum, þar sem við fjölskyldan sóttum hátíðina Danska daga og nú í seinni tíð, eða allt frá því að ég fékk bílpróf, hef ég reynt að vera dugleg að gera mér ferðir í Hólminn. Til að mynda hef ég reglulega fengið danskar vinkonur mínar í heimsókn til landsins og hefur það alltaf verið kærkomið fyrsta stopp að rúnta um Snæfellsnesið og heimsækja Hólminn, benda þeim á húsið sem pabbi ólst upp í, fara út í Súgandisey og helst ná dagsferð til Flateyjar ef tíminn leyfir.“
Hvernig gistingu notar þú helst?
„Þegar ég hef ferðast á síðustu árum höfum við kærasti minn aðallega verið að nýta okkur tjaldið okkar og gist á tjaldsvæðum víðsvegar um landið. Hann hefur þó einnig verið duglegur að skipuleggja ferðir á hótel inn á milli, og við þannig blandað saman tjaldútilegu og hótelgistingum. Svo eru nokkur góð gistiheimili sem leynast hér og þar, sem hafa reynst okkur vel en þar upplifir maður aðeins öðruvísi stemningu en á hótelum eða tjaldsvæðum, eðlilega, og höfum við alveg jafn gaman af því. Ég hef þó einu sinni farið í fimm daga ferð á Vestfirði og þá gist í húsbíl, sem var skemmtileg upplifun. Einnig höfum við farið um Vestfirðina á þremur dögum og þá vorum við í tjaldi í tvær nætur en þriðju nóttina dvöldum við í Einarshúsi á Bolungarvík, sem var ekki planað en við gerðum það sökum veðurs og það var skemmtileg upplifun að gista þar.“
Elskar að vakna í tjaldi og fara beint í sund
Hvað finnst þér skemmtilegast við að tjalda?
„Það er svo margt sem ég elska við að vera í tjaldi. Allt frá því að finna staðinn þar sem maður vill tjalda, tæma bílinn og setja tjaldið saman, grilla kvöldmat og helst sitja úti í útilegustólunum með góðan bjór eða rauðvínsglas í hendi, í góðri lopapeysu og hlusta á fuglasönginn, í það að fara að sofa á loftdýnu, nægilega vel klædd en samt ekki of ef ske kynni að sólin mæti og það verði ólíft af hita. Vakna daginn eftir, beint út í ferska loftið og finna fyrir næturdögginni í grasinu, græja morgunmat smá sjúskaður og halda síðan beint í sund.
Það getur auðvitað líka verið þreytandi til lengdar að vera í tjaldi og eftir einhverja daga þá hlakkar maður til að komast í rúmið sitt, en allt þetta sem ég nefni hér að ofan er svo skemmtilegt og endurnærandi og eftir sitja ótal minningar sem maður er þakklátur fyrir, sérstaklega þegar harði íslenski veturinn bankar upp á. Það verður forvitnilegt að sjá hvernig það verður að fara í útilegur og almennt í ferðalög innanlands í sumar með eina litla sem verður eins árs í ágúst, en við fjölskyldan hlökkum mikið til,“ segir hún.
Laugin í Heydal í uppáhaldi
Hvað heillar við Vestfirði?
„Það er margt sem heillar við Vestfirði en ég á þó enn eftir að heimsækja marga staði þar, og eru þeir ofarlega á lista hjá mér! Þar má nefna Látrabjarg og Hornstrandir til að mynda, en það hefur lengi staðið til að fara í langa gönguferð, án netsambands, til Hornstranda en rétti tíminn ekki enn gefist í það. Á heildina litið þykir mér þó náttúran og fallegu bæjarplássin standa upp úr á Vestfjörðum. Ég elska að fara í sund og sérstaklega heimsækja laugar sem við höfum ekki farið í áður, svo að slíkt er alltaf á planinu þegar við kíkjum út á land. Sundlaugin á Suðureyri hefur reynst mér vel, en annars stendur upp úr að heimsækja nýja og flotta útsýnispallinn á Bolafjalli í góðu veðri, að rölta um Ísafjörð á fallegu sumarkvöldi, kíkja á ströndina í Önundarfirði eða bara fara niður að sjó einhvers staðar á leiðinni, og svo helst ná að tjalda í Heydal og skella sér í laugina þar. Ég hef að vísu lítið verið á Vestfjörðum að vetri til en það er einnig á planinu að gera okkur vetrarferð þangað og kíkja loksins á Aldrei fór ég suður.“
Aftur og aftur á sömu staði
Eru einhverjir staðir sem þú myndir segja að væru leyndar perlur á Vesturlandi?
„Þegar stórt er spurt – en já ég á mér eflaust of marga uppáhaldsstaði á Vesturlandi en ég hugsa þetta svolítið í tveimur pörtum, Snæfellsnesið og síðan Vestfirðirnir. Á Snæfellsnesinu er það fyrst og fremst Snæfellsjökull en ég kleif hann fyrst árið 2022 í draumaveðri og góðum félagsskap. Mér finnst líka æðislegt að heimsækja Hellnar og setjast niður í góðan kaffibolla, kíkja á Djúpalónssand eða fara til Skarðsvíkur, sérstaklega í góðu sumarveðri. Fyrir utan þessa staði þá er Stykkishólmur uppáhaldsbærinn minn á Snæfellsnesi og finnst okkur fjölskyldunni alltaf jafn gaman að verja tíma þar. Á Vestfjörðum er síðan ótrúlega margt að skoða og marga fallega bæi að heimsækja, frá mínum ferðalögum standa nokkrir staðir upp úr en það eru Rauðisandur, ströndin í Önundarfirði, ásamt Flateyri og Heydal.“
Gæðastundir í bílnum
Hefur kærasti þinn jafn gaman af ferðalögunum?
„Já, klárlega. Við eigum það sameiginlegt að elska útivist og hreyfingu en hann er sjálfur úr sveit svo það að vera í náttúrunni og á flakki um landið er honum mjög eðlislægt. Hann hefur að vísu eytt minni tíma en ég á Vesturlandi og þá aðallega Snæfellsnesinu, svo það hefur verið skemmtilegt fyrir mig að fá að sýna honum aðeins hvaða staðir eru mínir uppáhalds og búa til okkar eigin minningar, á þeim stöðum síðustu ár. Við eigum kajaka sem við elskum að fara á en mættum nota oftar, svo það væri draumur að taka þá með okkur á flakk um landið einn daginn og þá helst að sigla við Grundarfjörð eða Stykkishólm,“ segir hún.
Hvað gerið þið á Vesturlandi þegar þið viljið gera ykkur dagamun?
„Þegar við ferðumst um Vesturland og almennt þá elskum við bílferðina oft jafn mikið og áfangastaðinn. Á leiðinni náum við oft dýrmætu spjalli og hlustum á góða tónlist, eitthvað sem er mjög kærkomið þegar dagarnir eru oft þéttir og tíminn líður hratt. Við reynum að sjá eitthvað nýtt í hverri ferð en til þess að gera okkur dagamun förum við gjarnan í sund, setjumst niður á huggulegu kaffihúsi, spilum og eyðum tíma í náttúrunni. Núna í sumar verða ferðalögin okkar í aðeins hægari takti, þar sem við þurfum líklega að stoppa oftar og leyfa dóttur okkar aðeins að leika sér og borða, en það þýðir bara að við munum búa til nýjar minningar og upplifa öðruvísi daga í leiðinni. Meira af því að njóta og minna af því að þjóta á áfangastað.“
Unnur hefur gaman af því að fara í sund og dýfa sér í alls kyns náttúrulaugar. Hún hefur heimsótt þær nokkrar en það eru einnig fleiri laugar á óskalista hjá henni, sem hún á eftir að fara í.
„Ég myndi segja að það sé ekki endilega ein náttúrulaug sem standi upp úr en þær sem eru mér efst í huga eru Hellulaug hjá Flókalundi, sem er lítil náttúrulaug alveg við sjóinn og það er algjör draumur að fara í hana að kvöldi til, áður en farið er að sofa, í tjaldi á tjaldsvæðinu þar. Síðan verð ég að nefna pottana á Drangsnesi, ásamt laugunum í Heydal. Þær laugar sem eru svo á listanum fyrir komandi ferðir á Vestfirðina, eru Hörgshlíðarlaug og Krossneslaug,“ segir hún.
Hvernig eru plönin ykkar í sumar?
„Við höfum aðeins ferðast með Ellen Eriku en ekki alveg eins mikið og við hefðum viljað, sökum flutninga, ferðalaga erlendis og fleira í þeim dúr. En þó höfum við reglulega farið austur fyrir fjall í sveitasæluna til tengdaforeldra minna og nú nýlega fórum við með fjölskyldu minni í langa helgarferð í Hólminn. Sumarið er hins vegar stútfullt af spennandi ferðaplönum og stefnum við á að taka dagsferð í góðu veðri um Snæfellsnesið, við ætlum í hestaferð í lok júní, einnig eru nokkrar útilegur á planinu ásamt vikudvöl í sumarbústað. Það væri síðan draumur að ná einni góðri dagsferð til Flateyjar í sumarblíðu,“ segir Unnur að lokum.