Hildur Sif Hauksdóttir er mikil áhugamanneskja um tísku, og eru þar klassískar töskur og stór hálsmen í uppáhaldi. Hún fékk mikinn tískuinnblástur þegar hún bjó um skeið í Lundúnum en núna er hún búsett hérlendis og vinnur í markaðsdeild Arion banka.
„Helstu áhugamálin mín eru tíska, góður matur, vín, hreyfing og ferðalög. Hef meðal annars búið í Lundúnum og í Flórída og elska að upplifa nýja staði og menningu.
Ég myndi segja að stílinn minn sér mjög einfaldur. Ég er hrifin af skandínavískri tísku, þar sem minna er meira. Á það til að klæðast einungis hlutlausum litum þar sem ég veit að ég fíla mig best í klassískum fötum og veit að þær flíkur passa við flest í fataskápnum mínum.“
Hvert sækir þú innblástur?
„Klárlega á samfélagsmiðlum og þá helst Pinterest. Ég get verið að dunda mér þar inni í marga klukkutíma, sérstaklega ef ég er að finna mér innblástur fyrir ákveðinn viðburð eða ferðalög. Svo á ég mína uppáhalds áhrifavalda á Instagram sem ég er hrifin af og á til að sækja í innblástur hjá.“
Ertu mikið fyrir fylgihluti?
„Ég hef í gegnum tíðina verið að safna mér í ágætt töskusafn þar sem ég hef bæði keypt sjálf og fengið í gjafir. Ég elska að finna mér merkjavörutöskur í ,,second hand’’-búðum og eru flestar í safninu mínu vintage. Annars er ég líka mjög hrifin að alls kyns skarti og þá helst hringum, eyrnalokkum og stórum, karakter hálsmenum.“
Hver eru bestu og verstu fatakaup sem þú hefur gert?
„Bestu kaupin eru líklega vintage Dior Saddle Bag sem ég fann í San Francisco fyrir nokkrum árum síðan. Hún var búin að vera á óskalista hjá mér í nokkurn tíma og það var yndislegt að finna nákvæmlega sömu tösku og ég keypti á góðu verði. Verstu kaup verða líklega að vera Balenciaga Triple S-strigaskórnir mínir, það er dýrasta skópar sem ég hef fjárfest í og þeir hafa því miður ekkert verið notaðir nýlega.“
Er einhver ein flík sem þú myndir mæla með að fjárfesta í, sem gott er að eiga í fataskápnum?
„Fyrsta sem mér dettur í hug eru góðar vintage Levis-gallabuxur. Það getur verið erfitt að finna þær og það þarf líklega að máta að minnsta kosti tíu til að finna besta sniðið.“
Hvar verslarðu helst?
„Það er alltaf gaman að kíkja á Andrá, Húrra og GK Reykjavík en annars er ég líka mjög dugleg að fara í Zöru og Ginu Tricot. Mig langar að vera duglegri að kíkja í Hertex og Rauðakross-búðirnar, það er svo gaman að finna einstakar flíkur þar. Ég verð svo að fá að mæla með að nýta sér leigur á kjólum og fatnaði fyrir sérstök tilefni, það er mun ódýrara og umhverfisvænna en að kaupa sér nýtt og ég hef sjálf mikið verið að nýta mér síðuna dajmmleigan.is. Annars hef ég nýlega verið að versla mest á Revolve á netinu, og er mjög hrifin.“
Er eitthvað tískutengt á óskalista hjá þér?
„Það sem er helst á óskalistanum fyrir sumarið eru góðir vintage-hælar frá merkjum eins og Gucci eða Dolce and Gabbana og einhver sæt sumartaska frá MiuMiu.“
Hvernig fannst þér götutískan í Lundúnum?
„Mér fannst æðislegt að fá innblástur frá tískunni í Lundúnum. Fólk klæðir sig svo allt öðruvísi en heima á Íslandi, og það er svo mikil fjölbreytni í stílunum. Mér fannst líka rosalega gaman að rölta um Chelsea, setjast á kaffihús og bara vera að „people watcha“. Ég fann það sjálf að minn stíll breyttist örlítið þegar ég var úti í London þar sem mér fannst ég hafa meira frelsi til að klæða mig nákvæmlega eins og ég vil þar sem maður í raun er ekki að fara rekast á neinn sem maður þekkir og það var enginn eins.“
Er eitthvað snyrtivörumerki sem er í uppáhaldi hjá þér?
„Snyrtivörumerkin sem ég nota helst er líklega Yves Saint Laurent eða Lancôme. Nýju kinnalitirnir frá YSL eru svo fallegir og sumarlegir.“
Hvað ertu búin að gera í sumar?
„Sumarið mitt hefur einkennst af því að njóta á Íslandi, og svo fór ég nýverið með vinkonum mínum til Spánar og fórum við á nokkra staði á strandlengjunni, alveg æðislegt.“