sun. 6. júlí 2025 08:30
Esther Ösp er dugleg að ferðast um landið með fjölskyldu sinni.
„Að tilheyra samfélagi þar sem allir þekkja alla er dásamlegt“

Esther Ösp Valdimarsdóttir vissi ekki við hverju hún ætti að búast þegar hún flutti með manni sínum, Eiríki Valdimarssyni þjóðfræðingi, og börnum til Vestfjarða, nánar tiltekið Hólmavíkur, fyrir röskum áratug.

Esther Ösp, sem er fædd og upp­al­in í Reykja­vík, hafði lítið farið út fyr­ir bæj­ar­mörk­in, ekki mikið lengra en Sel­foss, þegar þau hjón­in tóku þá stóru ákvörðun að pakka sam­an eig­um sín­um og hefja nýtt líf á Hólma­vík.

Lífið í þess­um litla, ró­lega og hríf­andi vest­firska smá­bæ hef­ur komið Esther Ösp og fjöl­skyldu henn­ar skemmti­lega á óvart en hún seg­ir að það að flytj­ast bú­ferl­um og víkka þar með sjón­deild­ar­hring­inn sé gott vega­nesti út í lífið.

Af hverju ákváðuð þið að flytja úr Reykja­vík?

„Já, ein­mitt, þegar stórt er spurt! Sko, í fyrstu leit ég á þetta sem hálf­gerða mann­fræðirann­sókn. Ég er menntaður mann­fræðing­ur og lagði stund á mann­fræði við Há­skóla Íslands og í gegn­um það nám set­ur maður upp gagn­rýn­in gler­augu og horf­ir á heim­inn öðrum aug­um.

Einn dag­inn þegar ég sat og horfði á frétt­irn­ar í mín­um höfuðborg­ar­hroka og fylgd­ist með fólki væla um lífið úti á landi tengdi ég lítið sem ekk­ert við það sem fólkið var að segja og varð fljót­lega for­vit­in um að upp­lifa þetta á eig­in skinni. Þannig gerðist það, svona í stuttu máli.“

 

Heimurinn stækkaði

Viss­irðu mikið um Hólma­vík?

„Nei, ég vissi lítið sem ekk­ert um þenn­an stað og hafði einu sinni keyrt þarna í gegn.“

Esther Ösp hafði búið sig und­ir að heim­ur­inn minnkaði þegar hún flytti til Hólma­vík­ur en það varð ekki raun­in.

„Já, þetta stækkaði heim­inn minn, það kom mér mjög svo á óvart. Ég átti ekki von á því. Þegar ég starfaði sem stunda­kenn­ari við Há­skóla Íslands um­gekkst ég bara fólk sem var á fé­lags­vís­inda­sviði og hugsaði eins og ég, en hér á Hólma­vík er ég í dag­leg­um sam­skipt­um við alls kon­ar fólk sem er með allt aðra sýn á heim­inn og hugs­ar hlut­ina út frá allt öðrum for­send­um en ég, það hef­ur gefið mér mjög mikið.“

Hvað er það besta við að búa í smá­bæ?

„Að til­heyra sam­fé­lagi þar sem all­ir þekkja alla er dá­sam­legt, það læt­ur mér líða vel. Svo er auðvitað ansi þægi­legt að hafa allt inn­an seil­ing­ar.“

Hvernig hafa börn­in aðlag­ast líf­inu á Hólma­vík?

„Eldri gaur­arn­ir okk­ar voru þriggja og sjö ára þegar við flutt­um á Hólma­vík og það tók þá enga stund að aðlag­ast líf­inu hér. Þetta var mjög mik­il­vægt og já­kvætt skref fyr­ir þá, held ég. Það er meiri sveigj­an­leiki í öllu og börn eru sjálf­stæðari.“

 

Bjór eftir vinnu á föstudögum

Er ríkt menn­ing­ar- og fé­lags­líf á Hólma­vík?

„Já, al­gjör­lega. Íbúar eru ansi dug­leg­ir að finna upp á ein­hverju skemmti­legu. Hér eru skemmti­leg söfn, góð sund­laug, kaffi­hús, bar, Þjóðfræðistofa, kirkju­kór og ansi öfl­ugt áhuga­manna­leik­hús.

Svo er skemmti­leg hefð hjá kon­un­um í bæn­um en þær hitt­ast alltaf á föstu­dög­um eft­ir vinnu og fá sér bjór á Kaffi Galdri og ræða um dag­inn og veg­inn; það er góð og já­kvæð leið til að enda vinnu­vik­una.“

Ef þú ætt­ir að lýsa Hólma­vík í fimm orðum, hvaða orð mynd­ir þú nota?

„Hmm, menn­ing, mar­ens, mann­líf, það er m-þema hjá mér,“ seg­ir hún og hlær. „Og jú, kannski ham­ingja og hörm­ung­ar, þar sem ham­ingju- og hörm­ung­ar­dag­ar voru stór hluti af líf­inu hér á Hólma­vík í mörg ár.“

 

Margt að sjá og upplifa

Er Hólma­vík vin­sæll áfangastaður meðal ferðafólks?

„Já, al­gjör­lega. Margt fólk ferðast hingað, þá sér­stak­lega yfir sum­ar­­tím­ann, en mik­ill fjöldi stopp­ar aðeins hluta úr degi. Ég myndi gjarn­an vilja sjá fólk stoppa leng­ur og njóta alls þess sem er í boði. Hér er margt að sjá og upp­lifa.“

Og svona í lok­in, hvað er ómiss­andi að gera á Hólma­vík og í kring?

„Galdra­sýn­ing­in er mjög vin­sæl og hef­ur lengi verið mikið aðdrátt­ar­afl, fjöl­marg­ir gera sér dags­ferð frá Reykja­vík til að kíkja á hana. Svo er alltaf gam­an að kíkja á Nátt­úru­barna­hátíðina á Strönd­um, Sauðfjár­setrið og Gald­ur Brugg­hús. En svo finnst mér Hólma­vík vera best til fall­in sem eins kon­ar miðstöð til að skoða allt sem er hér í kring, þá meðal ann­ars ­Djúpið, Drangs­nes, Kross­nes­laug og Kaldalón.

Það eru marg­ar nátt­úruperl­ur í kring­um okk­ur.“

til baka