fim. 10. júlí 2025 08:14
María fékk forláta Volkswagen-bjöllu í fimmtugsafmælisgjöf.
Ólafsfjörður er risastórt leiksvæði!

Íþróttaálfurinn og fjallageitin María Bjarney Leifsdóttir styrkir heilsuna hjá yngstu og elstu kynslóð Norðlendinga. Þegar hún er ekki að kenna sund og íþróttir gengur hún um fjöll og firnindi með ferðamenn.

Í blíðunni á Ólafsfirði tók María á móti blaðamanni í hlýrabol og stuttbuxum, sólbrennd eftir norðlensku sólina. María er lærður íþróttakennari frá Laugarvatni en eftir að hún flutti norður tók hún við kennslu í vatnsleikfimi, og nú, tuttugu árum síðar, er hún enn að og kennir bæði á Ólafsfirði og Siglufirði. María sér um heilsueflingu eldri borgara sem koma bæði til hennar í vatnsleikfimi, leikfimi og félagsstarf. Eldri borgarar taka helminginn af hennar vinnutíma en María sinnir einnig yngstu kynslóðinni á Ólafsfirði og kennir ungmennum bæði sund og íþróttir í fimmtíu prósent starfi. Næsta vetur hyggst hún þó breyta til og kenna handavinnu því áhugamálin eru margvísleg og henni er margt til lista lagt.

Lékum útilegumenn á Flateyri

María er fædd og uppalin á Flateyri, yngst af fimm systkinum.

„Pabbi er trillukarl og mamma vann í fiskinum og tók svo að sér að sjá um elliheimili. Þá fór ég að sjá um að elda fyrir pabba og afa og vann líka ung í frystihúsinu á sumrin. Það var mikið frelsi að alast upp á Flateyri og við vorum endalaust að þvælast í fjörunni og uppi í fjöllunum og við vinkonurnar þóttumst oft vera útilegumenn sem gætu lifað af landsins gæðum. Við rændum rabarbara í görðum og harðfiski í hjöllum,“ segir María og hlær.

María hefur nýtt sér ást sína á náttúrunni í kennslunni.

„Ég var með valgrein í skólanum hér sem hét Gnægtir náttúrunnar og var að hausti til svo við gætum nýtt okkur allt sem náttúran gefur okkur hér, svo sem sveppi, ber, fjallagrös, silung, rabarbara og fleira. Við fórum út í náttúruna að leita fanga og síðan var eldað úr uppskerunni í matreiðslu.“

Varstu alltaf íþróttastelpa?

„Já, en það sem var leiðinlegast var að það var ekkert íþróttahús heima, en við vorum í frjálsum á sumrin og keyrðum til Ísafjarðar í sundtíma. Svo var ég á skíðum og á skautum úti um allan bæ.“

 

Fleiri tímar í sólarhringnum

María og eiginmaður hennar Magnús Þorgeirsson kynntust í World Class í Reykjavík á unga aldri. Magnús vildi ólmur flytja norður í sinn heimabæ þar sem hann gæti komist nær fjöllunum og vetrarsporti og úr varð að þau fluttu til Ólafsfjarðar.

Spurð hvað sé það besta við að búa á Ólafsfirði, svarar María:

„Þetta er risastórt leiksvæði og hér er ég nálægt öllu því sem mér finnst gaman að gera. Við erum hér með fjöllin, bæði til að ganga á og fara á fjallaskíði og svo er hér risastórt vatn, Ólafsfjarðarvatn, sem hægt er að skauta á á veturna og veiða í á sumrin. Svo er hér yndisleg náttúra með berjalandi og veiði,“ segir hún, en María er ekki aðeins upptekin af alls kyns útivist því hún tekur einnig fullan þátt í félagsstarfi bæjarins.

„Ég er í leikfélaginu og í kórnum. Ein góð vinkona mín segir að ef maður býr í Reykjavík fer maður í leikhús en ef maður býr úti á landi fer maður í leikfélagið,“ segir María og segist hafa mjög gaman af því að standa á sviði og leika og syngja.

„Ég hef líka mikinn áhuga á handverki og það vantaði handavinnukennara þannig að ég sló til að kenna handavinnu næsta haust,“ segir María og sýnir blaðamanni skemmtilegt handverk þar sem veður kemur við sögu, en hver lína sem hekluð er táknar veðrið þann dag; hvar sem María er stödd hverju sinni.

„Hver rönd í teppinu táknar einn dag og eru bláir litir kaldir en rauðir heitir. Ég var á Kanarí í janúar og því er ein rauð rönd í byrjun. Þetta er rosalega skemmtilegt,“ segir hún, en þegar teppið er skoðað eru ekki margir kaldir litir, enda segir María veturinn hafa verið mjög góðan. Ljóst er að sjaldan fellur Maríu verk úr hendi.

„Ég er stundum spurð hvað ég hafi marga klukkutíma í sólarhringnum.“

 

Gönguferð í hræðilegu veðri

Á sumrin þegar skólarnir eru lokaðir og eldri borgarar fá frí frá sundleikfimi, sinnir María gönguferðum hjá Ferðafélaginu Trölla.

„Við erum með fjallgöngur upp um allar trissur fyrir ferðamenn og hvern sem er,“ segir hún.

„Ég og vinkona mín Harpa vorum búnar að ganga með það lengi í maganum að fara með fólk í fjallgöngur því okkur langaði að fá fleiri til að njóta. Við erum líka félagsverur og byrjuðum á að bjóða fólki í ókeypis fjallgöngur til að æfa okkur og setja okkur inn í þetta. Þá hét þetta ekki neitt, en eftir tvö ár tókum við upp nafnið Ferðafélagið Trölli sem var reyndar til hér áður en lá í dvala. Okkur fannst þetta flott nafn og fengum að lífga það við,“ segir hún.

„Við setjum upp göngudagskrá fyrir sumarið sem við auglýsum á hinum og þessum stöðum en tökum líka að okkur sérsniðnar ferðir fyrir hópa,“ segir hún.

„Í fyrra meiddist leiðsögumaður hjá Veseni og vergangi og tókum við því að okkur göngur fyrir hann, dagsferðir. Við lentum í hræðilegu veðri í fyrstu ferðinni! Fyrst var hellirigning, svo snjókoma og skafrenningur. En fólkið lét það ekki á sig fá og vildu þau ekki snúa við. Þau voru velbúin og til í allt. Við vorum með rosalegan mótvind og ég hélt þá að við fengjum meðvind á leiðinni niður en þá hafði vindur snúist. Snjórinn var svo djúpur að við sukkum upp að læri í hverju skrefi! En þau voru svo kát og glöð,“ segir hún og brosir.

Ekki hægt að láta sér leiðast

Þú liggur ekkert í leti á sumrin heyri ég!

„Ó nei. Svo hef ég gaman af því að rækta garðinn minn og elska að vera úti í garði eða í gróðurhúsinu að dúlla mér,“ segir María og leiðir blaðamann inn í gróðurhús og um allan garð. Kanínan Pepsi skottast um garðinn og þarf María að passa að hún komist ekki í uppskeruna.

Tréhús alsett gömlum litríkum skíðum vekur eftirtekt.

„Mér datt í hug að gera skíðalistaverk,“ segir hún og hlær.

„Hann var reistur fyrir krakkana en við lentum eitt sinn í því að hér bönkuðu upp á spænskir ferðamenn sem spurðu hvort þeir mættu gista í honum. Það var febrúar og átta stiga frost! Maggi sagði þeim að hann væri ekki uphitaður en þeir sögðu það í lagi; þeir væru með góða svefnpoka. Þeir gistu þarna fjórir, á smá fleti. Tveimur dögum síðar komu þeir aftur og gistu aftur,“ segir hún og hlær.

Við sláum botninn í skemmtilegt samtal á þessum góðviðrisdegi. María er alsæl að búa í náttúruparadísinni á Ólafsfirði.

„Ég mæli algjörlega með að búa á svona stað úti á landi. Það er ekki hægt að láta sér leiðast! Fólk sem býr í Reykjavík er að missa af svo mörgu.“

til baka