Jenna Huld Eysteinsdóttir húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hún spurningu frá 17 ára stúlku sem segist vera með mikið af bólum í andlitinu.
Hæ hæ,
ég er 17 og er búin að vera glíma við bólur síðan ég var 10-11 og búin að prófa doxylín og differin og er á pillunni mycrogyn en mér finnst húðin stíflast til dæmis fyllist mikið í „pores“ hjá mér. Eru einhver ráð við því?
Kveðja,
BF
Sæl og takk fyrir spurninguna.
Þegar það er of mikið af karlhormónum eða andrógenum í líkamanum eins og oft gerist í kringum unglingsaldurinn þá eykst virkni fitukirtlanna í húðinni, húðin verður olíukenndari og stíflast þar af leiðandi auðveldlega. Getnaðarvarnarpillur sem bæla niður þessi andrógen geta oft gert kraftaverk og komið jafnvægi á fitumyndun húðarinnar. Microgyn er ágætis getnaðarvörn en er ekki með mikil andrógen bælandi áhrif eins og t.d. Yasmin eða Drovelis.
Spurning hvort þú ættir að prófa að skipta um getnaðarvörn. Einnig er gott að nota hreinsi á bæði morgnana og kvöldin með bæði salicylsýru og ávaxtasýrum (AHA). Þessar sýrur hreinsa vel svitaholurnar og losa um stíflur. Ef ekkert af þessum ráðum hjálpa og þú færð enn bólur og fílapensla þá er næsta skref að tala við húðlækni varðandi sterka bólulyfið Decutan.
Kær kveðja,
Jenna Huld Eysteinsdóttir húðlæknir á Húðlæknastöðinni og Húðvaktinni.
Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Jennu Huld spurningu HÉR.