Esther Ösp Valdimarsdóttir vissi ekki við hverju hún ætti að búast þegar hún flutti með manni sínum, Eiríki Valdimarssyni þjóðfræðingi, og börnum til Vestfjarða, nánar tiltekið Hólmavíkur, fyrir röskum áratug.
Esther Ösp, sem er fædd og uppalin í Reykjavík, hafði lítið farið út fyrir bæjarmörkin, ekki mikið lengra en Selfoss, þegar þau hjónin tóku þá stóru ákvörðun að pakka saman eigum sínum og hefja nýtt líf á Hólmavík.
Lífið í þessum litla, rólega og hrífandi vestfirska smábæ hefur komið Esther Ösp og fjölskyldu hennar skemmtilega á óvart en hún segir að það að flytjast búferlum og víkka þar með sjóndeildarhringinn sé gott veganesti út í lífið.
Af hverju ákváðuð þið að flytja úr Reykjavík?
„Já, einmitt, þegar stórt er spurt! Sko, í fyrstu leit ég á þetta sem hálfgerða mannfræðirannsókn. Ég er menntaður mannfræðingur og lagði stund á mannfræði við Háskóla Íslands og í gegnum það nám setur maður upp gagnrýnin gleraugu og horfir á heiminn öðrum augum.
Einn daginn þegar ég sat og horfði á fréttirnar í mínum höfuðborgarhroka og fylgdist með fólki væla um lífið úti á landi tengdi ég lítið sem ekkert við það sem fólkið var að segja og varð fljótlega forvitin um að upplifa þetta á eigin skinni. Þannig gerðist það, svona í stuttu máli.“
Heimurinn stækkaði
Vissirðu mikið um Hólmavík?
„Nei, ég vissi lítið sem ekkert um þennan stað og hafði einu sinni keyrt þarna í gegn.“
Esther Ösp hafði búið sig undir að heimurinn minnkaði þegar hún flytti til Hólmavíkur en það varð ekki raunin.
„Já, þetta stækkaði heiminn minn, það kom mér mjög svo á óvart. Ég átti ekki von á því. Þegar ég starfaði sem stundakennari við Háskóla Íslands umgekkst ég bara fólk sem var á félagsvísindasviði og hugsaði eins og ég, en hér á Hólmavík er ég í daglegum samskiptum við alls konar fólk sem er með allt aðra sýn á heiminn og hugsar hlutina út frá allt öðrum forsendum en ég, það hefur gefið mér mjög mikið.“
Hvað er það besta við að búa í smábæ?
„Að tilheyra samfélagi þar sem allir þekkja alla er dásamlegt, það lætur mér líða vel. Svo er auðvitað ansi þægilegt að hafa allt innan seilingar.“
Hvernig hafa börnin aðlagast lífinu á Hólmavík?
„Eldri gaurarnir okkar voru þriggja og sjö ára þegar við fluttum á Hólmavík og það tók þá enga stund að aðlagast lífinu hér. Þetta var mjög mikilvægt og jákvætt skref fyrir þá, held ég. Það er meiri sveigjanleiki í öllu og börn eru sjálfstæðari.“
Bjór eftir vinnu á föstudögum
Er ríkt menningar- og félagslíf á Hólmavík?
„Já, algjörlega. Íbúar eru ansi duglegir að finna upp á einhverju skemmtilegu. Hér eru skemmtileg söfn, góð sundlaug, kaffihús, bar, Þjóðfræðistofa, kirkjukór og ansi öflugt áhugamannaleikhús.
Svo er skemmtileg hefð hjá konunum í bænum en þær hittast alltaf á föstudögum eftir vinnu og fá sér bjór á Kaffi Galdri og ræða um daginn og veginn; það er góð og jákvæð leið til að enda vinnuvikuna.“
Ef þú ættir að lýsa Hólmavík í fimm orðum, hvaða orð myndir þú nota?
„Hmm, menning, marens, mannlíf, það er m-þema hjá mér,“ segir hún og hlær. „Og jú, kannski hamingja og hörmungar, þar sem hamingju- og hörmungardagar voru stór hluti af lífinu hér á Hólmavík í mörg ár.“
Margt að sjá og upplifa
Er Hólmavík vinsæll áfangastaður meðal ferðafólks?
„Já, algjörlega. Margt fólk ferðast hingað, þá sérstaklega yfir sumartímann, en mikill fjöldi stoppar aðeins hluta úr degi. Ég myndi gjarnan vilja sjá fólk stoppa lengur og njóta alls þess sem er í boði. Hér er margt að sjá og upplifa.“
Og svona í lokin, hvað er ómissandi að gera á Hólmavík og í kring?
„Galdrasýningin er mjög vinsæl og hefur lengi verið mikið aðdráttarafl, fjölmargir gera sér dagsferð frá Reykjavík til að kíkja á hana. Svo er alltaf gaman að kíkja á Náttúrubarnahátíðina á Ströndum, Sauðfjársetrið og Galdur Brugghús. En svo finnst mér Hólmavík vera best til fallin sem eins konar miðstöð til að skoða allt sem er hér í kring, þá meðal annars Djúpið, Drangsnes, Krossneslaug og Kaldalón.
Það eru margar náttúruperlur í kringum okkur.“